[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölnir Guðmannsson er fæddur 7. janúar 1981 á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, en ólst upp á Eskifirði.

Fjölnir Guðmannsson er fæddur 7. janúar 1981 á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, en ólst upp á Eskifirði. „Ég var aðallega í bílaleikjum sem krakki, sem hefur fylgt mér síðan, var aðeins í körfubolta og fékk kraftadellu upp frá því,“ segir Fjölnir.

Fjölnir gekk í grunnskóla Eskifjarðar, útskrifaðist sem stúdent af eðlisfræðibraut Menntaskólans á Akureyri 2001, lauk cand.med.-gráðu frá Háskóla Íslands 2011 og svo sérnámi í heimilislækningum frá Háskóla Íslands og fékk sérfræðileyfi í heimilislækningum 2018.

„Ég ákvað á seinustu önninni minni í menntaskóla að fara í læknisfræði og það var ekki ein ástæða frekar en önnur, ég var til dæmis að líka að spá í að fara í verkfræði. Ástæðan fyrir heimilislækningunum var að ég hafði mjög gaman af því sem ég var að sinna hverju sinni í náminu. Ég spáði í að verða bæklunarlæknir, lyflæknir og geðlæknir en komst að þeirri niðurstöðu að það væri best að fara í heimilislækningar þar sem ég gæti sinnt þessu öllu upp að einhverju marki því ef ég færi í eina áttina þá myndi ég sakna alls hins.“

Eftir kandidatsárið starfaði Fjölnir við heilsugæsluna í Fjarðabyggð 2012-14 og eftir það hefur hann unnið á Sjúkrahúsinu á Akureyri og heilsugæslunni á Akureyri. „Við höfum verið tíu eða ellefu sérfræðingar á heilsugæslunni á Akureyri, það er talsvert undirmannað en það horfir til betri vegar og verðum líklega orðnir fimmtán sérfræðingar hérna eftir þrjú ár. Það er því ofboðslega mikið að gera.“

Fjölnir hefur þó haft tíma til að sinna félagsmálum og er formaður læknaráðs heilsugæslunnar á Akureyri. Hann sat í Stúdentaráði og stjórn Stúdentaráðs fyrir Háskólalistann. Hann var varaformaður Kraftlyftingafélags Akureyrar 2014-2020 og tók sæti 2020 í Norðurlandatorfæruráði, eða FIA-NEZ, sem útdeilir mótum á Norðurlöndunum. Hann er síðan í Frímúrarareglunni á Íslandi.

Helstu áhugamálin í gegnum tíðina hafa verið bílar og kraftlyftingar. „Ég hef verið viðloðandi kraftlyftingar, var eitthvað að dinglast á líkamsræktarstöðvunum en hafði svo samband við Kára Elíson, margfaldan kraftlyftingameistara, og æfði með honum í fimm ár. Ég keppti eitthvað í kraftlyftingum, en lenti svo í meiðslum sem ég náði ekki að komast út úr svo ég hætti að keppa. Bíladellan hefur alltaf fylgt mér frá því að ég var krakki. Ég er í Bílaklúbbi Akureyrar, en það er einn öflugasti bílaklúbbur landsins og heldur m.a. kvartmílukeppnir, sandspyrnukeppnir og torfærukeppnir. Ég keppi og hef dæmt í torfærukeppnum og stunda jeppamennsku á fjöllum.“ Fjölnir segist þó ekki getað státað af neinum afrekum í torfærunni en nefnir að konan hans hafi unnið sandspyrnukeppnir á bílnum. „Ég læt hana alveg um þær keppnir, en það mætti helst líkja sandspyrnu við ródeókeppnir,“ en þar reyna knapar að sitja sem lengst á ótemjum.

Fjölnir sinnti torfærunni lítið árið 2020 af því þau hjónin eignuðust dóttur það ár. „Ég var að klára fæðingarorlofið, tók mánuð og mánuð í senn, því ég þurfti að sinna samlaginu. En ég ætla að hella mér aftur í torfæruna og er með nýjan bíl í smíðum svo í augnablikinu er ég með tvo bíla og hvorugan gangfæran. Tímabilið hefst í maí ef sóttvarnir leyfa en við ættum að vera tilbúnir í mars.“

Fjölskylda

Eiginkona Fjölnis er Eva Hilmarsdóttir, f. 24.9. 1981, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett á Lónsbakka í Hörgársveit. Foreldrar Evu eru Hilmar Magnússon, f. 21.2. 1962, vélamaður frá Vopnafirði, búsettur í Rotoroa á Nýja-Sjálandi, kvæntur Leanne Leggett, og Anna Halldóra Halldórsdóttir, f. 9.4. 1963, bókari frá Vopnafirði, búsett á Akureyri, gift Magnúsi Ólafi Kristjánssyni.

Dóttir Fjölnis og Evu er Anna Dóra Fjölnisdóttir, f. 5.3. 2020.

Systkini Fjölnis eru Pétur Steinn Guðmannsson, f. 11.11. 1986, rafvirki, búsettur á Egilsstöðum, og Herdís Hulda Guðmannsdóttir, f. 8.11. 1988, skrifstofukona, búsett á Akureyri

Foreldrar Fjölnis eru Guðmann Þorvaldsson, f. 6.5. 1955, grunnskólakennari, búsettur á Eskifirði, og Sólveig Eiríksdóttir, f. 23.2. 1960, skrifstofustjóri, búsett á Akureyri.