Friðrik Hafsteinn Guðjónsson fæddist 8. febrúar 1927. Hann andaðist 20. desember 2020.

Útför Hafsteins fór fram 5. janúar 2021.

Það var alltaf gaman að koma í smiðjuna til afa og Jensa frænda, að sjá þegar „mjólkin“ rann á stálið þegar verið var að skera lengjur og þegar stálkrullurnar komu frá rennibekkjunum var algjört ævintýri. Ég fylgdi mömmu ótal sinnum inn í smiðju og í hvert sinn sá ég eitthvað nýtt og spennandi. Mig minnir að um helgar hafi afi keypt heit vínabrauð fyrir karlana í smiðjunni, þetta voru bestu vínarbrauð sem ég hef á ævinni smakkað. Hugsanlega er það góð minning sem yljar frekar en bakkelsið, ilmurinn og full kaffistofa af körlum að spjalla og fá sér kaffi og heit vínarbrauð.

Afi var klár karl, hann var mjög góður í skák og kenndi mér mannganginn. Hann kenndi mér líka að vinnan göfgar manninn. Afi vildi ekki skulda neinum neitt og kenndi mér að eiga fyrir hlutunum. Ég minnist þess þegar ég var 17 ára og var að spá í bílakaup, þá bauðst afi til að selja mér bíl sem þau Ingibjörg voru að fara að losa sig við. Við sömdum um að ég myndi greiða að lágmarki 10.000 kr. hver mánaðamót, en þar sem ég vann með menntaskóla var það gerlegt. Það sat þó í mér að það væri ekki gott að skulda þannig að ég kappkostaði að greiða helst alltaf meira en 10.000 í hverjum mánuði. Þetta gladdi afa og þegar kom að því að ég átti eftir um 50.000 kr. af skuldinni sagði hann: „Jæja Sigrún, þar sem þú hefur verið svo dugleg að greiða af bílnum í hverjum mánuði og oft meira en um var samið ætla ég að gefa þér restina af skuldinni fyrir dugnaðinn.“

Afa þótti gaman að dansa og var virkilega góður dansari. Það var alveg óþarfi að kunna neitt í dansi til að dansa við hann. Afi elskaði líka að veiða, bæði fara í laxveiði og vera á sjónum. Hann átti trillu sem hét Hrólfur og voru ófá skiptin sem við fengum símtal um að koma niður á bryggju til að sækja fisk. Alltaf var ferskur fiskur á borðum heima, því voru mikil vonbrigði þegar ég varð fullorðin og keypti fisk í matvörubúð sem var langt frá þeim gæðum sem ég átti að venjast úr æsku.

Ég man að mér þótti leiðinlegt að afi bauð mér aldrei með í veiði eða að fara út á sjó með sér en barnabörn konu hans fengu bæði að fara í laxveiði og út á sjó með afa. Afi var af gamla skólanum; hann sá um að vinna og skaffa til heimilisins en konan sá um félagsleg tengsl. Þannig voru heimsóknir til okkar færri en til barnabarna hennar. Mér þótti það miður en innst inni vissi ég að afa þótti samt vænt um mig. Hans leið var að gefa rausnarlegar gjafir þótt ég hafi alltaf frekar viljað njóta samvista með honum.

Eftir andlát Ingibjargar og Jens frænda fannst mér afi breytast, hann varð þakklátari fyrir okkur barnabörnin og barnabarnabörnin. Ég minnist þess þegar hann lá eitt sinn á LSH eftir aðgerð og ég var að þrífa heyrnartækin hans, þá horfði hann á mig og þakkaði mér fyrir að sjá svona vel um sig. Við áttum mörg góð samtöl á þessum tíma og er ég þakklát fyrir þau. Afi kvaddi oft með „takk fyrir komuna“ og voru það hans síðustu orð til mín.

Hvíl í friði elsku afi minn og takk fyrir allt, nú haldið þið Jens áfram að smíða á himnum.

Þín

Sigrún.

Kveðja frá Kiwanisklúbbnum Heklu

Hafsteinn Guðjónsson framkvæmdastjóri gekk í Kiwanisklúbbinn Heklu 10. desember 1968 og hefur því verið Kiwanisfélagi í 52 ár. 13. desember 2018 var hann sæmdur 50 ára gullstjörnu klúbbsins. Hafsteinn var ötull og áhugasamur Kiwanisfélagi, hann var einn af stofnfélögum Nesklúbbsins sem var stofnaður 1971. Hafsteinn var þar forseti 1979-1980 og aftur 1998-1999, auk annarra embætta sem hann var valinn til og hann sá meðal annars um uppsetningu á Kiwanisklukkunni á Eiðistorgi. Einnig má þakka honum sérstaklega fyrir aðkomu hans við byggingu Kiwanishússins við Engjateig, með dyggum stuðningi. Hafsteinn gekk aftur í Heklu þegar Nesklúbburinn var sameinaður Heklu 2006.

Við Heklufélagar þökkum Hafsteini fyrir öll þau störf sem hann innti af hendi fyrir klúbbinn og Kiwanishreyfinguna. Við sendum samúðarkveðjur til aðstandenda.

Fyrir hönd Heklufélaga,

Sighvatur Halldórsson forseti Heklu.