Víðfræg Veggmynd Diegos Riveras í sal San Francisco Art Institue.
Víðfræg Veggmynd Diegos Riveras í sal San Francisco Art Institue.
Elsti og einn kunnasti listaháskólinn í vesturhluta Bandaríkjanna, San Francisco Art Instutue, á við mikla rekstrarörðugleika að etja, vegna erfiðrar skuldastöðu og minnkandi aðsóknar.

Elsti og einn kunnasti listaháskólinn í vesturhluta Bandaríkjanna, San Francisco Art Instutue, á við mikla rekstrarörðugleika að etja, vegna erfiðrar skuldastöðu og minnkandi aðsóknar. Tilkynntu stjórnendur í fyrra að skólanum yrði lokað en þá tókst að afla fjár til að starfrækja hann í vetur. Fjölmiðlar greina nú frá því að stjórn skólans hafi rætt alvarlega að unnt væri að bjarga rekstrinum með því að selja víðfræga og flennistóra veggmynd, The Making of a Fresco Showing the Building of a City , sem mexíkóski myndlistarmaðurinn Diego Rivera málaði í sal skólans árið 1931. Samkvæmt The New York Times er þetta „freska í fresku“ sem sýnir Rivera sjálfan mála á vegginn mynd af borg. Er þetta ein af þremur frægum freskum sem Rivera málaði á sínum tíma í San Francisco.

Stjórn skólans telur sig geta fengið 50 milljónir dala fyrir veggmyndina, um 6,3 milljarða króna. En hugmyndin um söluna hefur vakið mikla reiði meðal fyrrum og núverandi kennara og nemenda skólans.

Á stjórnarfundi í skólanum í desember kom fram að kvikmyndaleikstjórinn George Lucas hefði áhuga á að kaupa verkið fyrir safn sitt, Museum of Narrative Art, í Los Angeles. Í bréfi sem aðstoðarskólastjórinn sendi starfsmönnum kom fram að engin ákvörðun hafi verið tekin enn um söluna og viðurkennt að hugmyndin væri gagnrýnd harðlega. Hins vegar bæri stjórn að halda áfram að skoða mögulega sölu á verkinu til að bjarga rekstri skólans.