Þjóðskrá Íslands hefur opnað fyrir umsóknir á skráningu kyns sem kynsegin/annað fyrir þá einstaklinga sem eftir því óska.

Þjóðskrá Íslands hefur opnað fyrir umsóknir á skráningu kyns sem kynsegin/annað fyrir þá einstaklinga sem eftir því óska. Fram kemur á vef stofnunarinnar, að leitað var til Samtakanna '78 eftir samstarfi við að finna heiti fyrir hlutlausa skráningu kyns og var þetta heiti talið ná mestri sátt innan hinsegin samfélagsins.

Lög sem veita einstaklingum rétt til að skilgreina kyn sitt tóku gildi 6. júlí 2019 og fékk þjóðskrá Íslands 18 mánaða aðlögunartíma til að gera nauðsynlegar breytingar. Meðal annars leitaði Þjóðskrá til Árnastofnunar með vafamál á einstaka heitum sem notuð eru í íslenskri tungu tengd kyni. Hefur verið efnt til hýryrðakeppni hjá Samtökunum ´78 í samvinnu við Árnastofnun til að finna ný orð sem hægt er að nota um stöðu kynsegin einstaklinga, t.d. hvaða orð skal nota um kynsegin einstakling sem misst hefur maka sinn.