Anna Dóra Sæþórsdóttir
Anna Dóra Sæþórsdóttir
Eftir Önnu Dóru Sæþórsdóttur: "Aðdráttarafl há-lendisins felst ekki síður í fámenninu og fjarveru hins manngerða enda er þar að finna eitt víðfeðmasta óbyggða svæði í Evrópu."

Náttúruferðamennska er einn helsti vaxtarbroddur ferðaþjónustunnar og hún byggist á upplifun ferðamanna í fjölbreyttri náttúru. Áfangastaðir með einstætt og tiltölulega óspillt umhverfi geta aukið samkeppnishæfni sína með því að hlúa vel að slíkum svæðum. Lítt spillt náttúra er því auðlind fyrir ferðaþjónustuna og grundvöllur fyrir gjaldeyrisöflun þeirra þjóða sem eiga slíka auðlind. Ýmsar rannsóknir benda til að áhugi ferðamanna á að heimsækja svæði aukist við að það sé gert að þjóðgarði.

Þjóðgarðar gegna tvenns konar hlutverki: annars vegar að vernda náttúruna og þær menningarminjar sem þar er að finna og hins vegar að gefa fólki kost á að kynnast og njóta svæðisins. Lengi framan af heimsóttu fáir slík svæði en á undanförnum áratugum hafa vinsældir slíkra svæða aukist mjög. Í sumum þjóðgörðum hefur ferðamönnum fjölgað það mikið að árekstrar hafa komið upp milli þessa tvíþætta hlutverks þjóðgarða, þ.e. verndunar og nýtingar, og hefur það verið ein megináskorunin við að stýra þjóðgörðum undanfarna áratugi.

Tromp Íslands eftir veirufaraldur

Fyrir kórónuveirufaraldurinn mátti heyra að sumum landsmönnum þætti meira en nóg um þann fjölda erlendra ferðamanna sem kom til landsins. Fjölgunin var enda hröð og fór úr rúmlega hálfri milljón erlendra ferðamanna árið 2011 í 2,3 milljónir árið 2018. Þessi mikli fjöldi færði þjóðinni miklar gjaldeyristekjur og var ferðaþjónustan orðin stærsta gjaldeyrisskapandi greinin, stærri en sjávarútvegur og stóriðja samanlögð. Flest ný störf frá fjármálakreppunni 2008 voru í ferðaþjónustu. Síðan kom veiran, ferðaþjónustan hrundi og landsmenn fundu á eigin skinni hvað ferðaþjónustan skiptir efnahag landsins miklu máli.

Nú glittir í bjartari framtíð en veiran hefur kostað þjóðarbúið mikla fjármuni. Eins og eftir fjármálakreppuna árið 2008 er ferðaþjónustan skærasta vonarstjarnan. Margir munu vilja ferðast eftir innilokunina undanfarið ár og mun náttúra Íslands eflaust laða marga að. Samkeppnin verður hins vegar hörð og þá verður gott fyrir áfangastaði að getað spilað út trompi til að auka samkeppnisyfirburði sína. Hálendisþjóðgarður getur orðið stóra tromp Íslands.

Þjóðararfurinn á hálendi Íslands

Miðhálendi Íslands er um margt einstakt á heimsvísu. Þar eru eldstöðvar, hraun, jöklar, sandar, gróðurvinjar, fjöll og heiðar. Aðdráttarafl hálendisins felst ekki síður í fámenninu og fjarveru hins manngerða enda er þar að finna eitt víðfeðmasta óbyggða svæði í Evrópu. Slík svæði eru fágæt í heimalöndum flestra ferðamanna sem hingað koma. Undanfarin ár hafa landsmenn sótt æ meira í útivist af ýmsu tagi og er hálendið kjörvettvangur fyrir ýmiss konar ævintýraferðir. Að ferðast um hálendið er hluti af lífsgæðum Íslendinga, uppspretta gleðistunda og í hugum margra liggur þar sjálfur þjóðararfurinn. Náttúra hálendisins er hins vegar viðkvæm fyrir álagi og þarf því að fara varlega í allri umgengi um hana.

Tækifæri hálendisþjóðgarðs

Verði það stjórnarfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi samþykkt mun það skapa frábær tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og byggðirnar sem liggja næst þjóðgarðinum. Hálendisþjóðgarður myndi hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og skapa Íslandi sérstöðu á heimsvísu að því leyti að 30% landsins væri þjóðgarður. Til þess að vernda hálendið gegn ágangi þyrftu ferðamenn að dvelja sem mest í byggð og mannvirkin helst að vera á jöðrum hálendisins. Það mætti gera með því að gera fleiri skoðunarverða staði sem næst jaðri hálendisins aðgengilega. Náttúra Íslands er nefnilega það framandi í augum margra ferðamanna að þeir þurfa ekkert endilega að fara lengst inn á hálendið til upplifa þennan framandleika. Þetta hefur tekist vel sunnan og austan Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem ferðamenn, sem og þjóðgarðurinn sjálfur, hafa skapað fjölda starfa og eflt byggðirnar.

Leikreglur nauðsynlegar

Við stöndum á þeim tímamótum að mikilvægt er að setja skýrar leikreglur til framtíðar varðandi verndun og nýtingu hálendisins. Sú tillaga sem sett er fram í frumvarpi um hálendisþjóðgarð er vænleg leið til þess að vernda þann þjóðararf sem miðhálendið er. Í frumvarpinu er tekið tillit til sjónarmiða ólíkra hópa og landsmenn geta sannarlega haldið áfram að ferðast um þetta stórbrotna svæði án þess að þjóðgarðurinn hefti för. Í frumvarpinu er mörkuð stefna hvað varðar náttúruvernd, auk þess sem stjórnun svæðisins og uppbygging innviða verður markvissari en ella. Betri yfirsýn fæst með því að líta á hálendið sem eina stóra verndarheild og þannig næst að samræma betur landnýtingu svæðisins. Í kjölfar stofnunar hálendisþjóðgarðs færi í hönd gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir garðinn þar sem útfærð yrðu mismunandi verndarstig innan þjóðgarðsins, auk mótunar atvinnustefnu. Skýrt og vel útfært skipulag þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi er lykilatriði fyrir nýtingu þeirrar viðkvæmu auðlindar sem hálendið er. Ef við berum gæfu til þess að tryggja að vernd gangi ávallt fyrir þegar kemur að hinu tvíþætta hlutverki þjóðgarða tel ég stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu ótvíræðan kost.

Höfundur er prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. annadora@hi.is