[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska karlalandsliðinu í handknattleik fengu skell á heimavelli í gær þegar þeir tóku á móti Slóvenum í undankeppni EM.

* Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska karlalandsliðinu í handknattleik fengu skell á heimavelli í gær þegar þeir tóku á móti Slóvenum í undankeppni EM. Spennandi leikur virtist þó í uppsiglingu því Hollendingar voru yfir lengi vel í fyrri hálfleik og marki yfir að honum loknum, 15:14. Slóvenar tóku hinsvegar völdin strax í byrjun síðari hálfleiks, völtuðu yfir heimamenn og unnu að lokum með ellefu marka mun, 34:23. Var þetta fyrsti leikur Slóvena í riðlinum en Hollendingar höfðu áður sigrað Tyrki með eins marks mun.

*Knattspyrnumaðurinn Oliver Heiðarsson hefur samið við FH-inga en hann kemur til Hafnarfjarðarliðsins frá Þrótti í Reykjavík. Oliver er 19 ára gamall og skoraði fjögur mörk í nítján leikjum Þróttar í 1. deildinni á síðasta ári. Faðir hans, Heiðar Helguson , var atvinnu- og landsliðsmaður um árabil og lék einnig með Þrótti um skeið.

*Bandaríkin sigruðu Kanada 2:0 í úrslitaleik heimsmeistaramóts U20 ára landsliða í íshokkí í fyrrinótt en leikið var í Edmonton í Kanada. Trevor Zegras var í aðalhlutverki en hann skoraði annað markið og lagði hitt upp. Þetta er fimmti heimsmeistaratitill Bandaríkjanna í þessum aldursflokki.

*Írinn Mick McCarthy var í gær rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri APOEL á Kýpur en hann hafði aðeins stýrt liðinu í tvo mánuði. McCarthy, sem áður var stjóri ensku liðanna Ipswich, Wolves, Sunderland og Millwall ásamt því að þjálfa írska landsliðið, var fjórtándi stjóri APOEL á aðeins fimm árum.

*Hollenski knattspyrnumarkvörðurinn Guy Smit hefur samið við Leiknismenn í Breiðholti um að leika með þeim í úrvalsdeildinni í ár. Smit, sem er 24 ára, kom til Leiknis frá FC Eindhoven fyrir síðasta tímabil og lék nítján af tuttugu leikjum liðsins í 1. deildinni.

* Tékkneska karlalandsliðið í handknattleik var sent heim frá Færeyjum í gær eftir að kórónuveirusmit greindust í hópi þess en Tékkar áttu að mæta Færeyingum í undankeppni EM í Þórshöfn í gærkvöld. Leiknum var frestað og sama verður væntanlega gert með seinni leik þjóðanna sem átti að fara fram í Tékklandi um helgina. Tékkar eiga að mæta Svíum í fyrsta leik sínum á HM í Egyptalandi 14. janúar.

*Króatinn Slaven Bilic, sem rekinn var úr starfi knattspyrnustjóra enska félagsins WBA rétt fyrir jól, var ekki lengi atvinnulaus. Hann hefur verið ráðinn stjóri Beijing Guoan sem hafnaði í þriðja sæti kínversku úrvalsdeildarinnar á síðasta ári.