Patti Smith
Patti Smith
Bandaríska tónlistarkonan Patti Smith flutti nýtt ljóð til heiðurs aðgerðasinnanum Gretu Thunberg á 18 ára afmælisdegi hennar um síðustu helgi. Ljóðið flutti Smith í beinu streymi á vegum Circa.

Bandaríska tónlistarkonan Patti Smith flutti nýtt ljóð til heiðurs aðgerðasinnanum Gretu Thunberg á 18 ára afmælisdegi hennar um síðustu helgi. Ljóðið flutti Smith í beinu streymi á vegum Circa.art sem streymt er á auglýsingaskiltum á Piccadilly Circus-torginu í London og á youtube-rás miðilsins. Smith er gestalistamaður Circa.art í janúar og með dagleg innlegg.

Ljóðið sem Smith flutti nefnist „The Cup“ og fjallar um það þegar náttúran snýr baki við mannfólki, um regnskóga sem brenna, tegundir sem deyja út og sjó sem rís. „Þetta er til heiðurs skólastúlku sem steig ein fram og hvatti okkur til að bjarga jörðinni okkar saman,“ sagði Smith áður en hún flutti ljóðið. Þetta er annað árið í röð sem Smith heiðrar Thunberg á afmælinu, en í fyrra birti hún í tilefni dagsins frumsamið ljóð á samfélagsmiðlum. Vegna hertra samkomutakmarkana í Bretlandi hefur verið hætt við frekari sýningar á Piccadilly Circus og því aðeins hægt að sjá listviðburðina á vefnum.