Löngum kosningaslag er lokið vestra en ofsagt að taka undir með karlinum að friður sé „skollinn á“

Segja má að kosningatörninni í Bandaríkjunum hafi lokið í gær með talningu eftir kjördaginn áður. Þegar þetta er skrifað er þó ekki talið algjörlega útséð um hvernig úrslitin falli, því enn er eftir að telja nokkra tugi þúsunda atkvæða. Slegist var um bæði sæti Georgíuríkis í öldungadeildinni í Washington.

Fjölmiðlar vestra töldu þá orðið því sem næst öruggt að fullyrða mætti að demókratar hefðu þegar náð öðru þingsætinu af repúblikönum og þeir hefðu einnig forystu í talningu um hitt þingsætið þótt þar væri munurinn enn minni. Fari svo, sem ekki er líklegt, að einungis annað sætið falli til demókrata gætu andstæðingar þeirra litið á úrslitin sem varnarsigur sinn. Þá yrði þrengra svigrúm fyrir forseta demókrata að eiga við að koma málum sínum í gegn í þinginu, hvort sem um væri að ræða lagamálefni eða skipun í fjölmörg áhrifamikil embætti sem öldungadeildin á seinasta orðið um.

Falli bæði sætin til demókrata þá er staðan jöfn í þinginu og ímynd nýliðinna kosninga fyrir repúblikana myndi versna enn. En of mikið væri sagt að telja að staða demókrata væri þá sterk í þinginu. Því það vill gleymast að í kosningunum í nóvember sl. töpuðu demókratar verulegu fylgi og þar með fulltrúum í hinni fjölmennu fulltrúadeild þingsins, svo að þar skilja aðeins örfá sæti fylkingarnar að. Það á eftir að verða demókrötum erfið raun. Við þetta bætist að aldrei í sögu Bandaríkjanna hefur veikari forseti komið nýr í Hvíta húsið. Hann var, svo sem frægt er, geymdur í kjallaranum heima hjá sér næstum alla kosningabaráttuna, en rækilega studdur af bandaríska fjölmiðlaveldinu sem lét sér nægja að fá sendar spurningar til frambjóðandans frá umsjónarmönnum hans og sitja svo „hugfangnir“ fyrir framan hann þegar Joe las svörin af spjöldum sem ekki var endilega ljóst hvort hann hefði haft nokkuð með að gera!

En þessi úrslit sem nú urðu eru þó hvergi nærri því að vera óvenjuleg. Þegar Obama hvarf úr Hvíta húsinu fékk Donald Trump meirihluta í báðum þingdeildum í ferðanesti. Þegar George W. Bush kvaddi 2008 fékk Obama meirihluta í báðum þingdeildum í sitt nestisbox. Munurinn er sá að Trump tapaði sínu embætti eftir 4 ár eins og Jimmy Carter gerði. Það gerði Bush eldri einnig, en þá verður að hafa í huga að hann hafði verið varaforseti Reagans í 8 ár áður en hann varð forseti og repúblikanar höfðu því haldið Hvíta húsinu í 12 ár samfleytt.

Svo að samanburðinum sé haldið áfram þá má minna á að Carter átti við Ronald Reagan að eiga sem eftir 4 ár í embætti forseta vann meirihluta í 49 af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Mondale, keppinautur hans, vann aðeins sitt heimaríki, en jafnvel þar munaði aðeins örfáum atkvæðum að Reagan ynni það eins og öll hin.

En Trump átti við Joe Biden, sem er varla umdeilt að gengur „ekki á öllum,“ og var því geymdur í kjallaranum ásamt öðru því sem passaði ekki í stássstofurnar uppi.

Það er ekki góð einkunn fyrir Trump að hafa ekki ráðið við það.

En hans menn geta bent á að enginn forseti á síðari tímum hefur sætt öðru eins einelti og Trump sætti í sinni tíð. Nær allt kjörtímabilið var sveit sérstaks saksóknara með tugi saksóknara og rannsakenda að fara yfir ásakanir um að Rússar hefðu séð til að Trump ynni kosningarnar 2016.

Allir helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna fylgdu þessari dellu eftir eins og þeir vissu sjálfir ekkert í sinn haus. Það var einnig eftirtektarvert að evrópskir fjölmiðlar töldu allan þennan tíma að þarna væri verið að fjalla um alvöru mál, og það jafnvel risavaxið mál og urðu því sér til minnkunar eins og starfssystkinin vestra.

En það hefur sjálfsagt orðið huggunarríkt fyrir Trump í harmi hans að Gallup birti niðurstöður könnunar sinnar í gær sem sýndi að hann, Donald Trump, væri á þessari stundu dáðasti maður Bandaríkjanna. Obama kom næstur á eftir Trump og sá þriðji í kjallara þessarar mælingar var nýkjörni forsetinn, Joe Biden. Sko hann.