Hönnuðir Hjónin Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson sjá lífið í lit.
Hönnuðir Hjónin Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson sjá lífið í lit.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hönnuðirnir og hjónin Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson hafa hannað yfir 1.600 mismunandi handgerð skópör og látið framleiða þau í Portúgal og á Spáni undir merkjum Kron by Kronkron í nær einn og hálfan áratug. „Við hönnuðum fyrst skó saman 2007 og þeir fóru í sölu árið eftir, en síðan byrjuðum við með eigin fatalínu 2009,“ segir Hugrún Dögg.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hönnuðirnir og hjónin Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson hafa hannað yfir 1.600 mismunandi handgerð skópör og látið framleiða þau í Portúgal og á Spáni undir merkjum Kron by Kronkron í nær einn og hálfan áratug. „Við hönnuðum fyrst skó saman 2007 og þeir fóru í sölu árið eftir, en síðan byrjuðum við með eigin fatalínu 2009,“ segir Hugrún Dögg.

Ástríðan hefur rekið þau áfram og haldið þeim gangandi, en þau eiga par af öllum skóm, sem þau hafa sent frá sér. „Við erum skóástríðufólk frá grunni,“ segir Hugrún Dögg sem er menntuð sem fatahönnuður. „Þetta er í blóðinu, við höfum ekkert annað val. Þetta er okkar tjáning, dagbókin okkar. Svona líður okkur, eins og litríku ástríðufullu skópari. Segja má að við sjáum lífið í lit, þar sem ólík litbrigði, réttu tónarnir og áferðin gefa okkur gleði, kraft og hugrekki í næstu skref. “

Valhoppa í gegnum árið

Frá því þau byrja að teikna skópar og þar til það kemur í sölu líður um eitt og hálft til tvö ár, að sögn Hugrúnar Daggar. Hún segir að þegar þau hafi staðið á byrjunarreit hafi handverksfólk verið úti í kuldanum að miklu leyti og öll áhersla lögð á fjöldaframleiðslu. Þau hafi lagt áherslu á að leita uppi fólk sem hafi sérhæft sig í iðn sinni, og það hafi gefið góða raun. „Á bak við hvert skópar geta verið 40 ólíkir einstaklingar,“ segir hún um sköpunina. Í þessu sambandi bendir hún á að þau njóti til dæmis góðs af eldra fólki, sem búi afskekkt og hafi sérhæft sig í því að vefa, flétta eða steinleggja með höndunum. „Við tengjum þetta fólk saman og vinnuferlið tekur langan tíma, vegna þess að hver og einn þarf sinn tíma.“

Hjónin vinna alla frumvinnu hér heima og eru með mörg pör í takinu á hverjum tíma. „Við þurfum að huga að mörgu og hafa góða yfirsýn,“ segir Hugrún Dögg og vísar meðal annars til þess að þegar einn sé búinn með sitt verkefni skipti miklu máli að sá næsti sé tilbúinn að taka við. „Þetta er mikil nákvæmnisvinna vegna þess að skórnir þurfa að vera þægilegir. Almennt eru flestir skór settir saman eins og Legókubbar, en við förum flóknu leiðina, gerum allt frá grunni.“

Skórnir þeirra eru seldir víða um heim, en kórónuveirufaraldurinn hefur hægt á starfseminni eins og öllu öðru og þau sýndu til dæmis ekki á tískuvikunni í París á liðnu hausti. „Við höfum krossað fingur í þeirri von að allt samstarfsfólk komist í gegnum faraldurinn heilt á húfi. Við erum öll í þessu saman og frábært hefur verið að finna fyrir stuðningi úr öllum áttum. Við vinnum ekki með hraða að leiðarljósi heldur leggjum áherslu á nákvæmni.“

Á nýliðnu ári héldu þau upp á 20 ára verslunarrekstur við Laugaveg, byrjuðu með tvær hendur tómar en brosa nú allan hringinn. „Hönnunin hefur verið sem ævintýri og á því verður engin breyting á nýju ári. Við lítum á þetta sem leik og ætlum að fara valhoppandi í gegnum árið. Margt spennandi er á döfinni og við höfum ekki verið svona spennt fyrir nýju ári í mörg ár.“