Dóra Lydía Haraldsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 1. maí 1943. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 20. desember 2020.

Foreldrar hennar voru hjónin Haraldur Guðjónsson frá Skaftafelli, Vestmannaeyjum, f. 12.12. 1920, d. 23.11. 1993, og Pálína Pálsdóttir frá Vestmannaeyjum, f. 4.9. 1918, d. 7.1. 1972. Bræður Lydíu eru Páll Haraldsson, f. 12.12. 1947, kírópraktor og Haraldur Haraldsson, f. 16.11. 1962, sjúkranuddari og fyrrverandi flugþjónn. Þeir eru báðir búsettir í Danmörku.

Lydía giftist 22. júní 1968 Árna Arinbjarnarsyni tónlistarmanni, f. 8.9. 1934, d. 1.3. 2015. Foreldrar hans voru hjónin Arinbjörn Árnason frá Neðri-Fitjum í Víðidal, f. 16.8. 1904, d. 11.1. 1999, og Margrét Jónína Karlsdóttir frá Bjargi í Miðfirði, f. 20.4. 1893, d. 25.8. 1991. Börn Lydíu og Árna eru: 1) Arinbjörn, f. 22.3. 1971, píanóleikari búsettur í Englandi, kvæntur Joanne Árnason, f. 19.3. 1973, fagottleikara. Börn þeirra eru: Aron James, f. 1.10. 2003, og Joshua Ben, f. 4.4. 2007. 2) Pálína, f. 29.5. 1975, fiðluleikari. 3) Margrét, f. 30.4. 1981, sellóleikari, gift Þórði Mar Sigurðssyni, f. 10.5. 1972, framkvæmdastjóra. Haraldur, bróðir Lydíu, dvaldist á heimili Lydíu og Árna frá níu ára aldri eftir fráfall móður hans.

Lydía ólst upp í Vestmannaeyjum og fluttist tíu ára gömul með fjölskyldu sinni til Keflavíkur. Hún vann á sínum yngri árum í skóbúð og skartgripaverslun Magnúsar E. Baldvinssonar í Keflavík. Hún fluttist til Reykjavíkur 25 ára eftir að hún giftist Árna og vann um tíma á Ríkisútgáfu námsbóka. Eftir að hún eignaðist börnin vann hún sem heimavinnandi húsmóðir.

Útför Lydíu fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í dag, 7. janúar 2021, klukkan 15. Athöfninni verður streymt á vefslóðinni: https://filadelfiareykjavik.online.church

Virkan hlekk á streymi má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku yndislega mamma mín er nú komin heim til Drottins. Það er óraunverulegt og ólýsanleg tilfinning að mamma er ekki til staðar lengur. Við mamma áttum gott og náið samband og vorum góðar vinkonur. Það var svo notalegt að búa nálægt hvor annarri og borða saman á kvöldin. Ég er svo þakklát fyrir allar okkar góðu og skemmtilegu samverustundir. Mamma var einstaklega falleg kona og stafaði birta frá henni hvert sem hún fór. Hún hafði létt lundarfar og var mjög hláturmild og skemmtileg. Mamma var einnig jákvæð og lífsglöð og fannst gaman að lifa.

Mamma og pabbi áttu yndislegt og gott hjónaband, og voru þau sérstaklega náin og samrýnd. Það var mikill missir fyrir mömmu þegar pabbi minn, Árni Arinbjarnarson, lést árið 2015 eftir veikindi. En mamma sýndi mikinn styrk og lífsvilja.

Mamma átti lifandi trú á Guð, og ung að árum tók hún á móti Jesú Kristi sem frelsara sínum. Hún sótti reglulega samkomur í Hvítasunnukirkjunni. Fyrst í Betel í Vestmannaeyjum, þar sem hún fæddist, og frá 10 ára aldri í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík, þar sem faðir hennar Haraldur Guðjónsson var forstöðumaður. Eftir að mamma giftist pabba fluttu þau til Reykjavíkur, en þá var hún 25 ára.

Mamma var svo góð fyrirmynd fyrir okkur systkinin. Hún sýndi okkur hvernig trúin á Guð getur hjálpað og leitt okkur í gegnum lífið, bæði í gleði og sorg. Mamma mætti ýmiss konar mótlæti í gegnum árin og líkamlegum veikindum. En hún sýndi alltaf mikla jákvæðni, þrautseigju og traust á Guð.

Mamma var alltaf mín stoð og stytta, og tók mikinn þátt í öllu mínu daglega lífi. Ég er þakklát fyrir þær góðu minningar um stundirnar sem við mamma áttum saman á morgnana þegar ég var lítil og báðum til Guðs. Þetta er ómetanlegt veganesti út í lífið og hefur fylgt mér alla tíð. Hún hjálpaði mér einnig á byrjunarárunum í fiðlunáminu og var alltaf hjá mér þegar ég æfði mig á fiðluna. Mamma hafði gott tóneyra þótt hún spilaði ekki sjálf á hljóðfæri. Hún naut þess að hlusta á tónlist og fara á tónleika. Hún sýndi mikla þolinmæði þegar við systkinin og pabbi æfðum okkur á hljóðfærin, oft á sama tíma, á heimilinu.

Það eru líka margar góðar minningar frá skemmtilegu útreiðartúrunum og hestaferðalögunum sem við fjölskyldan fórum saman í. Foreldrar mínir áttu hesthús í Víðidalnum, og mamma var einstaklega dugleg að hirða hestana og fara í útreiðartúra. Þetta gaf henni svo mikla ánægju.

Ég er svo þakklát fyrir alla elskuna og umhyggjuna sem mamma sýndi mér. Það er erfitt að ímynda sér lífið án mömmu, að geta ekki hringt í hana og heyrt fallegu röddina hennar. Það er óendanlega sárt að kveðja elsku mömmu mína, og söknuðurinn er svo mikill. En það er mikil huggun fólgin í þeirri fullvissu og trú, að nú er mamma komin heim til Drottins og að þetta er tímabundinn aðskilnaður.

Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið.

Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“

(Jóh. 11:25.)

Pálína Árnadóttir.

Fjórði sunnudagur í aðventu. Vetrarsólstöður – þegar birta tekur á ný. Kveikt var á fjórða og síðasta kertinu á aðventukransinum, Englakertinu. Jólin fram undan, þegar við fögnum fæðingu frelsarans. Elsku mamma og Pálína systir mín voru í heimsókn hjá okkur Þórði þetta sunnudagskvöld. Mamma var mikið jólabarn og fannst gaman að skoða jólaskrautið hjá okkur, alla englana sem hún hafði gefið mér á aðventunni í gegnum árin. Á borðinu stóðu rauðu túlípanarnir sem hún hafði gefið mér tveimur dögum áður. Við áttum yndislega kvöldstund saman. Fljótlega eftir að hún kom heim til sín þetta kvöld fór hún heim til Jesú, í hina sönnu himnesku jólagleði sem tekur aldrei enda. Það hefur örugglega verið heill englakór sem tók á móti henni.

Fyrir mér var mamma eins og engill. Hún var falleg og björt og geislaði af hlýju og kærleika. Frá barnsaldri átti hún djúpa og einlæga trú á Jesú Krist og bað fyrir mörgum. Hún bar mikla umhyggju fyrir fólki, var örlát og gjafmild og var alltaf að hugsa um aðra. Á árum áður var hún algjör klettur fyrir tengdaforeldra sína og var trúföst í umönnun þeirra. Hún var okkur systkinunum einstök móðir og gaf sig alla í að annast okkur fjölskylduna af mikilli umhyggju og ást. Mér er minnisstætt þegar ég var lítil, áður en ég hóf skólagöngu, að við mamma sátum saman við eldhúsborðið á morgnana og við báðum saman, svo kenndi hún mér að lesa og fórum svo í sellóæfingarnar. Hún var alltaf svo blíð og góð og það var svo notalegt að vera í kringum hana. Það er ómetanlegt að eiga æskuminningar um mömmu sem var alltaf til staðar þegar ég kom heim úr skólanum, oft með eitthvað nýbakað úr ofninum.

Við mamma vorum alla tíð mjög nánar og okkur fannst mjög sætt að afmælisdagar okkar skyldu vera hlið við hlið. Við vorum bestu vinkonur og mér fannst ómissandi að tala við hana í síma nokkrum sinnum yfir daginn og fara helst í kaffi til hennar daglega. Það kom sér vel að við bjuggum í sama hverfinu. Það var alltaf svo gott að spjalla við hana um allt, hún var svo góður hlustandi. Hún var glaðlynd og skemmtileg og hafði einstaklega góðan húmor. Það var gaman að fara með henni nokkrar ferðir í berjamó í haust og var hún dugleg að tína. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt svona yndislega mömmu og fyrir allt sem hún gerði fyrir mig.

Mamma og pabbi voru mjög samrýnd hjón og hún saknaði hans mikið eftir að hann lést árið 2015. Nú eru þau saman á ný. Það er sárt að kveðja elsku mömmu mína og ég sakna hennar óendanlega mikið. Nú er hún í dýrðinni hjá Jesú þar sem við munum öll hittast á ný.

Jesús sagði: „Ég lifi og þér munuð lifa.“ (Jóh. 14:19)

Margrét Árnadóttir.

Elskuleg tengdamóðir mín varð bráðkvödd á heimili sínu fjórða sunnudag í aðventu. Mér var verulega brugðið að fá þessar fréttir rétt fyrir jólin. Kvöldið sem hún fór höfðum við Margrét átt góða kvöldstund saman með henni og Pálínu heima hjá okkur Margréti. Við áttum skemmtilegar samræður og vorum farin að hlakka til að eyða jólunum saman. Fyrr um daginn höfðum við Margrét keypt jólatré handa henni og sett upp í stofunni hjá henni og ætlaði Margrét að skreyta það daginn eftir. Aldrei hefði maður trúað því að þetta kvöld væri kveðjustundin.

Ég á eftir að sakna tengdamóður minnar sem var mér alltaf svo góð og talaði alltaf svo hlýlega og fallega til mín. Hún hafði mikinn áhuga á öllu sem við vorum að gera. Það var gott að vita að við vorum alltaf í bænum hennar og hún var mikill þáttakandi í öllu okkar daglega lífi. Hún var svo blíð og góð og alltaf stutt í húmorinn. Hún bauð okkur reglulega í mat á sunnudagskvöldum í lambalæri og passaði upp á að ég fengi mikinn rjóma með eftirréttinum. Þegar Margrét og Pálína voru í tónleikaferð var Lydía alltaf að bjóða mér í mat og hugsaði vel um mig. Það var alltaf bjart yfir henni, henni þótti vænt um fólk og var mjög félagslynd enda var alltaf heitt á könnunni hjá henni. Hún var mikil fjölskyldumanneskja og hugsaði vel um fólkið sitt.

Það er dýrmætt að hafa náð að fara með henni í ferðalag síðasta sumar í Reykholt þar sem við skoðuðum nánasta umhverfi, Húsafell, Hraunfossa og geitasetur sem sló algjörlega í gegn hjá Lydíu. Henni fannst svo gaman að halda á kiðlingunum. Hún var eitt sólskinsbros. Hún var mikill dýravinur og hestakona.

Lydía var einstök kona sem skartaði öllu því besta sem hægt er að hugsa sér. Hún var einstök tengdamóðir, kærleiksrík, umhyggjusöm og mikil Guðskona. Hún átti persónulega trú á Jesú Krist og hún bar það með sér allt sitt líf.

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Jóhannes 3:16

Blessuð sé minning elsku tengdamóður minnar.

Þórður Mar Sigurðsson.

Við bræðurnir eigum margar yndislegar minningar um elsku ömmu. Þó að við höfum nú búið í Englandi í næstum 14 ár nutum við þess svo innilega þegar við fórum í heimsóknir til ömmu á Íslandi. Við elskuðum stundirnar með ömmu á Íslandi og líka þegar hún kom í heimsóknir til Englands með afa fyrstu árin eftir að við fluttum út. Alltaf þegar við komum í heimsókn til Íslands, þá eldaði amma svo frábæran mat og bakaði svo fínar kökur handa okkur. Við minnumst ljúfs ilms úr eldhúsinu hennar ömmu og þegar við bökuðum saman kökur með henni. Við virkilega nutum þessara stunda með elsku ömmu og enn í dag notum við uppskriftirnar frá henni þegar við bökum kökur hér heima í Englandi.

Eitt sumarið þegar amma og afi komu að heimsækja okkur hér í Englandi fórum við í dagsferð til Norður-Devon. Við munum sérstaklega eftir því þegar við skoðuðum áhugaverða steina á ströndinni með ömmu. Henni fannst steinarnir svo fallegir að hún tók þá með sér til Íslands og setti þá í stofugluggann sinn.

Þegar við vorum mjög ungir munum við líka eftir því þegar amma bjó til pappírsbáta og lét þá fljóta á tjörn í garðinum okkar. Við vorum mjög hrifnir af því! Svo var hún mjög klár að djöggla boltum á lofti. Amma var mjög hrifin af list og af fallegum hlutum og við munum alltaf minnast þess hversu glöð hún var þegar Aron sendi henni eitt af olíumálverkum sínum á síðasta ári. Aron málaði málverkið fyrir ömmu á meðan hún var í aðgerð á síðasta ári og til að gleðja hana þegar hún kæmi heim.

Við munum sakna þess að tala við ömmu í símanum af því að það var alltaf svo gott að heyra í henni og að tala um lífið og hvernig allt gengur. Þrátt fyrir að hafa ekki komist í heimsókn til ömmu á síðasta ári var samt mjög dýrmætt fyrir okkur bræður að geta talað við ömmu á FaceTime og geta séð hana.

Hún var alltaf svo glöð að sjá okkur í símanum og við vorum líka svo þakklátir fyrir að sjá og tala við hana.

Við bræður erum mjög þakklátir fyrir kærleika ömmu og fyrir hennar uppörvun. Hún var alltaf svo elskuleg við okkur bræðurna og hún sagði okkur oft að á hverjum degi bæði hún til Guðs fyrir okkur. Okkur hlýnar um hjartarætur við tilhugsunina um að amma er núna á himnum með elsku afa.

Við höfum þá fullvissu og sannfæringu í hjarta að þau bæði biðja fyrir okkur nú, alveg eins og þau gerðu þegar þau voru með okkur hér á jörðu.

Aron James og Joshua Ben, Englandi.

Við andlát Lydiu Haraldsdóttur koma fram margar minningar frá liðnum árum, flestar tengdar heimsóknum þeirra hjóna að Bjargi, mínu æskuheimili, en einnig mörgum samverustundum síðar.

Hún var Keflavíkurmær og vann við verslunarstörf. Hún giftist móðurbróður mínum, Árna Arinbjarnarsyni, þá bæði komin vel af unglingaskeiði.

Árni bjó fram að giftingu þeirra hjá foreldrum sínum, Arinbirni Árnasyni frá Fitjum í Fitjárdal og Margréti Karlsdóttur, ættaðri frá Bjargi í Miðfirði. Árni var yngsta barn hennar, en fyrir átti hún fimm börn og var Anna móðir mín elst.

Heimili Arinbjörns og Margrétar ömmu var um áratugaskeið á Birkimel 6 í Reykjavík og naut ég þeirrar gæfu að dvelja þar sem barn í einn vetur, við leik og nám.

Það var reyndar fyrir tíma Lydiu. Mikil tónlist í hávegum og léttleiki yfir heimilinu. Birkimelur 6 var eins konar aðsetur fólksins að norðan. Þangað var gott að koma og amma Margrét fylgdist með öllum ættboganum syðra og miðlaði fréttum.

Þau Lydia og Árni voru einstaklega glæsileg hjón, giftu sig í júní 1968 og áttu þau barnaláni að fagna. Elstur er Arinbjörn, lærður píanóleikari, þá Pálína, sem leikur á fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands, svo einnig Margrét, sem leikur þar á selló. Árni starfaði alla ævi við tónlist, kennari og bæði fiðlu- og organleikari við ýmsar kirkjur. Hann var einnig um árabil tónlistarstjóri Fíladelfíusafnaðarins, en þau Lydia voru bæði meðlimir í þeim söfnuði. Eftir giftingu þeirra hjóna var köllun hennar að skapa veglegt og kærleiksríkt heimili fyrir fjölskylduna.

Samheldni þeirra hjóna var augljós og einlæg. Á heimili þeirra var mikið af hljóðfærum, veglegastur mikill flygill í stofunni, en fiðlur og fleiri hljóðfæri á veggjum og gólfi. Anna móðir mín átti oft erindi til þeirra hjóna, stundum gætti hún húss og dýra, ef hjónin brugðu sér af bæ. Hún naut þessara heimsókna mjög.

Við Lydia hittumst á sjúkrahóteli Landspítalans í júní í sumar, bæði til að jafna okkur eftir aðgerðir.

Áttum við þar nokkur samtöl, en samveran var skert, vegna Covid-reglna. Hún var kát og skemmtileg, eins og hennar var eiginleiki.

Ræddum gamla tíma og rifjuðum upp ýmis atvik. Ekki var fyrirsjáanlegt að það yrði okkar síðasti samfundur. Táknrænt var að eftir óvænt andlát hennar skyldi ég opna jólakort frá henni, þar sem hún óskar okkur fjölskyldunni farsældar og lýsir jafnframt góðri líðan sinni og heilsu.

Að leiðarlokum vil ég og fyrir hönd okkar systkinanna frá Bjargi þakka góða samleið og flytja börnum og fjölskyldu Lydiu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Karl Sigurgeirsson.

Það er ótrúlegt að sitja hér og skrifa minningargrein um Lydíu. Eftir að mamma mín féll frá tók ég hennar stað sem trúnaðarvinkona Lydíu. Við gátum talað um nánast allt, áttum sömu trú og vorum ótrúlega nánar vinkonur. Ef eitthvað var að gat ég verið viss um að hún bæði fyrir því þar sem hún hafði einlægan áhuga á öllu sem viðkom fjölskyldunni.

Við áttum marga fasta snertifleti í lífinu. Nýársdagur var alltaf hátíðlegur því þá komu Árni og Lydía til okkar í Lönguhlíðina. Eftir að foreldrar okkar féllu frá fórum við Halldór bróðir og Lydía yfirleitt þrjú saman í afmælið hans Palla bróður. Við það urðum við þrjú nokkurs konar þríeyki. Eftir að Palli féll frá héldum við þrjú áfram að hittast á kaffihúsi á afmælisdegi hans. Það var alltaf tilhlökkun að hittast, oftast á Mokka en það var uppáhaldsstaður Palla. Við Lydía og Halldór fórum einnig saman í bíl norður í Miðfjörð vegna 100 ára fæðingarafmælis Önnu frænku.

Við fundum ekki staðinn strax og keyrðum kringum Vatnsnesið fram og til baka. Okkur var reyndar alveg sama þótt við hefðum villst því það var svo gaman að vera saman. Ómissandi samverur voru einnig afmæli Lydíu 1. maí og berjamórinn í sveitinni okkar á haustin. Þar sá ég Lydíu síðast. En símtölin voru mörg og við vorum farnar að hlakka til að hittast á Mokka hinn 12. febrúar. Þess í stað verður næsti hittingur á himnum, ekki bara í klukkutíma heldur um alla eilífð. Þangað til þarf ég að endurraða lífi mínu, slíkt er skarðið sem Lydía skilur eftir sig. Hún var þvílíkt yndisleg og gefandi kona að skarð hennar verður vandfyllt. Ég votta börnum hennar þremur og bræðrum innilega samúð. Blessuð sé minning hennar.

Guðrún Margrét Pálsdóttir.

Í dag er borin til moldar kær vinkona og trúsystir, Dóra Lydía Haraldsdóttir. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 20. desember síðastliðinn.

Vinátta okkar hófst fyrir um það bil fjörutíu árum. Það var á jólasamkomu í Fíladelfíu í Reykjavík. Þá voru jólasamkomur hátíðlegar og við klæddumst okkar fínustu fötum og hlökkuðum til samverunnar. Lydía sat í bekk fyrir framan okkur Óla, ásamt börnum sínum, Pálínu, Margréti og Arinbirni. Árni Arinbjarnar, maður Lydíu, organisti og kórstjóri Fíladelfíusafnaðarins, var uppi á sviði og annaðist alla tónlist.

Skömmu eftir að guðsþjónustan hófst sneri Lydía sér við í sætinu, rétti mér hönd og kynnti sig. Handtak hennar var kyrrt og þétt. Frá þeirri stundu vorum við vinkonur og í framhaldi varð til lítill hópur trúsystra sem hélt hópinn, en í honum voru, auk okkar Lydíu, Marianne Glad og Soffía Vigfúsdóttir, en hún lést 1997.

Í öll þessi ár hélst einlæg vinátta okkar og störfuðum við saman í Systrafélagi safnaðarins og einnig hittumst við til skiptis á heimilum okkar.

Á þessum svokölluðu efri árum myndast skörð í hóp okkar eldra fólks. Þannig er lífið. Vinir falla frá og tilveran verður fátæklegri við hvert andlát. Þá er og erfiðara að bindast nýju fólki vináttuböndum með hækkuðum aldri og kynslóðaskiptum.

Trygg vinátta eins og við fjórar ræktuðum í öll þessi ár er vandfundin. Við mótlæti og áföll studdum við hver aðra og á góðum stundum glöddumst við saman. Óteljandi símtöl einkenndu tryggð okkar þegar erfiðara var að hittast vegna slakari heilsu og alls þess sem hækkuðum aldri fylgir. Söknuður verður fyrirferðarmeiri. Skörðum fjölgar i heimsmyndinni.

Og nú hefur eitt skarðið til viðbótar bæst við. Með þessum fátæklegu orðum okkar kveðjum við Óli Lydíu með söknuði, þakklát fyrir vináttu hennar í gegnum árin. Börnum hennar og fjölskyldu vottum við einlæga samúð við fráfall þessarar traustu konu.

Ásta Jónsdóttir

og Óli Ágústsson.

Þegar fregnin barst um að Lydía hefði flutt til nýrra heimkynna var það eitthvað svo snöggt og fyrirvaralaust, svo ótrúlega óraunverulegt.

Lydía kom inn í ættina mína þegar Árni yngsti bróðir pabba kynnti hana til sögunnar fyrir rúmum 50 árum. Hún var svo elskuleg, falleg og skemmtileg. Mamma mín, mágkona hennar, hélt alla tíð mikið upp á hana og þær voru bestu vinkonur á meðan mamma lifði. Hún missti mikið þegar mamma dó fyrir allmörgum árum, en þegar Árni eiginmaður hennar dó fyrir fimm árum var söknuður hennar mikill og langvarandi, en samrýndari hjón en þau finnur maður varla. Aldrei féll skuggi á það hjónaband mér vitandi. Ég gerði mér far um að líta til Lydíu annað slagið eftir andlát Árna að áeggjan Bjargar konu minnar. Þá kynntist ég þessari frábæru konu betur og var það alltaf tilhlökkun að koma við í Geitlandinu þegar færi gafst, setjast í eldhúsið, stofuna eða út í garð þegar þannig stóð á og spjalla um allt milli himins og jarðar.

Söknuðurinn er nú mikill hjá Pálínu og Margréti, sem önnuðust móður sína svo frábærlega vel og voru svo miklar vinkonur hennar.

Elsku Pálína, Margrét, Arinbjörn, Haraldur, Páll og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Ég bið góðan Guð að vera með fjölskyldunni og græða sárin, en hann er jú svo góður í því.

Halldór Pálsson.