Guðbjörg Svava Eysteinsdóttir fæddist á Bræðrabrekku í Bitrufirði 3. febrúar 1924. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 22. desember 2020.

Foreldrar hennar voru Guðrún Magðalena Skúladóttir, f. 14. desember 1989, d. 6. júlí 1978, og Eysteinn Eymundsson, f. 10. ágúst 1889, d. 30. janúar 1982.

Svava var næstelst fjögurra systkina, hin eru: Torfi, f. 22. júlí 1920, d. 11. júlí 1954, Ólafur Skúli, f. 30. ágúst 1928, og Kristjana Lilja, f. 14. nóvember 1933, d. 1. janúar 2019.

Hinn 29. júní 1946 gekk Svava að eiga Halldór Jónsson frá Broddadalsá í Kollafirði, f. 10. júní 1913, d. 25. ágúst 2001. Foreldrar hans voru Jón Brynjólfsson, f. 25. júní 1875, d. 11. júlí 1940, og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 11. júlí 1873, d. 10. desember 1952. Þau bjuggu á Broddadalsá.

Börn Svövu og Halldórs eru: 1) Gunnhildur, f. 7. mars 1946, eiginmaður Sigurkarl Ásmundsson. 2) Ásdís, f. 24. apríl 1947, eiginmaður Pálmi Ásmundsson, látinn. 3) Guðrún, f. 31. maí 1949, eiginmaður Már Sveinbjörnsson. 4) Torfi, f. 29. maí 1954, eiginkona Unnur Þorgrímsdóttir. 5) Jón, f. 11. apríl 1961.

Barnabörnin eru 18, langömmubörnin 25 og langalangömmubörnin níu.

Svava ólst upp á Bræðrabrekku til níu ára aldurs, en flutti þá með fjölskyldu sinni að Gilsfjarðarbrekku í Gilsfirði.

Hún var í Húsmæðraskólanum á Staðarfelli 1943-1944. Hún flutti að Broddadalsá 1945 er hún hóf búskap með Halldóri og bjuggu þau þar þangað til hann lést. Hún hafði meðal annars áhuga á heilsufari og ættfræði og hannyrðum ýmiskonar.

Eftir andlát Halldórs flutti Svava að Hjallabraut 33 í Hafnarfirði. Hún dvaldi á Broddadalsá í mörg sumur, eða þangað til aldur og heilsa tóku völdin. Árið 2013 flutti hún á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Svövu fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 7. janúar 2021, klukkan 14. Einungis nánustu ættingjar verða viðstaddir útförina.

Streymt verður frá útförinni í facebookhópnum Útför Guðbjargar Svövu Eysteinsdóttur. Slóðin er:

https://www.facebook.com/groups/3768958526481442

Virkan hlekk á slóð má nálgast:

https://www.mbl.is/andlat

Við lát góðs vinar sækja minningarnar á hugann og ég rifja upp okkar góðu kynni, frá því við hittumst fyrst árið 1970. Ég fór norður á Broddadalsá um páska með kærustunni minni til að hitta tengdaforeldrana í fyrsta sinn. Veðrið var snarvitlaust þegar kom út Hrútafjörðinn og ekki sást út fyrir vegkantinn alla Bitruna og yfir Ennisháls. Neðst við Ennishálsinn norðanverðan yfirgáfum við rútuna og gengum heim um 200 metra og sáum varla handa skil. Þó rákumst við á hesthúsið og þá vissi Gunna hvar við vorum stödd. Fiðringurinn í maganum var fljótur að hverfa þegar inn var komið, ég boðinn velkominn til þeirra Svövu og Halldórs og mér varð strax ljóst að hér hitti ég fyrir öðlingsfólk. Það er langt síðan ég hætti að vera gestur á Broddadalsá.

Gestrisin voru þau alla tíð Svava og Halldór og þegar gest bar að garði var honum boðið inn í kaffi og spjall.

Ég minnist Svövu sérstaklega fyrir rósemina og jafnaðargeðið. Það var sama hvað gekk á, alltaf var hún róleg og yfirveguð. Það vakti strax athygli mína að hún hafði blómapotta í gluggakistum, þar sem hún sáði ýmsum fræjum, svo sem fyrir tómötum, paprikum og öðrum fræjum sem féllu til. Hún var natin við skrúðgarðinn sinn, sunnan undir eldhúsveggnum, þótt plönturnar ættu stundum erfitt uppdráttar vegna kulda og trekks.

Ættfræðin var eitt af hennar aðaláhugamálum og var með ólíkindum hvað hún gat rakið ættir í allar áttir og langt aftur. Það gat stundum verið erfitt að fylgja henni eftir, þegar hún byrjaði, sérstaklega þegar hún tók hliðarspor frá ættleggnum sem hún var að rekja og tengdi enn fleira fólk saman.

Hún sagði frá því að hún hefði verið afar áhugasöm fyrir hestum og útreiðum og hefði stundað þær á yngri árum.

Þegar Halldór féll frá árið 2001 keypti Svava sér íbúð á Hjallabraut 33 í Hafnarfirði, aðeins steinsnar frá okkur Gunnu. Við höfðum áhyggjur af því að hún yrði einmana, þekkjandi fáa. En annað kom á daginn. Hún var fljót að eignast vini og var afar vinsæl og hjálpleg í hópnum.

Hún ferðaðist talsvert eftir að hún kom suður. Meðal annars fór hún til Danmerkur, Skotlands, ökuferð um sunnanverða Evrópu og til Flórída í Bandaríkjunum.

Eftir að hún missti hægri fótinn vegna krabbameins dró úr ferðalögum og hægðist verulega um. Hún flutti inn á Hrafnistu um páska árið 2013 og bjó þar til æviloka. Hún hafði, meðal annars, fyrir sið að fara út fyrir anddyri Hrafnistu til að gá til veðurs og fá sér frískt loft. Hún kom annað slagið til okkar í mat og kaffi enda aðeins um 500 metrar á milli okkar. Í góðu veðri líkaði henni best ef ég ók henni í hjólastólnum á milli húsanna, þá fékk hún bæði frískt loft og gat virt fyrir sér byggðina og gróðurinn á leiðinni.

Svava hefði orðið 97 ára 3. febrúar næstkomandi þannig að hún átti langa og farsæla ævi. Hún lést þriðjudaginn 22. desember sl. og fékk friðsælt andlát en það var einmitt nákvæmlega eins og hún vildi hafa það.

Ég kveð Svövu tengdamóður mína með mikilli virðingu og hlýhug og veit að nú hefur hún fundið Halldór sinn í Sumarlandinu eilífa.

Már Sveinbjörnsson.

Ég var svo heppin að fá að kynnast öllum mínum öfum og ömmum vel, en engum jafn vel og henni ömmu Svövu. Það er svo furðulegt að kveðja einhvern sem maður hefur þekkt svona vel og lengi. Allir sem þekktu ömmu vita hversu einstök manneskja hún var. Þolinmóðari, glaðlyndari og einlægari manneskju er erfitt að finna. Þegar ég rifja upp allar góðu minningarnar þá finnst mér eins og ég hafi fengið að eiga tvær ömmur, fyrst ömmu í sveitinni og svo ömmu í Hafnarfirðinum.

Amma bakaði bestu kökur sem ég hef smakkað og virtist aldrei hafa neitt fyrir því. Hafravínarbrauðin og heimagerðu flatkökurnar myndu gera alla bakara landsins afbrýðisama. Hún var með eindæmum góð við dýrin, laumaði án efa hundinum oftar inn en afi vissi og hafði einstakt lag á hænunum. Mér er það svo minnisstætt þegar ég fór með unglingssveitadrengnum (nýkominn með byssuleyfi) niður í fjöru að æfa sig. Stolt komum við til ömmu og sögðumst hafa skotið skarf. Sú gamla sagði ekki orð heldur fór í fjöruna, sótti skarfinn, sauð hann og lét okkur borða hann. Skilaboðin voru skýr: maður étur það sem maður drepur.

Náttúran var ömmu alltaf mikilvæg og hún var alveg fullviss um að enginn kvilli væri það slæmur að ekki mætti laga hann með fjallagrösum og hvítlauk.

Eftir að afi dó og amma flutti að mestu suður þá varð ég svo heppin að hún flutti í Hafnarfjörðinn og því urðu heimsóknirnar miklu fleiri. Amma sýndi á sér alveg nýja hlið. Hún elskaði falleg föt og leyfði sér að kaupa rauða stólinn sem hana hafði svo lengi langað í. Hún sökkti sér í handvinnu og skipti þá engu hvort um var að ræða prjóna, mála myndir eða búa til skartgripi, allt sem hún gerði var svo fallegt. Hún eignaðist svo margar vinkonur og mátti aldrei aumt sjá, alltaf var hún mætt hvort sem var til að aðstoða eða bara fá sér smá púrtvín og hlusta.

Þegar hún greindist með krabbameinið og ljóst var að hún yrði bundin við hjólastól vissi maður að mikið var af henni tekið, en aldrei lét hún eitt neikvætt orð falla. Hún fann alltaf ljósu punktana í öllu og sagði aldrei neitt í geðvonsku. Í staðinn fyrir að ganga um bæinn eins og hún var vön þá fékk hún sér rafskutlu og fór örugglega hraðar um en margir jafnaldrar hennar.

Það var ein mesta lukka í mínu lífi að fá Svövu fyrir ömmu, hún var svo hlý og mjúk og gaf manni alltaf langbesta faðmlag sem hægt var að óska sér. Hún heilsaði manni alltaf og kvaddi með svo einlægum kveðjum og alltaf fékk maður tvo kossa, því einn var ekki nóg.

Það er í algerri eigingirni að ég syrgi andlát ömmu sem náði nærri 97 ára aldri, því hún var svo innilega búin að skila heiminum betri en þegar hún kom í hann og á hvíldina skilið mest af öllum.

Jóhanna Másdóttir.