[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Þeir skammtar af bóluefni sem útlit er fyrir að berist til landsins á allra fyrstu mánuðum ársins duga skammt til bólusetninga.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Þeir skammtar af bóluefni sem útlit er fyrir að berist til landsins á allra fyrstu mánuðum ársins duga skammt til bólusetninga. Ef farið væri eftir forgangsröð í reglugerð heilbrigðisráðherra myndi ekki koma að allra elstu íbúum landsins, utan hjúkrunar- og dvalarheimila, fyrr en í mars. Hins vegar hefur forgangsröðuninni verið breytt í þágu viðkvæmustu hópanna og kemur því að elstu íbúunum fyrr, jafnvel þegar næsta sending bóluefnis kemur.

Fyrsta sending bóluefnis sem kom fyrir áramót var notuð til að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk í fremstu línu, fólk sem tilheyrir fyrsta forgangshópi, en hoppa að mestu yfir aðra heilbrigðisstarfsmenn, um sjö þúsund talsins, sem þó eru í öðrum forgangshópi og bólusetja þess í stað íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum og í úrræðum tengdum heimahjúkrun. Það varð til þess að hægt var að ljúka að mestu bólusetningu þessa viðkvæmasta hóps samfélagsins. Vitaskuld er aðeins búið að framkvæma fyrri bólusetningu en sú síðari er þremur vikum síðar.

Bólusetning á skrið í febrúar

Nokkuð óljóst er hversu hratt framleiðendum tekst að afhenda bóluefni og takmarkaðar upplýsingar fást um það. Þá hefur Lyfjastofnun gefið Moderna, sem í gær fékk meðmæli Lyfjastofnunar Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB, skilyrt markaðsleyfi hér á landi. Mun Moderna afhenda fimm þúsund skammta samtals í janúar og febrúar. Ekki eru veittar upplýsingar um framhaldið nema það að fyrirtækið sé að auka framleiðslugetu sína og vonist til að geta afhent lyfið hraðar eftir það. Fimm þúsund skammtar eru eins og dropi í hafið, duga aðeins til að bólusetja 2.500 manns.

Þá eru fyrirheit um að Pfizer muni afhenda hingað á fyrsta ársfjórðungi að lágmarki 45 þúsund skammta, til viðbótar þeim 10 þúsund sem komu fyrir áramót. Heilbrigðisráðuneytið telur ekki útilokað að meira bóluefni berist frá fyrirtækinu á þessu tímabili vegna samnings sem gerður var um viðbótarkaup. Fyrsta sending er væntanleg 20. þessa mánaðar en ekki er vitað hversu margir skammtar verða í henni. Ef miðað er við að bóluefnið berist nokkuð jafnt út ársfjórðunginn munu koma um 4.500 skammtar á viku. Gangi það eftir má búast við að 27 þúsund skammtar berist frá Pfizer í janúar og febrúar.

Með bóluefninu frá Moderna gerir það 32 þúsund skammta alls, sem dugar fyrir 16 þúsund manns.

Enn meiri óvissa ríkir um það hversu mikið af bóluefni berst hingað á fyrsta ársfjórðungi í heild, til dæmis er ekkert vitað hvað kemur frá AstraZeneca. Nokkuð öruggt má telja að á fyrsta ársfjórðungi berist að minnsta kosti 52 þúsund skammtar samtals frá Pfizer og Moderna, vonandi talsvert meira, enda hafi framleiðendur þá aukið framleiðslugetu sína. Gangi það eftir verður búið að bólusetja liðlega 30 þúsund manns í lok mars, aðeins um 10% af þeim fjölda sem ætlunin er að bjóða upp á bólusetningu við kórónuveirunni.

Tvöfalt meira en þörfin er

Raunar hafa stjórnvöld samið við fjögur lyfjafyrirtæki um kaup á 843 þúsund skömmum. Þar fyrir utan eru tvö fyrirtæki skemmra á veg komin. Í öðrum tilvikum en Janssen – Johnson & Johnson þarf tvo skammta til að bólusetja hvern mann. Því duga þessir skammtar til bólusetningar á 539 þúsund manns hér á landi en þörfin er vel innan við helmingur af því. Nokkuð innan við 300 þúsund manns verður boðin bólusetning en stjórnvöld stefna að bólusetningu 75% þeirra, eða liðlega 220 þúsund manns, til að ná góðri viðspyru meðal landsmanna, svokölluðu hjarðónæmi.

Vissulega er það öryggisráðstöfun að semja um svona mikið magn því óvíst var og er hvernig hvert og eitt bóluefni reynist og hvenær það fæst afhent. Því hefur verið lýst yfir að umframefninu verði væntanlega deilt til þjóða sem þurfa á því að halda.

Hvenær kemur að mér?

En hvernig á að nota það bóluefni sem næst kemur? Það gæti orðið í næstu viku og ekki síðar en í þarnæstu viku. Það virðist ekki hafa verið ákveðið endanlega. Á vefnum covid.is kemur fram að þegar næsta sending kemur verði haldið áfram að bólusetja framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustunni, fólk sem dvelur á sambýlum og þá sem fá heimahjúkrun. Einstaklingar í elstu aldurshópunum séu svo næstir í röðinni.

Litlar viðbótarupplýsingar koma í svari embættis landlæknis við spurningu um hvort forgangsröðun verði breytt frekar. Aðeins sagt að áfram verði bólusett í elstu aldurshópum og þar verði byrjað á þeim elstu og farið niður aldurslistann. Aðrar ákvarðanir liggi ekki fyrir.

Sóttvarnalæknir hefur nánast óskoraðar heimildir til að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar, í heimildinni er aðeins vísað til nauðsynjar vegna stöðu faraldursins eða tegundar bóluefnis. Honum ber þó að tilkynna ráðherra um breytingar og rökstyðja þær.

Eins og fyrr segir var forgangsröðuninni breytt við fyrstu bólusetninguna, í þágu íbúa á hjúkrunarheimilum. Ekki er hægt að átta sig á svörum yfirvalda hvernig næstu sendingar verða notaðar, til dæmis hvaða heilbrigðisstarfsmenn fá sprautu áður en kemur að elstu aldurshópunum. Í forgangshópum eitt til fimm eru liðlega 20 þúsund manns og þarf 40 þúsund skammta fyrir þá. Ef farið yrði alveg eftir forgangsröð samkvæmt reglugerð kæmi ekki að elstu íbúum landsins, utan hjúkrunarheimila, fyrr en í mars. Í gær staðfesti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir síðan í samtali við Vísi að forgangsröðun hefði verið breytt í þágu 70 ára og eldri.

Í sjötta forgangshópi, 60 ára og eldri, eru yfir 70 þúsund manns. Áherslan verður í upphafi lögð á 70 ára og eldri en í þeim hópi eru um 33 þúsund manns þegar íbúar hjúkrunarheimila hafa verið dregnir frá. Þar af eru um 10 þúsund 80 ára og eldri. Eru því ærin verkefni að vinna þar næstu mánuði. Þarf hátt í 70 þúsund skammta til að ljúka bólusetningu þeirra. Þá eru eftir um 37 þúsund landsmenn á sjötugsaldri sem einnig eru í þessum forgangshópi. Tekið skal fram að þeir 5.800 Íslendingar sem fengið hafa Covid-19 hafa ekki verið dregnir frá í þessum tölum en þeir þurfa vitanlega ekki bólusetningu.

Langur listi forgangshópa

Ótímabært er að horfa neðar á listann en benda má á að áætlað er að 54 þúsund Íslendingar séu með undirliggjandi, langvinna sjúkdóma. Þeir eru neðarlega á lista.

Í forgangshópunum eru alls um 165 þúsund manns, meirihluti þeirra landsmanna sem ætlunin er að bjóða bólusetningu. Eins og staðan er núna í framleiðslu og kaupum á bóluefni er langt í að þeir 130 þúsund Íslendingar sem ekki eru í forgangshópum komist að í bólusetningu.