Sigurlín Hermannsdóttir segir á Boðnarmiði að gott sé að hafa eitthvað að dunda við á nýju ári: Verk mín eru stuðlasterk, við stefið keppi, ég hamast við, úr hendi' ei sleppi og hekla litríkt ullarteppi.

Sigurlín Hermannsdóttir segir á Boðnarmiði að gott sé að hafa eitthvað að dunda við á nýju ári:

Verk mín eru stuðlasterk, við stefið keppi,

ég hamast við, úr hendi' ei sleppi

og hekla litríkt ullarteppi.

Guðmundur Arnfinnsson segist hafa vaknað á ellefta tímanum og ort:

Gríma hylur mold og mar,

morgun þyl ég bænirnar,

skuggalegt er skýjafar,

skáldi tregt um yrkingar.

Vetur enn ei víkur frá,

varla nenni að fara á stjá,

heldur dreyma vorið vil,

sem veitir heimi ljós og yl.

Gylfi Þorkelsson hefur gaman af að glíma við rímþrautir:

Enn að róla eftir jól,

eins og fól í bólu.

Ei mér dóla upp á hól,

ekkert skjól í gjólu.

Friðrik Steingrímsson yrkir öfugmælavísu!:

Úr æðsta stóli gengur glaður

greiðir leiðir arftakans.

Trump er ekki tapsár maður,

tel ég allir sakni hans.

Það var í fréttum, að starfsfólk hjá Matís prentaði girnilegan mat úr afgöngum og lúnum mat sem varð Gunnari Kr. Sigurjónssyni að yrkisefni:

Ég margoft hef mallað og brennt 'ann

og margsinnis heim fengið sent 'ann.

Mat sem ég snæði,

en sniðug þau fræði

að pota á takka – og prent'ann!

Í ljóðabók Arnar Arnarsonar Illgresi eru sjö sinnum þrjár stökur á blaðsíðu. Þessar eru fremstar:

Bros og hlátur eru í

ísamáti freðin.

Kuldahlátur hlæ ég því.

Hún er fátíð, gleðin.

Hræsni vex af hjálp og náð.

Hrælund þrífst við auðinn.

Örbirgð stétt er auðvalds bráð.

Úlfurinn étur sauðinn.

Sýp ég nú þitt sextugsfull,

satt frá reynslu greini:

Sumir steinar geyma gull –

gull er í þessum steini.

Gömul vísa í lokin:

Marjutetur vex í vetur

verður gild og há,

hún þess betur gengið getur

gaman verður þá.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is