Þýskaland Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á leiðinni til München.
Þýskaland Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á leiðinni til München. — Morgunblaðið/Eggert
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskonan unga úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks, mun skrifa undir samning við þýska stórveldið Bayern München á næstu dögum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskonan unga úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks, mun skrifa undir samning við þýska stórveldið Bayern München á næstu dögum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Þar með verður hún annar íslenski leikmaðurinn til að spila með kvennaliði félagsins en Dagný Brynjarsdóttir varð þýskur meistari með Bayern árið 2015.

Þá lék Ásgeir Sigurvinsson með karlaliði Bayern keppnistímabilið 1981-82 og þeir Andri Sigþórsson og Stefán Logi Magnússon voru í röðum félagsins á sínum tíma án þess þó að ná að leika með aðalliðinu.

Bayern varð þýskur meistari í þriðja sinn árið 2016 en hefur mátt sjá á eftir titlinum til Wolfsburg undanfarin fjögur ár. Nú virðist dæmið hins vegar vera að snúast við því Bayern er með fimm stiga forskot á Wolfsburg á toppi deildarinnar þegar keppnin er rúmlega hálfnuð.

Karólína Lea er aðeins 19 ára gömul en hefur þegar orðið tvisvar Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með Breiðabliki. Hún hefur leikið 78 leiki í úrvalsdeildinni með Breiðabliki og FH og skorað ellefu mörk, og þá lék hún fjóra fyrstu A-landsleiki sína á árinu 2020, þar sem hún vakti talsverða athygli fyrir frammistöðu sína.