Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Eftir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson: "„Fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 voru slæm og dýr mistök. Sú ákvörðun hefur síður en svo bætt stjórnsýslu borgarinnar.“"

Í upphafi þessa árs eru tæpir 17 mánuðir til næstu borgarstjórnarkosninga í maí 2022. Ekki einungis Reykvíkingum, heldur öllum landsmönnum, er ljóst að það stríð sem geisað hefur á vettvangi borgarstjórnar frá upphafi þessa kjörtímabils hefur haft lamandi áhrif á störf ráða og nefnda borgarinnar. Slík staða bitnar ekki síst á góðri þjónustu við borgarbúa, sem þurfa að leita úrlausna erinda sinna hjá borgaryfirvöldum.

Fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 voru slæm og dýr mistök. Sú ákvörðun hefur síður en svo bætt stjórnsýslu borgarinnar og á stóran þátt í því upplausnarástandi sem nú ríkir í borgarstjórn. Fjölgun borgarfulltrúa átti sér fyrst stað úr 15 í 21 árin 1982-1986. Sjálfstæðisflokkurinn náði meirihluta í borgarstjórnarkosningunum árið 1982 og breytti þeirri ákvörðun. Frá 1986-2018 voru þeir á ný 15 og stjórnkerfið varð mun skilvirkara og þjónaði íbúum miklu betur en nú er raunin á þeim vettvangi. Frá 2018 hafa borgarfulltrúar verið 23 og reynslan af fjölgun þeirra er afleit.

Ástandið ekki borgarbúum bjóðandi

Óhætt er að fullyrða að það ástand sem ríkt hefur í borgarstjórn frá upphafi þessa kjörtímabils sé borgarbúum almennt ekki að skapi. Samstarf meiri- og minnihluta í borgarstjórn er í flestum mikilvægum málum við frostmark.

Málefnaleg umræða um mikilvæg hagsmunamál borgarbúa og einnig hvöss gagnrýni minnihluta í umdeildum málum er nauðsynleg. Samstarf borgarfulltrúa ólíkra flokka er mikilvægt og styrkir borgarstjórn til framgangs góðra mála. Ekki veitir af nú á viðsjárverðum tímum. Við lestur fundargerða borgarráðs allt frá upphafi þessa kjörtímabils blasa við í flestum mikilvægum málum langar og ítarlegar bókanir og nánast engin samstaða. Slíkar bókanir skila ekki miklum árangri, hafa miklu fremur á sér yfirbragð málflutnings og áróðurs en að borgarfulltrúi vilji með stuttri athugasemd gera grein fyrir afstöðu sinni. Í samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar segir m.a.: „Óheimilt er að færa í gerðarbók greinargerðir eða hvers konar skriflegan málflutning um afstöðu borgarfulltrúa til mála sem til meðferðar eru.“ Þessi samþykkt er oft ekki virt.

Átök frá fyrsta degi

Áhugaleysi meirihlutans til að bjóða upp á eðlilegt samráð og samstarf hefur átt stærstan þátt i alvarlegum samskiptavanda á vettvangi borgarstjórnar. Þvert á móti hefur meirihlutinn beitt sér fyrir því að torvelda störf borgarfulltrúa minnihlutans í ráðum og nefndum eins og kostur er. Til dæmis er það nú vinnuregla að ekki sé hægt að leggja fram fyrirspurn um mál í borgarráði sem snúa að ráðum borgarinnar, ef flokkur borgarráðsfulltrúa á fulltrúa í þeim ráðum sem varða fyrirspurnina. Með þeirri ákvörðun er beinlínis verið að takmarka aðkomu borgarfulltrúa í minnihlutanum að málum. Hvað kemur næst?

Reykvíkingar og aðrir landsmenn hafa allt frá upphafi þessa kjörtímabils vaknað flesta daga við fréttir úr borgarstjórn sem endurspegla þá upplausn, mér liggur við að segja óeirðir, sem á sér stað á þeim vettvangi. Frá fyrsta degi núverandi borgarstjórnar hafa hörð átök einkennt nánast alla fundi borgarstjórnar og borgarráðs. Þótt oft áður hafi verið tekist hart á um einstök deilumál í borgarstjórn hafa önnur eins samfelld átök og nú fara fram á þeim vettvangi ekki átt sér stað áður.

Ekki vinnufriður hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg býr yfir miklum mannauði í starfsfólki sínu. Endalausar illdeilur borgarfulltrúa í borgarstjórn, borgarráði og víða annars staðar í borgarkerfinu hafa slæm áhrif á vinnuanda og öryggi starfsmanna. Stöðug illvíg og rætin átök milli margra borgarfulltrúa meiri- og minnihluta borgarstjórnar á opinberum vettvangi, í nefndum og ráðum borgarinnar, hafa að sjálfsögu áhrif á starfsmenn borgarinnar.

Sá sem þetta ritar þekkir það ágætlega frá veru sinni í 28 ár í borgarstjórn og hafandi fylgst með borgarmálum nokkuð vel síðustu 10 ár, að embættismenn og aðrir starfsmenn borgarinnar eru upp til hópa vandað og gott starfsfólk, sem vinnur fyrir alla borgarstjórn og alla íbúa borgarinnar. Þau átakastjórnmál sem nú eru nú höfð að leiðarljósi í borgarstjórn hafa lamandi áhrif á störf mikilvægra ráða og nefnda í borgarkerfinu og auðvelda ekki fjölmörgum starfsmönnum borgarinnar og kjörnum fulltrúum störf sín nema síður sé.

Tengslin slitnuðu ekki

Auðvitað hafa alla tíð komið upp alvarleg ágreiningsmál í borgarstjórn, en tengslin ekki slitnað á milli meiri- og minnihluta, eins og nú hefur gerst. Ég minnist sérstaklega þeirra ára sem undirritaður átti samleið með þáverandi borgarstjóra, Davíð Oddssyni, þ.e. frá 1982-1991, að þrátt fyrir hörð átök af og til um ýmis mál var nauðsynlegur samráðs- og samstarfsvettvangur ávallt til staðar milli borgarfulltrúa.

Vinnubrögð á vettvangi borgarstjórnar í dag eru ekki bjóðandi borgarbúum. Nú hefur þetta ástand varað í hátt á þriðja ár og ekkert sem bendir til að það breytist. Starfsfólki borgarinnar og stórum hluta kjósenda í Reykjavík getur varla verið skemmt yfir þessari stöðu, heldur miklu fremur misboðið.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson