Íslensk kvennaknattspyrna er svo sannarlega á mikilli uppleið og munu bæði Breiðablik og Valur leika í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili.
Íslensk kvennaknattspyrna er svo sannarlega á mikilli uppleið og munu bæði Breiðablik og Valur leika í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili.

Sveindís Jane Jónsdóttir gekk til liðs við stórlið Wolfsburg á dögunum og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er að ganga til liðs við Bayern München á næstu dögum. Þá er Alexandra Jóhannsdóttir, liðsfélagi þeirra hjá Breiðabliki, að öllum líkindum á leið í atvinnumennsku líka en hún hefur verið orðuð við félög í Þýskalandi. Sveindís og Karólína eru báðar 19 ára gamlar og Alexandra er einungis tvítug.

Þá er Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður Fylkis, í viðræðum við stórlið Everton á Englandi en hún er einungis 17 ára gömul. Svava Rós Guðmundsdóttir gekk til liðs við þriðja besta lið Frakklands í byrjun árs frá Kristiansand en Svava er 25 ára gömul og á því nóg eftir.

Í lokakeppni EM 2017 sem fram fór í Hollandi voru tveir leikmenn að spila í liðum sem hægt að er að segja að hafi verið í heimsklassa eða sérflokki. Sara Björk Gunnarsdóttir var þá leikmaður Wolfsburg og Dagný Brynjarsdóttir lék með Portland Thorns í Bandaríkjunum.

Það gæti vel farið svo að á EM 2022 muni Ísland eiga leikmenn í liðum á borð við Lyon, Bordeaux, Bayern München, Wolfsburg, Everton og Rosengård sem dæmi, allt lið í heimsklassa. Með svoleiðis landslið má alveg gera kröfu á árangur og það er eflaust mun meiri innistæða fyrir því en sumarið 2017.

KSÍ þarf því að vanda ansi vel til verka þegar næsti landsliðsþjálfari verður valinn, enda liðið til alls líklegt á næstu árum.