Álag Miklar annir hafa verið á bráðamóttöku Landspítalans undanfarna daga. Þá hefur mikið verið af sjúkraflutningum og mannskap vantar.
Álag Miklar annir hafa verið á bráðamóttöku Landspítalans undanfarna daga. Þá hefur mikið verið af sjúkraflutningum og mannskap vantar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls greindust fimm með kórónuveirusmit innanlands á þriðjudag. Fjölgað hefur í hópi þeirra sem eru í einangrun og sóttkví, nú eru 127 í einangrun og 152 í sóttkví. Allir þeir sem greindust með Covid-19 innanlands í fyrradag voru í einkennasýnatöku.

Alls greindust fimm með kórónuveirusmit innanlands á þriðjudag. Fjölgað hefur í hópi þeirra sem eru í einangrun og sóttkví, nú eru 127 í einangrun og 152 í sóttkví. Allir þeir sem greindust með Covid-19 innanlands í fyrradag voru í einkennasýnatöku. Af þeim voru tveir í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að ekki væri hægt að fullyrða um það hvort sú mikla fjölgun smita sem búist var við yfir hátíðarnar væri að verða að veruleika eða ekki.

Greint var frá því á covid.is í gær að mikil fjölgun er meðal fólks í skimunarsóttkví og eru nú 2.532 einstaklingar í slíkri sóttkví. Alls greindust 12 með staðfest Covid-19-smit á landamærunum á þriðjudag og sex bíða niðurstöðu mótefnamælingar. Daginn áður greindust sex með Covid á landamærunum en einn var með mótefni. Nýgengi smita miðað við 100 þúsund íbúa er nú 18,8 innanlands en 21,3 við landamærin.

Mikið álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítala undanfarna daga og hefur fólki með vægari áverka og veikindi verið bent á að leita heldur til heilsugæslunnar eða læknavaktarinnar. „Það hefur verið töluverð aðsókn á bráðamóttökuna síðustu daga og á sama tíma hefur ekki náðst að útskrifa jafn marga af spítalanum eins og þyrfti að gera. Þetta leiðir þá af sér að það er vaxandi fjöldi sjúklinga sem bíða á bráðamóttökunni eftir innlögn. Þar með verða fleiri á bráðamóttökunni heldur en hún ræður við með góðu móti,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga Landspítala. Í gær var tilkynnt að 80 einstaklingar biðu þess að komast af Landspítala og í önnur úrræði. Á sama tíma biðu um 20 einstaklingar á bráðamóttöku eftir því að komast á legudeildir og sumir þeirra þurftu að bíða í rúmum á göngum bráðamóttökunnar.

„Hjúkrunarfræðingur metur alla sem leita til okkar. Þeir sem þurfa að fá þjónustu strax fá hana en það eru þeir sem eru með vægari slys eða veikindi sem geta lent í aukinni bið undir þessum kringumstæðum. Það eru þeir einstaklingar sem við hvetjum til þess að nota bráðaþjónustu heilsugæslunnar eða læknavaktarinnar. Þá vinna heilsugæslan og læknavaktin með okkur í því að gera þessa forgangsröðun þannig að þeir vísa þá þeim áfram til okkar sem þurfa á bráðaþjónustu að halda en þjónusta þá sem þeir geta sinnt hjá sér,“ segir Jón Magnús.

Þá hafa miklar annir verið hjá sjúkraflutningafólki á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og hefur þurft að auglýsa eftir fleira starfsfólki til að geta sinnt þessu aukna álagi. Útköll voru 146 á einum sólarhring í gær sem er með því mesta sem gerist. Af þeim voru 30 forgangsflutningar og 15 verkefni tengd Covid-19. Af sjúkraflutningunum voru 116 þeirra á dagvaktinni, það er á tólf tímum. Jón Viðar Matthíason, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði við mbl.is í gær að hann sæi ekki neina augljósa ástæðu fyrir því, aukningin sé ekki beintengd Covid-málum og tilfinningin sé frekar að dregið hafi úr umferðarslysum þar sem fólk heldur sig frekar heima.

„Fyrir nokkrum misserum tók maður eftir því þegar dagar fóru yfir 100 útköll en núna í dag er það orðið venjan,“ segir Jón Viðar.