Þórdís Þorvaldsdóttir fæddist 1. janúar 1928. Hún lést 13. desember 2020.

Útför Þórdísar fór fram 30. desember 2020.

Elsku amma Día. Það er erfitt að lýsa því í stuttri grein hversu mikið þú átt í mér og hversu mikið ég mun sakna þín.

Þú varst ekki þessi „týpíska“ amma sem bakar allar helgar og prjónar þess á milli.

Þú varst amman sem sótti mig alltaf í skólann þegar ég fékk mígreni. Þú varst amman sem spilaði undir á píanó þegar ég æfði mig á básúnuna. Þú varst amman sem skutlaði mér á fjöldann allan af íþróttamótum og keppnum. Þú varst amman sem hafði tilbúinn hádegismat fyrir mig á hverjum degi þegar ég var í MH. Þú varst amman sem las yfir allar ritgerðir hjá mér og leiðréttir af þinni alkunnu snilld. Þú varst amman sem var alltaf til staðar. Undantekningarlaust.

Það þarf ekki að vera slæmt að minningarnar um þig séu ekki kleinulykt og lopapeysur. Minningarnar sem ég á um þig eru svo miklu stærri og meiri.

Það sem þú hefur kennt mér er að dugnaður er nauðsynlegur. Nýtni er af hinu góða. Allir eru jafnir og að hjálpsemi eigi alltaf að vera í fyrirrúmi.

Svínabeinin á föstudögum, innkaupin á laugardögum, sunnudagsbíltúrarnir með þér og afa Jóni – endurtekið hverja einustu helgi í mörg ár. Samverustundir sem ég vona að ég muni sjálfur eiga með mínum barnabörnum í framtíðinni.

Elsku amma Día. Ég verð þér ævinlega þakklátur fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Hvernig þú tókst Katrínu minni opnum örmum og að strákarnir okkar hafi fengið nokkur ár með þér.

Ég mun alltaf halda minningu þinni á lofti og ég mun gera mitt besta til að halda í þau gildi sem þú lifðir eftir. Ég mun alltaf elska þig út af lífinu.

Takk fyrir allt. Þú ert best.

Knús til þín, elsku amma Día.

Lárus Jón, Katrín og

strákarnir.