Bókaverslun Sala bóka gekk mjög vel hjá Pennanum-Eymundssyni í fyrra og jólavertíðin tókst vel. Mynd úr safni.
Bókaverslun Sala bóka gekk mjög vel hjá Pennanum-Eymundssyni í fyrra og jólavertíðin tókst vel. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Það var frábær bóksala í allt haust. Íslensk skáldverk og fræðibækur seldust sérstaklega vel,“ segir Margrét Jóna Guðbergsdóttir, vörustjóri íslenskra bóka hjá Pennanum-Eymundssyni. Fyrirtækið rekur 16 bókaverslanir víða um land. Með íslenskum skáldverkum er átt við harðspjaldabækur á íslensku eftir íslenska og erlenda höfunda.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Það var frábær bóksala í allt haust. Íslensk skáldverk og fræðibækur seldust sérstaklega vel,“ segir Margrét Jóna Guðbergsdóttir, vörustjóri íslenskra bóka hjá Pennanum-Eymundssyni. Fyrirtækið rekur 16 bókaverslanir víða um land. Með íslenskum skáldverkum er átt við harðspjaldabækur á íslensku eftir íslenska og erlenda höfunda.

„Það voru allir mjög ánægðir og frábært að sjá hvað þetta kom vel út því margir voru frekar uggandi fyrir vertíðina um hvernig þetta myndi fara,“ segir Margrét. Hún vill ekki gefa upp tölur en segir að „mjög mikil aukning“ hafi verið á milli ára.

Nokkrir titlar kláruðust hjá útgefendum og voru endurprentaðir eins og t.d. skáldsagan Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Hún var mest selda bókin hjá Pennanum/Eymundssyni í fyrra. „Við náðum að eiga bækur til sölu alveg fram að jólum,“ sagði Margrét. Aðrir titlar seldust upp í sumum búðum og var þá hægt að færa óseld eintök á milli búða. Þeirra á meðal var Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason sem seldist upp hjá útgefandanum nokkrum dögum fyrir jól.

Mjög góð sala úti á landi

„Salan gekk frábærlega vel í öllum búðum okkar úti á landi,“ sagði Margrét. „Þar var mikil söluaukning allt árið og sérstaklega fyrir jólin. Það var líka gaman að sjá hvað búðirnar í miðbæ Reykjavíkur komu vel út í desember. Þær sóttu í sig veðrið miðað við árið á undan á meðan salan minnkaði í búðum okkar í verslunarmiðstöðvunum. Eins var góð sala í búðum okkar í Hafnarfirði og Hallarmúla allt árið í fyrra. Þar getur fólk lagt fyrir utan og hlaupið inn og út aftur. Ég held að fólk hafi ef til vill heldur viljað það en að fara í mannmergð í verslunarmiðstöðvum.“

Penninn-Eymundsson er með bókaverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Hún er opnuð í hvert skipti sem er flogið. Salan þar í fyrra var aðeins svipur hjá sjón miðað við fyrri ár vegna mikillar fækkunar flugfarþega. Þar hafa aðallega selst kiljur, alls konar afþreying og ferðamannabækur.

Einnig hefur sala á bókum til ferðamanna dottið niður í öðrum bókabúðum Pennans-Eymundssonar en ferðamenn kaupa mikið af bókum, m.a. landkynningarbækur og íslensk skáldverk í erlendum þýðingum. „Um leið og þetta ástand byrjaði seldist meira öll afþreying, hvort sem voru bækur, litir, litabækur eða púsluspil. Salan í því rauk upp. Eins sala kennslubóka í lestri, skrift og reikningi og öðru til að hafa ofan af fyrir börnunum,“ sagði Margrét.

Snerting í fyrsta sæti

Snerting, skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, trónir efst á Metsölulista Eymundsson fyrir árið 2020. Starfsfólk bókaverslana Pennans-Eymundssonar heldur utan um sölu bóka sem eru á boðstólum í verslununum og gefur reglulega út lista yfir mest seldu bækurnar. Loks er gefinn út metsölulisti hvers árs.

Í 2. sæti metsölulistans var að þessu sinni bókin Vetrarmein eftir Ragnar Jónasson, í 3. sæti Þagnarmúr eftir Arnald Indriðason, í 4. sæti var Gata mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, í 5. sæti Bráðin eftir Yrsu Sigurðardóttur, í 6. sæti Dýralíf eftir Auði Övu Ólafsdóttur, í 7. sæti Vegahandbókin 2020 eftir Steindór Steindórsson og fleiri, í 8. sæti var Þess vegna sofum við eftir Matthew Walker, í 9. sæti var Fjarvera þín er myrkur og í 10. sæti var Spænska veikin eftir Gunnar Þór Bjarnason.