Páll Gíslason
Páll Gíslason
Eftir Pál Gíslason: "Utanvegaakstur á hálendinu er vissulega vandamál en af fjölmiðlafréttum að dæma er sá vandi mestur í hinum margmærða Vatnajökulsþjóðgarði."

Helstu rök sem færð eru fyrir því að lögfesta miðstýrt stjórnsýslubákn fyrir miðhálendið eru hvorki þungvæg né trúverðug, alla vega í eyrum mínum sem hef undanfarna tvo áratugi haft fasta starfsstöð langt innan marka fyrirhugaðs miðhálendisþjóðgarðs.

Þrennt heyrist einkum nefnt sem vandamál sem bregðast þurfi við með því að stofna þjóðgarð og „vernda miðhálendið“: skipulagsleysi, ofbeit sauðfjár og utanvegaakstur. Ekkert af þessu stenst þegar að er gáð en þessi atriði eru samt óspart notuð til að sykurhúða pólitíska og skaðlega forræðishyggju í umræðunni á Alþingi og í samfélaginu.

Hvað er málið?

Fullyrðingar um skipulagsleysi eiga sér ekki stoð í veruleikanum. Skipulagsmál eru í föstum skorðum á miðhálendinu og ekki annað að heyra en núgildandi stjórnsýsla eigi sér stað í sátt og samlyndi umsýsluaðila þjóðlendunnar og sveitarstjórna. Hverju hefði miðhálendisstofnun þar við að bæta?

Utanvegaakstur á hálendinu er vissulega vandamál en af fjölmiðlafréttum að dæma er sá vandi mestur í hinum margmærða Vatnajökulsþjóðgarði.

Svo er það í þriðja lagi lausaganga búfjár á hálendinu. Nærtækt er að lýsa eigin upplifun nú þegar liðnir eru nær sex áratugir frá því ég tók fyrst þátt í að reka sauðfé á norðlenskar heiðar. Á þeim tíma hefur fé fækkað og beitarstýring verið innleidd í samráði við Landgræðsluna með þeim árangri að gróðri á hálendinu hefur farið verulega fram.

Þá er vert að geta þess sem varla eða alls ekki er að finna í lagatexta og greinargerð frumvarps um miðhálendisþjóðgarð. Hugtakið „sjálfbærni“ kemur til að mynda aðeins einu sinni fyrir og það í greinargerðinni (!). Umhverfis- og auðlindaráðherra getur auðvitað ekki verið þekktur fyrir að nefna orkuauðlindir miðhálendisins og sjálfbærni nokkurs staðar í samhengi. Hvar stæði íslensk þjóð annars ef orka í fallvötnum og jarðvarma hefði ekki verið virkjuð? Nú skal slíkt stöðvað í eitt skipti fyrir öll, það er undirliggjandi andi lagasetningar um miðhálendisþjóðgarð.

Hálendið er verðmætt, já! Hver mælir svo sem gegn því? Er einhver annar kvarði til að mæla verðmætið en fjárhagslegur? Ekki svo ég viti.

Þarf þá ekki miðhálendisþjóðgarður að skila beinhörðum tekjum af ferðamönnum til að verðmæti svæðisins birtist og skili sér „heim“? Augljóslega, já.

Komið er þá að því sem óneitanlega vekur athygli en kemur ekki á óvart þegar haft er í huga að fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar vermir ráðherrastól umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Hugtakið „rekstraraðili“ kemur hvergi fyrir í frumvarpinu. Undirliggjandi andi lagasetningarinnar er enda sá að þeir sem stunda ferðaþjónustu og rekstur á hálendinu skuli vera í hlutverkum ófríðu barnanna sem Eva faldi hingað og þangað þegar von var á Guði, sbr. Grimmsævintýri IV.

Umhverfis- og auðlindaráðherra lofar sveitarfélögum gulli og grænum skógum gegn stuðningi við miðhálendisþjóðgarð og nokkrir sveitarstjórnarmenn láta freistast. Á sama tíma er ætlast til þess að Vatnajökulsþjóðgarður skeri niður rekstrarkostnað um tugi prósenta vegna minnkandi ríkisframlags.

Er þá ástæða til að kokgleypa agnið um rausnarlegar ríkisfjárveitingar til miðhálendisþjóðgarðs um ókomin ár? Ætli meiningin sé ekki frekar sú að ófríðu börnin eigi að borga þennan pólitíska brúsa! Rekstraraðilar á hálendinu verða að búa sig undir breyttar rekstrarforsendur og gjaldheimtu sem ekki verður staðið undir nema með því að velta auknum álögum út í verðlagið. Það er nokkuð sem ferðaþjónustan þarf mjög á að halda eða hitt þó heldur.

Umhverfis- og auðlindaráðherra fullyrðir að miðhálendisþjóðgarður muni „marka straumhvörf í náttúruvernd á Íslandi“. Eftirtektarvert er þá að sjá að í frumvarpinu er hvorki að finna skilgreind sjálfbærnimarkmið með miðhálendisþjóðgarði né að gerð sé grein fyrir samþættingu málsins við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Slíkt má undarlegt heita þegar fimmtungur er liðinn af 21. öldinni og sjálfbærni mál málanna heima og heiman.

Höfundur er verkfræðingur og áhugamaður um skynsemi og sjálfbærni við nýtingu hálendisins.