— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Benedikt, 2020. Kilja, 126 bls.

Í Hetjusögum er að finna nokkuð samfelldan ljóðabálk sem segir frá afrekum ljósmæðra sem störfuðu við sérstaklega krefjandi aðstæður í fátæku samfélagi Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og fram eftir 20. öld. Ljóðin eru ort upp úr ritinu Íslenskar ljósmæður I – III sem séra Sveinn Víkingur bjó til prentunar og var gefið út á árunum 1962-1964.

Ljóðin birta fallega og fórnfúsa mynd af þessum mæðrum ljóssins og lýsa veruleika þeirra blátt áfram. Ljósmæðrunum er hampað í hástert og tekst Kristínu Svövu Tómasdóttur, höfundi bókarinnar, vel að staðsetja lesandann í samfélagi sem nú er horfið, samfélagi þar sem ljósmæður þurftu stundum að ganga tugi kílómetra til þess að komast að rúmum sængurkvenna sinna, gjarnan í mannskaðaveðri.

Ljóðin eru mörg, enda ljóðabókin rúmar hundrað síður, og er ekki komist hjá því að nefna að stundum fær lesandinn á tilfinninguna að eitt ljóð sé sagt oftar en einu sinni, svo keimlík eru sum þeirra.

Sérstaklega eru löngu prósaljóðin sem brjóta bálkinn upp eftirtektarverð. Þau vella fram eins og straumþungar ár og telja upp ýmsa kosti ljósmæðra, tegundir mannskaðaveðurs og lýsingar á slæmu ásigkomulagi þeirra vega sem ljósmæðurnar þurftu að leggja undir fót. Þessi ljóð staðsetja lesandann vel í horfnum veruleika ljósmæðranna sem um ræðir.

Bókin er augljóslega skrifuð í þeim tilgangi að veita ljósmæðrum þá virðingu sem þær eiga skilið og setja ljóðin þær þannig á stall svo góðmennska þeirra og kraftar virðast nánast yfirnáttúrulegir. Það verður örlítið þreytandi að lesa svo mörg ljóð um góða kosti ljósmæðra og erfitt að ímynda sér að þær séu raunverulega mannlegar, þegar ekkert kemur fram um mannlega bresti þeirra.

hún minnti á lindina tæru

sem vökvaði ungan gróður

gaf þyrftum og þjáðum svalandi drykk

þegar okkur reið mest á

Það er virkilega ánægjulegt að sjá hvernig Kristín miðlar sagnfræðinni í ljóðum Hetjusagna og er bókin mikilvæg innsýn inn í heim kvenna sem kannski hafa ekki fengið nægilegt lof fyrir hetjudáðir sínar í gegnum árin. Í lok bókarinnar nefnir Kristín nöfn allra ljósmæðranna sem fjallað er um í riti Sveins Víkings og heldur minningu þessara merkilegu kvenna þannig á lofti.

Ragnhildur Þrastardóttir