[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2022 Kristján Jónsson kris@mbl.is Portúgal tók forystuna í kapphlaupinu um að vinna 4. riðil undankeppni EM karla í handknattleik með sigri gegn Íslandi, 26:24, í Matosinhos í Portúgal í gær.

EM 2022

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Portúgal tók forystuna í kapphlaupinu um að vinna 4. riðil undankeppni EM karla í handknattleik með sigri gegn Íslandi, 26:24, í Matosinhos í Portúgal í gær. Liðin mætast hins vegar aftur á Ásvöllum á sunnudaginn og þá getur Ísland breytt þeirri stöðu. Tvö lið komast áfram í lokakeppnina 2022 og ekkert bendir til annars en að það verði Ísland og Portúgal.

Töluverð barátta var í leiknum og spennan var til staðar svo gott sem allan leikinn en Portúgal var oftar yfir í leiknum.

Íslenska liðið byrjaði leikinn með Arnar Frey og Ými í miðri vörninni. Sinn hvorum megin voru Elvar og Alexander. Arnór fyrirliði og Bjarki Már voru í hornunum. Í sókn kom Janus inn á fyrir Ými.

Í upphafi leiks var engu líkara en misskilningur hefði átt sér stað í heilbrigðiskerfinu í Portúgal. Heimamenn virtust halda að Alexander Petersson hefði óskað eftir því að fara í lýtaaðgerð á andliti í heimsókn sinni til landsins. Leikmenn Portúgals voru boðnir og búnir og fóru tvívegis í andlitið á Alexander áður en fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Í báðum tilfellum fengu þeir tveggja mínútna brottvísun en síðara brotið verðskuldaði rautt spjald ef ég skil reglurnar rétt. Alexander kom ekki meira við sögu og Ómar Ingi kom inn á.

Leikurinn var mestmegnis í járnum í fyrri hálfleik og ekki munaði miklu á liðunum en Portúgal var þó yfirleitt yfir. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn orðinn þrjú mörk, 14:11 fyrir Portúgal. Íslenska liðið komst aldrei almennilega í gang í fyrri hálfleik en á hinn bóginn kom heldur ekki langur slæmur kafli.

Markvarslan réð úrslitum

Í upphafi síðari hálfleiks skoraði Viggó tvívegis og minnkaði muninn í eitt mark. En Portúgal náði strax þriggja marka forskoti á ný. Leikurinn þróaðist áfram með svipuðum hætti og í fyrri hálfleik. Portúgal var yfir en Ísland sjaldnast langt undan. Íslendingar minnkuðu reglulega muninn niður í eitt mark.

Þegar korter var eftir jafnaði Elvar með góðu skoti frá punktalínunni. Skoraði þá fimmta mark sitt í leiknum og leikmaður Portúgals, Fábio Magalhaes, fékk rauða spjaldið fyrir að ýta Elvari þegar Selfyssingurinn var kominn í loftið. Í næstu sókn Portúgala fékk Arnar Freyr þriðju brottvísunina og þar með rautt spjald. Mikið gekk því á um miðjan síðari hálfleik. Ágúst Elí var kominn í markið og varði þrjú skot á skömmum tíma. Viggó kom Íslandi yfir 21:20 á 48. mínútu í fyrsta skipti síðan á 14. mínútu þegar Ísland var yfir 6:5. Spennan hélst út leikinn.

Íslenska liðið lék ágætlega miðað við aðstæður. Ekki einungis með það í huga að Aron Pálmarsson er úr leik heldur einnig í ljósi þess að liðið kom sjaldan saman á árinu 2020. Liðið spilaði ekki í rúma átta mánuði sem er lengsta hlé hjá landsliðinu í 56 ár. Það var því nánast fyrirséð að ryð yrði í leik liðsins og jákvætt að sýna þá seiglu að eiga þó möguleika að vinna. Þegar upp var staðið réð úrslitum að markvarslan var betri hjá Portúgal og fóru þrjú víti forgörðum hjá Íslandi.

Portúgal – Ísland 26:24

Íþrótta- og ráðstefnumiðstöðin í Matosinhos, undankeppni EM karla, miðvikudag 6. janúar 2021.

Gangur leiksins : 1:1, 4:3, 6:6, 9:7, 11:8, 14:11 , 15:14, 17:14, 19:17, 20:21, 22:21, 23:22, 23:23, 26:23, 26:24 .

Mörk Portúgals : Pedro Portela 7/4, Antonio Rodrigues 3/1, André Gomes 3, Luís Frade 3, Diogo Branquinho 2, Miguel Martins 2, Rui Silva 2, Victor Iturriza 2, Joao Ferraz 1, Alexandre Cavalcanti 1.

Varin skot : Alfredo Quintana 16/1, Humberto Gomes 2/2.

Utan vallar : 10 mínútur.

Mörk Íslands : Bjarki Már Elísson 6, Elvar Örn Jónsson 6, Viggó Kristjánsson 4/1, Arnór Þór Gunnarsson 3/1, Viktor Gísli Hallgrímsson 1, Ómar Ingi Magnússon 1, Ólafur Guðmundsson 1, Janus Daði Smárason 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 7, Viktor Gísli Hallgrímsson 4.

Utan vallar: 6 mínútur.

Dómarar: Fabian Baumgart og Sascha Wild, Þýskalandi.

Áhorfendur : Ekki leyfðir.