Vinirnir Ásdís og Daði Freyr eru hvergi nærri hætt sínu samstarfi.
Vinirnir Ásdís og Daði Freyr eru hvergi nærri hætt sínu samstarfi. — Ljósmynd: Skjáskot/Youtube
Daði Freyr og Ásdís María gáfu út lagið Feel the Love á dögunum ásamt skemmtilegu myndbandi sem bæði þau og dansarinn George n Roses slá í gegn í. Lagið sjálft fjallar um sjálfsást og það að þóknast ekki því fólki sem vill breyta þér.

Tónlistarfólkið Daði Freyr og Ásdís María gáfu á dögunum út lagið Feel the Love en þetta er annað lagið sem þau gefa út saman.

Á nýársdag kom svo út myndband við lagið þar sem bæði Daði og Ásdís fara með stórt hlutverk en dansarinn George n Roses slær algjörlega í gegn í myndbandinu. Lagið er hresst og skemmtilegt og fjallar aðallega um sjálfsást.

Eins og flestum Íslendingum er kunnugt mun Daði Freyr keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision í Rotterdam á þessu ári eftir að síðustu keppni var aflýst. Bæði Daði og Ásdís gáfu sér tíma til þess að spjalla við blaðamann K100 þar sem þau deila hugmynd sinni á bak við lagið, samvinnunni og lífinu úti í Berlín á þessum skrítnu tímum. Það er ekki að sjá á þeim að nóg sé um að vera en bæði voru þau virkilega hress og í miklu fjöri þegar blaðamaður tók tal af þeim.

„Mér líður bara mjög vel sko, ég er bara búinn að hafa það næs um jólin. Svo var ég að gefa út lag og því gengur bara rosa vel,“ segir Daði.

En hver er hugmyndin á bak við lagið?

„Ég ætlaði að semja svona „klúbbabanger“ einhvern, eitthvert skemmtilegt lag fyrir klúbbinn en svo þegar textinn fór að koma út þá var frekar augljóst að þessu lagi var ætlað eitthvert stærra hlutverk. Ég vissi ekki að mig vantaði að gera svona lag sem að tjáði einhverja svona sjálfsást. Þetta fjallar rosalega mikið um að vera ekki að pæla í því sem annað fólk segir. Þetta fjallar um að leyfa ekki annarra manna skoðunum að hafa áhrif á það hvernig þú „presentar“ þig úti í lífinu. Það er ótrúlega margt fólk í gegnum tíðina sem hefur þótt ég vera of mikið og tala of mikið og ég eyddi svo geðveikt miklum tíma í að vilja ótrúlega mikið þóknast þeim en ekki getað það af því að ég get ekki hætt að tala svona mikið og það er leiðinlegt að vera eins og annað fólk er að segja manni að vera og þetta lag er um það,“ segir Ásdís sem byrjaði upphaflega að semja lagið án Daða.

„Svo kom ég með þetta lag til Daða og hann „put his magic into it“ og þá varð það svona æðislegt,“ bætir hún við.

Hvernig hófst ykkar samstarf?

„Við erum bestu vinir og hittumst mjög reglulega, oftast til þess að gera ekki tónlist heldur bara til þess að hafa gaman og við vorum með svona lítið „get to geather“ heima hjá mér þar sem það má náttúrulega ekki vera með mikið af partíum núna út af Covid og þetta var svona í eitt af fáum skiptum þar sem máttu hittast aðeins fleiri en tveir hér í Berlín. Hún spilaði þá fyrir mig „demo“ af þessu lagi og var að tala um einhvern „pródúser“ sem hún ætlaði að fá til þess að vera með í þessu lagi en ég sagði bara: „Hey, hann er ekkert að fara að vera með í þessu lagi sko,“ og fékk að troða mér inn í þetta. Svo bara hittumst við nokkrum sinnum og gerðum grunninn saman og „the rest is history“,“ segir Daði.

Eins og gefur að skilja hefur verið svakalega mikið að gera hjá Daða undanfarið í undirbúningi fyrir Eurovision og spurður að því hvar hann fann sér tíma til þess að semja, taka upp og gefa út lag og myndband segir hann í góðlátlegu gríni að hann hafi þurft að forgangsraða lagaútgáfum.

„Við byrjuðum náttúrulega á laginu alveg í ágúst og þetta er alveg búið að vera svolítið ferli svo það er svolítið síðan við byrjuðum á þessu. En ég þarf bara að setja „priority‘s“ og strax og ég heyrði þetta lag vissi ég að þetta væri eitthvað sem við yrðum að koma út og ef það truflar Eurovision þá bara verður það að hafa það, því þetta lag þurfti að gerast,“ segir hann brosandi.

Allir Íslendingar að verða brjálaðir af spennu fyrir Eurovision

Ásdís segir allt farið að verða brjálað hjá Íslendingum vegna spennu fyrir því að Daði stígi loksins á svið og hlakkar hún til þess að sjá hann sigra í Eurovision-keppninni.

„Það ólgar allt heima hjá fólki af Daða „antisipation“ og það getur enginn beðið eftir að sjá hann á sviði, vinna í Eurovision fyrir Íslands hönd í fyrsta skiptið. Án gríns „bring it home daddy, bring it home“,“ segir hún.

Myndbandið við lagið Feel the Love er tekið upp í Metropol-sal í Berlín ásamt því að þau notuðust við Green Screen-stúdíó. Það er María Guðjohnsen sem sér um þrívíddarteikningarnar í myndbandinu og leikstjóri myndbandsins er Mia Hennig.

Ítarlegt viðtal við Daða og

Ásdísi má lesa á síðu K100.is.