Bryndís Jónsdóttir fæddist 7. september 1925. Hún lést 26. desember 2020.

Útför Bryndísar fór fram 6. janúar 2021.

Það fór svo að systradæturnar og nöfnurnar kvöddu báðar með fárra mánaða millibili árið 2020. Í uppvextinum voru þær gjarnan kallaðar Litla og Stóra vegna tveggja ára aldursmunar. Litla, Bryndís Jónsdóttir, varð þó fljótt sú stærri, hávaxin og glæsileg með dillandi hlátur og útgeislun. Hún var og verður mikil og góð fyrirmynd og sérstaklega er mér heiður að því að eiga sama afmælisdag og Bryndís Jóns.

Minningabrotum skýtur upp í hugann.

Fyrst ber að nefna gömlu góðu dagana á Laugarásveginum þar sem samgangur fjölskyldna á 61 og 63 var mikill. Við krakkarnir lékum okkur saman og svo voru drekkutímar. Hjá Bryndísi fengum við stundum kókómalt og kremkex sem sjaldan var í boði á 63.

Næst bregður Bryndísi fyrir í dyragættinni á herbergi Herdísar. Ég mátti gista og komið var fram yfir miðnætti „Er þetta ekki orðið ágætt?“ spyr Bryndís. Við Herdís vorum á fullu að innrétta hús fyrir Barbie og Ken og ekki baun syfjaðar. Herdís var sjálfsagt með þeim fyrstu á Íslandi að eignast þetta flotta par, það hafði hún fengið að gjöf frá Níní móðursystur sinni í Bandaríkjunum.

Þá bregður fyrir mynd af Bryndísi við skrifborð á Ljósprentstofu Sigríðar Zoega & Co; ákveðnum, rólegum og sanngjörnum yfirmanni þess góða fyrirtækis. Því kynntumst við systkin á 63 í sumarvinnu þar.

Fyrir nokkrum árum kom ég að mannlausu húsi mömmu. Jónas var í garðverkum á 61 og sagði mér að þær nöfnur væru þar inni í konunglegu brúðkaupi. Mikið rétt, þarna sátu þær svo huggulega í sjónvarpsherbergi Bryndísar og horfðu á beina útsendingu frá brúðkaupi Svíaprinsessu með öl og danskt smörrebröd sem Bryndís hafði töfrað fram. Þetta var henni líkt, fallega framreiddar veitingar en aðalatriðið að „hygge sig“.

Allt lék í höndum Bryndísar. Hún var prjónakona par excellence og ónefnt er þá allt sem hún saumaði. Sængurgjöfin frá henni þegar Halldór sonur minn fæddist var heilt heimferðarsett, tel reyndar að það hugtak hafi ekki verið til á þeim tíma. Ég held mikið upp á mynd sem tekin er við innganginn á 61: Bryndís heldur á Halldóri í fína settinu og Snæbjörn á heimiliskettinum Snjólfi. Þá rifjast líka upp þegar Bryndís kom út á tröppur til að kalla á Snjólf heim í matinn.

Við Dagný systir heimsóttum Bryndísi síðsumars 2020 á fallegt heimili hennar í Mörkinni og nutum málverka föður hennar og ljósmynda móður hennar. Það var svo gaman að hlusta á Bryndísi lýsa myndunum. Fallega, stóra málverkið af blómvendinum var trúlofunargjöf frá föður hennar. Lýsing á því þegar þær nokkrar frænkur og vinkonur á unglingsaldri fengu að dvelja einar í bústað á Þingvöllum var stórskemmtileg og Bryndís hló sínum smitandi hlátri. Þá barst í tal morgunkaffi Bryndísanna til skiptis á Laugarásveginum. Ein hringing annarrar til hinnar var merki um að allt væri tilbúið.

Við Atli Rúnar sendum börnum Bryndísar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Hún skilur eftir sig margar hlýjar og góðar minningar sem við erum þakklát fyrir að eiga nú þegar komið er að leiðarlokum.

Guðrún Helgadóttir.

Elsku Bryndís amma og langamma. Á kveðjustundu erum við fyrst og fremst afar þakklát fyrir allan tímann sem við fengum með þér.

Þegar hugsað er til baka þá eru það allar góðu samverustundirnar sem standa upp úr. Það yljar að hugsa til baka um öll þau ævintýralegu matarboð sem haldin voru á Laugarásveginum, þar sem amma bjó í rúmlega 60 ár við hliðina á æskuvinum sínum en samband þeirra ömmu og Bryndísar Þorsteins var ekkert minna en einstakt.

Á seinni árum var alltaf tilhlökkun að koma í kaffi og ræða atburði líðandi stundar en hún vissi alltaf best allra í fjölskyldunni hvað var að gerast hjá ættingjum okkar, hvaða veislur voru fram undan, hver í fjölskyldunni væri að fara til útlanda eða hvað væri að gerast í heimsfréttunum. Amma Bryndís var alltaf höfðingi heim að sækja, hvort sem það var í mat eða drykk. Krakkarnir munu heldur aldrei gleyma nammiskálinni góðu í stofunni með sínum óþrjótandi birgðum, sem endalaust var laumast í.

Sumarbústaðaferðirnar í Hvalfjörðinn, þar sem stórfjölskyldan hittist í desember ár hvert til að sækja jólatré og borða nesti, voru alltaf ævintýri og nokkuð sem við öll munum minnast. Þó að sú hefð sé ekki lengur til staðar mun hún fylgja okkur og börnunum um ókomna tíð.

Blessuð sé minning um einstaka konu. Hún mun ætíð lifa í hjarta okkar og eru það forréttindi að börnin okkar hafi náð að kynnast langömmu sinni jafn vel og raun bar vitni. Hvíldu í friði elsku amma og langamma.

Guðmundur Ingvi,

Magðalena og börn.