Ólíkindatól Tanya Pollock er ólíkindatól í íslenskri raftónlist, skrifar gagnrýnandi.
Ólíkindatól Tanya Pollock er ólíkindatól í íslenskri raftónlist, skrifar gagnrýnandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlist og flutningur Tanya Lind Pollock. Um hljóðblöndun sá Atli Már Þorvaldsson. Um hljómjöfnun sá Árni Grétar. Hönnun plötuumslags var í höndum Stefáns Ólafssonar. Útgáfudagur 1. desember 2020. Möller records gefur út.

Tanya Pollock er ólíkindatól í íslenskri raftónlist, sem er nokkuð einstakt að geta haldið fram, þar sem það þarf heilmikið til að geta komið á óvart og verið með sitt eigið „sánd“, sinn eigin hljóm, í raftónlist dagsins í dag. Hún hefur fiktað í tökkum og komið fram ein eða með félögum síðan hún var unglingur. Hún tók þátt í Músíktilraunum ásamt frænda sínum Marlon í dúettinum Anonymous árið 2001, þegar næstum engar stelpur voru að gera raftónlist, og lenti í þriðja sæti. Hún var ein af frumkvöðlum weirdcore-senunnar á Íslandi, þar sem hún skipulagði kvöld fyrir fjölbreytta flóru listamanna sem áttu það ef til vill eitt sameiginlegt að dansa öðruvísi, að elta aðrar stefnur og strauma, og vera ekkert að pæla í því hvað var í tísku. Tónlist hennar hefur ávallt verið á eigin forsendum og nýjasta platan, sú fyrsta sem hún sendir frá sér undir nafninu Röskva, er engin undantekning.

Til að byrja með er nafn plötunnar, Laug , alveg yndislega margrætt og býður upp á margs konar túlkun, en það má segja að það sé svolítið sérkenni Tönyu. Laug getur bæði vísað í blekkingar og lygar, en einnig í hreina og tæra laug sem hægt er að svala þorsta sínum í og baða sig og endurnæra. Taktarnir eru harðir en hreinir. Laglínurnar eru dreymandi og fagrar, en einnig dularfullar og stundum smá hættulegar.

Nöfn laganna níu á Laug eru einnig nokkuð margræð. Þar er hið tíu mínútna langa lag „Ægishjálmur“ augljóslega uppbrot í lengd, þar sem önnur lög plötunnar eru um fjórar til sex mínútur að lengd. Ægishjálmur er galdrastafur með verndandi eiginleika gegn reiði, yfirgangi og hinu illa. „Angurboða“ er hjákona Loka og kemur fyrir í Snorra-Eddu. „Verðandi“ er ein þriggja norna sem halda lífi í Aski Yggdrasils með því að vökva rætur þess og stýra þannig örlögum mannanna, en Verðandi táknar nútímann. Hér er verið að leika sér með tákn, sem virðast við fyrstu sýn mun sakleysislegri en þau eru þegar betur er rýnt í þau. Nákvæmlega þannig er tónlist Röskvu líka. Hún virðist sakleysisleg en er engu að síður að spinna örlagavefi, sína eigin og annarra, og takast á við og tækla tilfinningar sem ekki eru allar einfaldar eða meðfærilegar.

Taktarnir á „Laug“ eru þungir, tilraunakenndir og krefjandi en ægifagrar og dreymandi raddir og syntamottur gefa fögur fyrirheit um að þetta endi nú allt saman vel. Það er mikið að gerast hjá Röskvu á þessum tæplega fimmtíu mínútum. Maður finnur fyrir uppsafnaðri sköpunarþörf listamannsins og augljóst að mikils er að vænta til viðbótar. Að loknu kófinu verður þess vonandi ekki langt að bíða að Röskva geti flutt verk sín opinberlega, enda er Tanya orkubolti á sviði og frábært að finna fyrir tónum hennar og takti í lifandi flutningi.

Ragnheiður Eiríksdóttir