Valgeir Þór Ólason fæddist 11. september 1983 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu 27. desember 2020.

Valgeir var sonur hjónanna Jóhönnu Jónasdóttur, fædd 8. nóvember 1959, og Óla Jóhanns Kristjánssonar, fæddur 14. október 1957. Valgeir Þór var annar í röð fjögurra systkina, hin eru Jónas Pétur Ólason, f. 1981, Baldur Freyr Ólason, f. 1989, og Helga Sif Óladóttir, f. 1991. Valgeir Þór kvæntist 20. janúar 2018 Kristnýju Maríu Hilmarsdóttur, f. 7. apríl 1993. Börn Valgeirs Þórs og Kristnýjar Maríu eru Hilmar Óli Valgeirsson, f. 2. október 2011, Emilía Mist, f. 28. maí 2015, og Logi Þór, f. 20. október 2017.

Útförin fer fram 7. janúar 2021.

Árið 2020 hefur í alla staði verið mjög óraunverulegt, eins og í vísindaskáldsögu. Að morgni dags 27. desember fengum við símtal frá syni okkar, þar sem hann greindi okkur frá því að Valgeir hefði dáið um nóttina. Enn einn óraunveruleikinn, hvernig gat þetta gerst?

Enn óraunverulegra er það nú, að við amman og afinn setjumst niður til að minnast elsku barnabarnsins okkar. Einhvern veginn allt í rangri röð.

Valgeir var yndislegur drengur, síkátur, hlýr, fullur orku, hugmyndaríkur, listfengur og hjálpsamur. Alltaf gott að fá frá honum stórt knús og heyra hans dillandi hlátur.

Í matarboðum var aðstoð Valgeirs oft þegin við lokafrágang sósunnar.

Eiginkona þín, hún Kristný María, og þrjú yndisleg börn, þau Hilmar Óli, Emilía Mist og Logi Þór, syrgja nú föður sinn. Við vottum þeim innilega samúð og óskum þeim huggunar.

Fallegar minningar um þig, Valgeir Þór, munu lifa í huga okkar alla tíð og þökkum fyrir þann tíma sem við fengum notið með þér.

Við minnumst þín með eftirfarandi ljóði, höfundur er óþekktur.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Amma Valgerður

og afi Baldur.

Elsku Valgeir.

Það er svo ótrúlega óraunverulegt að þú sért ekki meðal okkar lengur, ég klíp mig hvern dag til að vakna af þessum sára draumi, en það gerist bara ekki, veruleikinn blasir við. Minningarnar streyma, sú fyrsta er ég sá þig fyrst, stund sem ég aldrei mun gleyma. Hversu smár og fallegur mér fannst þú og um leið tilkomumikill með mikinn svartan hárbrúsk á miðju höfðinu. Ég hlakkaði alltaf mest til að koma heim úr skólanum, þegar þið bræður voruð í pössun hjá ömmu, þá var fjör, það var aldrei lognmolla í kringum þig. Þú kallaðir mig alltaf frænku og mér þótti það alla tíð svo notalegt og þú sagðir brosandi: „Hvað segir þú GOTT, frænka mín“ og ég fékk stórt og þétt knús. Þú sagðir aldrei hvað segir þú, frænka mín, heldur alltaf: „Hvað segir þú GOTT“ og það var gott. Þú varst svo óvenju listfengur, þú gast smíðað fallegustu muni og nytsamlega úr því sem flestir hefðu ekki komið auga á nokkurt notagildi í, þú hafðir næmt auga og barst skynbragð á hvað úr mætti verða. Þú varst snilldarkokkur og þú lyftir grettistaki í að sjá þér og þínum farborða með því einmitt að skapa og byggja upp á þann hátt sem þú einn hafðir lag á. Þín verður sárt saknað, elsku drengurinn minn, þú lifir enn í fallegu börnunum þínum.

Hvíl í friði.

Þín frænka,

Valgerður F. Baldursdóttir.