Álfakirkja Við minnisvarða Bárðar Snæfellsáss á Arnarstapa á Snæfellsnesi sem hlaðinn var af Ragnari Kjartanssyni myndhöggvara. Í baksýn gnæfir Stapafell. Í bókinni eru huldufólkssögur úr flestum héruðum landsins.
Álfakirkja Við minnisvarða Bárðar Snæfellsáss á Arnarstapa á Snæfellsnesi sem hlaðinn var af Ragnari Kjartanssyni myndhöggvara. Í baksýn gnæfir Stapafell. Í bókinni eru huldufólkssögur úr flestum héruðum landsins. — Ljósmyndir/Ívar Gissurarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Hulduheimar – Huldufólksbyggðir á Íslandi heitir bók eftir Símon Jón Jóhannsson sem hefur að geyma um eitt hundrað huldufólkssögur úr öllum landshornum. Farinn er hringurinn um landið og sagðar huldufólkssögur úr flestum héruðum.

Bókarkafli | Hulduheimar – Huldufólksbyggðir á Íslandi heitir bók eftir Símon Jón Jóhannsson sem hefur að geyma um eitt hundrað huldufólkssögur úr öllum landshornum. Farinn er hringurinn um landið og sagðar huldufólkssögur úr flestum héruðum. Í bókinni eru ljósmyndir af huldufólksslóðum eftir Ívar Gissurarson og skýringamyndir.

Birtur er inngangur bókarinnar og kafli um huldufólk á Snæfellsnesi.

Útlit og einkenni huldufólks

Huldufólkssögur eru fyrirferðarmikill hluti íslenskra þjóðsagna. Í þeim segir frá samskiptum manna við huldufólk eða álfa sem menn trúðu að byggju í klettum, björgum og hólum eða í og við önnur náttúrufyrirbæri. Huldufólk líkist mönnum að flestu leyti og lifir svipuðu lífi. Þó er það yfirleitt sagt fegurra álitum og glæsilegar búið en gengur og gerist í mannheimum og býr að öðru jöfnu við mun betri kjör. Ungt huldufólk er grannvaxið og föngulegt en því hættir til að bæta á sig eins og mannfólki þegar árin færast yfir. Sumar sagnir herma að þekkja megi huldufólk á því að á það vanti miðsnesið ellegar að það hafi rák í stað lautar milli nefs og efri varar. Klæðnaður huldufólks er litríkur, blár eða rauður með gylltum hnöppum, sylgjum, nælum og öðru skarti.

Heimkynni huldufólks eru í klettum, steinum eða hólum og yfirleitt eru híbýli þess ríkmannlegri en hjá mannfólki. Fátækt huldufólk kemur þó einnig við sögu en þá eru húsakynni þess jafnan snyrtileg og vel um þau gengið.

Huldufólk lifir svipuðu lífi og mennskir menn og menning þess er lík okkar. Það sækir kirkjur og heldur virðulegar messur en kemur líka saman og skemmtir sér á glaðværan hátt. Þótt huldufólk flest stundi landbúnað og sjósókn er einnig að finna embættismenn, verslunarmenn og jafnvel kóngafólk í álfheimum. Áhöld huldufólksins og verkfæri eru oftast sögð betur úr garði gerð en þekkist hjá mönnum og skepnur úrvalsgripir. Það er líka sagt kunna ýmislegt fyrir sér í læknisfræði og fjölkynngi umfram mannfólkið.

Huldufólk reynist þeim mönnum vel sem eru því góðir en getur einnig hefnt sín grimmilega ef illa er komið fram við það. Stundum þarf huldufólkið á hjálp manna að halda og launar þá ríkmannlega fyrir veittan greiða. Sögur um huldukonur í barnsnauð eru þar á meðal og fara þá stundum mennskar konur eða karlmenn þeim til hjálpar. Þeim er síðan launað með þeirri náðargáfu að geta upp frá því hjálpað fæðandi konum án skakkafalla.

Sú saga lifði fram á 20. öld, í einni eða annarri mynd, að unga stúlku dreymdi að til hennar kæmi huldumaður og bæði hana að fylgja sér í hól eða klett og hjálpa konu sinni við fæðingu. Stúlkan fór af stað en á leiðinni steig hún í bæjarlækinn og bleytti sokk og skó. Síðan hjálpaði hún konunni við fæðinguna og allt gekk vel. Að launum sagði huldukonan henni að hún myndi verða ljósmóðir og aldrei skyldi deyja hjá henni barn. Þegar stúlkan vaknaði minntist hún draumsins en við rúmstokkinn voru sokkar hennar og skór og annað parið blautt. Stúlkan varð síðan farsæl ljósmóðir.

Stundum brá svo við að kýr huldukvenna misstu nytina og þurftu konurnar þá að leita á náðir mennskra grannkvenna sinna og biðja um mjólk handa ungbörnum sínum. Að launum hlutu hinar mennsku konur falleg föt eða góða gripi en það gat líka farið illa fyrir þeim ef þær neituðu huldukonunum um greiðann. Kýr, sem talið var að komnar væru úr álfheimum, þóttu hinir mestu kostagripir en með þær var vandfarið. Þannig var um dularfulla aðkomukú sem sagt er frá í einni sögunni. Hún hafði óvænt birst meðal heimakúnna á bæ einum en vildi ekki láta mennska konu mjólka sig.

Heyrði þá konan, sem ætlaði að mjólka kúna, að sagt var við fjósgluggann:

Ló, ló, mín Lappa,

sára ber þú tappa,

það veldur því að konurnar

kunna þér ekki að klappa.

Konan klappaði þá kúnni og kallaði hana nafni sínu. Gekk þá vel að mjólka hana og reyndist kýrin afburða mjólkurkýr.

Huldufólksbyggðir undir Jökli

Margar huldufólksbyggðir eru við og í kringum Snæfellsjökul. Sölvahamar er þverhnípt bjarg innan við Arnarstapa. Í bjargi þessu eru miklar huldufólksbyggðir og þar er verslunarstaður huldufólksins. Margrét Jónsdóttir Thorlacius (1908-1989) frá Öxnafelli í Eyjafirði var þekktur sjáandi og miðill um miðbik síðustu aldar.

Hún dvaldi oft á sumrum við Arnarstapa á sjöunda áratugnum og sá þá iðulega til huldufólksins og athafna þess. Þann 1. ágúst 1969 gerði aftakaveður á Snæfellsnesi en kvöldið áður sá Margrét fjölda hulduskipa og báta sigla inn að Arnarstapa og leita þar vars áður en óveðrið skall á.

Uppi á Stapafelli er steinn sem líkist krossmarki tilsýndar og heitir Fellskross. Þar er stór og falleg álfakirkja. Suðaustanvert í fellinu eru á sumrum stórar blómabreiður en í klettabeltunum í kring eru margir huldufólksbústaðir.

Lóndrangar, utanvert á Snæfellsnesi, eru um margt sérstakir. Þar segir Margrét frá Öxnafelli að sé kirkja í Stóra-Drangi með mörgum fögrum helgigripum. Meðal annars er þar stór Maríumynd en undir henni borð með rauðum dúk þöktum blómum. Í Minni-Drangi er bókasafn og hefur Margrét séð gamlan mann sitja þar við skriftir.

Við stærsta gíginn í hinni fornu gígaþyrpingu, Hólahólum, norðan við Beruvíkurhraun, er mikil huldufólksbyggð.

(Sbr. Árni Óla, Huldufólk, s. 161-163.)