Unnur Sverrisdóttir
Unnur Sverrisdóttir
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir mikla óvissu um þróunina á vinnumarkaði. Það muni skýrast í janúarlok hvort áhrif kórónuveirufaraldursins á atvinnuleysið séu að fullu komin fram. Þ.e.a.s.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir mikla óvissu um þróunina á vinnumarkaði. Það muni skýrast í janúarlok hvort áhrif kórónuveirufaraldursins á atvinnuleysið séu að fullu komin fram. Þ.e.a.s. hversu margar umsóknir um atvinnuleysisbætur muni berast í byrjun ársins.

Færri umsóknir en í nóvember

„Reynslan af íslenskum vinnumarkaði er sú að í erfiðu árferði hefur nóvember verið slæmur, desember aðeins betri, janúar slæmur og svo hefur orðið hægur bati. Það voru mun færri umsóknir um atvinnuleysisbætur í desember en í nóvember. Þá hefur janúar farið hægar af stað en nóvember hvað varðar umsóknir um bætur,“ segir Unnur.

Það kunni aftur að vera vísbending um að toppinum í atvinnuleysinu sé náð.

Aldrei jafn margir án vinnu

„Það er mikil óvissa í kortunum. Staðan er mjög slæm en aldrei hafa jafn margir verið atvinnulausir og í nóvember í fjölda talið og hlutfallslega. Og ég reikna með að álíka margir verði án vinnu í desember,“ segir Unnur.

Almennt hafi þróun faraldursins gríðarleg áhrif á horfur á vinnumarkaði. Atvinnuleysi verði áfram mikið á fyrri hluta ársins, ef ferðaþjónustan kemst ekki í gang. Fyrir vikið muni dreifing bóluefnis hér á Íslandi hafa áhrif á atvinnustigið.

Á hinn bóginn gefi það tilefni til nokkurrar bjartsýni að bílaleigur séu í einhverjum mæli farnar að ráða inn fólk. Þá kunni eftirspurn eftir ferðalögum innanlands að styrkja ferðaþjónustuna.

Fram kemur í skýrslu Vinnumálastofnunar í nóvember að þá voru 20.906 einstaklingar án vinnu í almenna bótakerfinu og 5.448 í skerta starfshlutfallinu, eða alls 26.354.

Til að setja síðastnefndu töluna í samhengi voru 154 störf auglýst hjá Vinnumálastofnun í nóvember.