Seyðisfjörður Miklar aurskriður féllu um miðjan desember í kjölfar gríðarlegrar úrkomu. Tjón af þeirra völdum nemur hundruðum milljóna.
Seyðisfjörður Miklar aurskriður féllu um miðjan desember í kjölfar gríðarlegrar úrkomu. Tjón af þeirra völdum nemur hundruðum milljóna. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nýliðinn desember var óvenjuúrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýliðinn desember var óvenjuúrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Mánuðurinn var með snjóléttasta móti miðað við árstíma en jafnframt sá vindasamasti í 28 ár. Þetta kemur fram í yfirliti Veðustofunnar um tíðarfar í desember.

Mikil úrkomuákefð var á Austfjörðum dagana 14. til 18. og féllu miklar aurskriður á Seyðisfirði, sú stærsta þann 18. desember, eins og rækilega hefur komið fram í fréttum. Hleypur tjón af þeirra sökum á hundruðum milljóna króna.

Fjöldi desemberúrkomumeta var settur á Norðaustur- og Austurlandi. Til dæmis á Hánefstöðum í Seyðisfirði, Gilsá í Breiðdal, Skjaldþingsstöðum, Vöglum og Sauðanesvita.

Mikil úrkoma mældist á sjálfvirkum úrkomustöðvum á Austurlandi. Mest mældist mánaðarúrkoman á Seyðisfirði, 813,5 millimetrar. Í Neskaupstað mældist úrkoman 628 mm, 587 mm á Fáskrúðsfirði og 564 mm á Eskifirði. Mikill hluti mánaðarúrkomunnar á þessum stöðum féll á tíu daga tímabilinu 9. til 18.

Mest var úrkomuákefðin dagana 14. til 18. desember. Heildarúrkoman á Seyðisfirði þessa fimm daga mældist 577,5 millimetrar. Það er mesta úrkoma sem mælst hefur á fimm dögum á Íslandi.

Á Akureyri mældist úrkoman í desember 211,9 millimetrar, sem er fjórfalt meiri en meðalúrkoma áranna 1961 til 1990. Úrkoman þar er sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga árið 1927. Úrkoma í Reykjavík í desember mældist 58,1 mm sem er 74% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 87,6 mm og 198,1 mm á Höfn í Hornafirði.

Snjólétt var víðast hvar

Mánuðurinn var snjóléttur víðast hvar á landinu. Alhvítir dagar í Reykjavík voru tveir sem er 11 færri en að meðaltali 1971 til 2000. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir sjö, þrettán færri en að meðaltali sama tímabils.

Meðalvindhraði á landsvísu var mikill, eða um 1,3 m/s yfir meðallagi. Meðalvindhraði í desember hefur ekki verið eins mikill síðan í desember árið 1992, en þá var hann töluvert hærri. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Að tiltölu var hlýjast á höfuðborgarsvæðinu í desember, í innsveitum suðvestan- og vestanlands og á Norðurlandi vestra. Að tiltölu var kaldast á Austurlandi og á annesjum norðanlands.

Meðalhiti í Reykjavík í desember var 1,8 stig og er það 2,0 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Raðast mánuðurinn í 22. sæti af 150 mælingum. Á Akureyri var meðalhitinn -0,6 stig, 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,7 stig og 1,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Kalt var á landinu í byrjun mánaðar en þó nokkur hlýindi voru á landinu um hann miðjan.