Guðrún Erlendsdóttir fæddist 23. nóvember 1949. Hún varð bráðkvödd 16. desember 2020.

Útför Guðrúnar fór fram 30. desember 2020.

Kær æskuvinkona mín, Guðrún Erlendsdóttir, er fallin frá. Síminn hringdi frá Íslandi 17. desember og mér bárust þessar sorgarfréttir.

Elsku Gudda mín, það er svo sárt til þess að hugsa að ég fái ekki að sjá þig aftur eða tala við þig í símann. Við töluðum síðast saman 3. desember.

Mér brá mikið og varð mjög snortin þann 21. desember þegar pósturinn kom með pakka frá Íslandi. Pakkinn var frá Guddu. Það var KEA-hangikjöt, jólakort og bók í jólagjöf.

Hún hafði sent pakkann þann sjöunda. Ég vissi að hún var ekki frísk, og það var vetrarkuldi, en það hindraði hana ekki í að vilja gleðja æskuvinkonu sína í Danmörku.

Þrátt fyrir mörg áföll og veikindi var hún svo viljasterk og dugleg, svo seig og bar sig vel, hugsaði líka svo vel um Hilmi sinn í veikindum hans. Hún var ótrúlega kraftmikil og sterk kona.

Ég veit að hún og systur hennar Sollý og Lovísa voru mjög nánar, þær sjá nú á eftir elskulegri systur.

Gudda var hlý, trygg og skemmtileg og svo var afskaplega gaman að hlæja með henni. Hún var mér og minni fjölskyldu alla tíð svo góð. Hún prjónaði íslenskar lopapeysur á okkur fyrir ca. 30 árum. Við Gísli og Guðjón Emil eigum þær enn og notum oft, og það er uppáhaldsflík Guðjóns, eins og hann hefur sagt Guddu.

Gudda og Hilmir voru einstaklega gestrisin og tóku á móti okkur Gísla, börnum og barnabörnum margoft, bæði í mat og gistingu. Það var alltaf gott að borða og góðar veitingar. Minn uppáhaldsdesert var Cherry Triffle hennar Guddu. Og svo fórum við fjögur stundum í bíltúr, út í sveit og höfðum nesti með og nutum samveru og vináttu.

Við Gísli áttum margar skemmtilegar stundir með Guddu, Hilmi, Helgu og Kjartani heima á Akureyri.

Þá var mikið hlegið og gert að gamni sínu. Og nú eru þær báðar farnar Helga og Gudda. Sakna þeirra.

Við vorum margar vinkonurnar frá æskuárunum sem hafa haldið hópinn. Ég fluttist til Danmerkur og Auður til Noregs, en Fanný, Halla, Magga og Helga Heimis eru búsettar í Reykjavík. Ég tel mig svo ríka að eiga þær að í lífi mínu, og nú höfum við allar þörf fyrir styrk hver frá annarri, minnast og þakka Guddu fyrir allt.

Já, minningarnar eru margar og dýrmætar, við Gudda vorum alltaf svo glaðar þegar við hittumst.

Elsku Hilmir, Helga, Högni, Óli, tengdabörn, barnabörn, systkini og fjölskyldur. Við Gísli vottum ykkur innilega samúð.

Nú kveð ég þig, kæra vinkona mín, góða ferð í heim ljóss og friðar, skilaðu kveðju til Helgu, við hittumst síðar. Guð geymi þig.

Í dag kom þröstur á glugga minn

og gettu hvað vildi hann mér?

Hann mætti þar til að minna á

að muna ég skyldi eftir þér.

Hann bauð mér að færa þérlárviðarlauf,

það lauf ég í hugskoti finn.

Ég vona að þér kær verði koman hans,

hann kvakar við gluggann þinn.

Hann svífur að norðan á suðlæga strönd,

þar svipast hann um eftir þér.

Hann ætlar að fljúga þá óraleið

með afmæliskveðju frá mér.

Þá vona ég einnig hann syngi þér söng

um sólbros og himneska þrá,

því aldrei má gleymast það ljúfa lag

sem lyftir oss duftinu frá.

(Hugrún)

Gunnlaug Hanna

Ragnarsdóttir, Danmörku.