[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is Íslendingar þurfa að horfa víðar um völl þegar um utanríkisviðskipti er að ræða, bæði hvað varðar viðskipti með vörur og þjónustu. Þróun heimsviðskipta ber það augljóslega með sér og lýðfræðilegar breytingar á helstu viðskiptalöndum sömuleiðis. Vægi Evrópu er þar að minnka, ekki síst þó vegna gríðarmikils vaxtar miðstéttar í heiminum utan Vesturlanda, sérstaklega í Kína og Indlandi. Þá er athyglisvert að það er Bandaríkjadalur sem er helsta viðskiptamynt Íslands, ekki evran, eins og sumir gætu ætlað.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Íslendingar þurfa að horfa víðar um völl þegar um utanríkisviðskipti er að ræða, bæði hvað varðar viðskipti með vörur og þjónustu. Þróun heimsviðskipta ber það augljóslega með sér og lýðfræðilegar breytingar á helstu viðskiptalöndum sömuleiðis. Vægi Evrópu er þar að minnka, ekki síst þó vegna gríðarmikils vaxtar miðstéttar í heiminum utan Vesturlanda, sérstaklega í Kína og Indlandi. Þá er athyglisvert að það er Bandaríkjadalur sem er helsta viðskiptamynt Íslands, ekki evran, eins og sumir gætu ætlað.

Þetta er meðal þess helsta sem lesa má úr nýrri skýrslu um utanríkisviðskiptastefnu Íslands, sem utanríkisráðuneytið gaf út í gær. Í henni má finna á einum stað helstu upplýsingar um stöðu utanríkisviðskiptanna og helstu horfur. Það eru á hverjum tíma athyglisverðar upplýsingar um undirstöðu hagsældar í landinu, en sjálfsagt enn tímabærari en endranær nú, þegar blikur eru á lofti í alþjóðaviðskiptum, Bretar nýgengnir úr Evrópusambandinu (ESB) og bandalagið mögulega á nokkrum tímamótum af þeirri og ýmsum ástæðum öðrum. Við bætist svo auðvitað heimsfaraldurinn, sem hefur haft gríðarmikil áhrif á heimsviðskipti og þá ekki síst ferðaþjónustu, sem á raunar frekar við á Íslandi en víðast hvar.

Útflutningsríkið Ísland

Ísland er útflutningsdrifið hagkerfi með lítinn innanlandsmarkað og tiltölulega fábreytta framleiðslu. Þar skipta auðlindir landsins mestu, hvort heldur horft er til próteins, orku eða nátttúrufegurðar, en eftir sem áður þarf að nýta þær og koma á framfæri við umheiminn, eigi þær að koma að gagni og skapa verðmæti.

Sem þjóð erum við því háð greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum og aðföngum erlendis frá. Þar eiga Íslendingar því afar mikið undir fríverslun, bæði til þess að koma íslenskri vöru og þjónustu á framfæri við heimsþorpið, og einnig til þess að Íslendingar geti notið hins besta sem umheimurinn hefur að bjóða.

Evrópska efnahagssvæðið

Skýrslan fjallar í nokkru máli um fríverslunarsamninga Íslands. Þar er mestur veigur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), en innan þess eru um 500 milljónir manna. Sá óhefti aðgangur að innri markaði Evrópu er kjölfesta í utanríkisviðskiptum.

Stærstur hluti viðskipta Íslands er við Evrópuríki og á það við um útflutning og innflutning á vöru og þjónustu. Samningur Evrópusambandsins (ESB) og EFTA-ríkjanna um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er grundvöllur þessara viðskipta og hefur tryggt greiðan aðgang íslenskra útflytjenda að evrópska markaðnum í rúm 25 ár.

Á árinu 2019 fóru yfir 80% af öllum vöruútflutningi Íslendinga til Evrópuríkja og um 2/3 hlutar alls innflutnings komu þaðan. Hlutfall vöruútflutnings til Evrópusambandsríkja (ESB28) var 70,9%, en ef Bretland er undanskilið (ESB27) lækkar hlutfall Evrópusambandsins í 60,5%. Ekki er þó allt sem sýnist um vægi Evrópu (eða evrunnar) í þeim efnum. Þannig er Holland meðal helstu viðskiptalanda Íslands, sem stafar af því hve ákaflega mikið af vörum til og frá Íslandi fer um höfnina í Rotterdam, þó upprunalandið kunni að vera annað Evrópuríki eða lönd í fjarlægum heimshlutum. Ef Holland er þannig undanskilið hefur Bretland verið stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenskar vörur undanfarin ár og ekki útlit fyrir breytingu á því.

Árið 2019 komu 50,6% tekna Íslendinga af þjónustuútflutningi frá Evrópuríkjum og rúmlega 3/4 hlutar innfluttrar þjónustu komu þaðan. Hlutfall Evrópusambandsríkja (ESB27) í þjónustuútflutningi var 32,4%, að undanskildu Bretlandi. Bandaríkin voru stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenska þjónustu árið 2019 (29,7%) og Bretland sá næststærsti (11,9%).

Evrópusambandið

Evrópusambandið snýst hins vegar ekki aðeins um fríverslun þeirra á milli, heldur er það tollabandalag gagnvart umheiminum. Ríki sambandsins hafa sameiginlega viðskiptastefnu og gera alla fríverslunarsamninga sameiginlega og mega ekki gera slíka samninga upp á eigin spýtur.

Af þeim sökum blasir við – miðað við núgildandi fríverslunarsamninga Íslands og tollastefnu ESB – að vöruverð á Íslandi myndi hækka með inngöngu í Evrópusambandið.

Ísland hefur enda gengið mjög langt í viðleitni sinni til fríverslunar og frjálsræðis í viðskiptum.

Sama mynd var raunar dregin upp í greinargerð íslenskra stjórnvalda, sem unnin var samhliða aðildarviðræðum Íslands og ESB árin 2009-2013. Þar kom fram að aðild að tollabandalagi ESB hefði í för með sér verulegar breytingar á tollaframkvæmd, margföldun á mannafla tollsins og mikinn kostnað, en 75% af innheimtum tolli hér á landi hefðu runnið beint til ESB. Að auki hefðu tollabreytingarnar sérstaklega skaðleg áhrif á sjávarútveg, orkufrekan iðnað og landbúnað.

Evra eða dollar

Þetta með viðskiptamyntina skiptir einnig miklu máli. Útflutningsgreinar eru afar háðar gengi íslensku krónunnar þar sem samkeppnishæfni vöru og þjónustu veltur að miklu leyti á verði í þeim gjaldmiðli sem hún er seld. Gengi krónunnar hefur einnig áhrif á innflutninginn, sterk króna á að endurspeglast í lægra verði á innfluttum vörum.

Undanfarin ár hefur verðmæti útflutningsvöru sem seld er í Bandaríkjadölum numið nær tvöföldu verðmæti þeirrar, sem seld er í evrum, í krónum talið. Hins vegar nemur innflutningur á vörum sem keyptar eru í evrum meiru en innflutningur í dollurum. Því eru utanríkisviðskipti ekki eingöngu háð gengi krónunnar heldur einnig gengi helstu útflutningsgjaldmiðla.

Þetta skiptir einnig máli í annarri umræðu, sem eru gjaldmiðilsmálin. Þau sjónarmið hafa þannig reglulega heyrst í meira en öld að ráð væri að Íslendingar köstuðu krónunni og tækju upp aðra og gjaldgengari mynt. Síðastliðin ár hefur einkum borið á ákalli eftir því að evran yrði tekin upp hér á landi (einatt sem óbein herhvöt fyrir aðild að Evrópusambandinu), og vísað til þess að hún sé helsta viðskiptamynt landsins. En eins og dregið er fram í skýrslunni, þá er það raunar Bandaríkjadalur sem þar er í efsta sæti, og hann þar fyrir utan með einstaka stöðu sem alþjóðlegur gjaldmiðill. Skýrslan kynni því að hafa áhrif á þá umræðu.

Fríverslunarsamningar

Fríverslunarnet Íslands nær um þessar mundir til 74 ríkja, að meðtöldum þremur samningum sem bíða gildistöku. Fríverslunarsamningarnir tryggja í mörgum tilvikum tollfrjálsan aðgang fyrir íslenskar iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Þó eru undantekningar frá fullu tollfrelsi fyrir slíkar vörur og má nefna að ýmsar sjávarafurðir bera enn tolla við innflutning til ríkja ESB.

Af útflutningstölum Hagstofunnar fyrir 2019 má sjá að vöruútflutningur til þeirra ríkja sem Ísland hefur þegar gert fríverslunarsamninga við nam um 86% af heildarvöruútflutningi ársins. Það hlutfall er tæp 74% þegar horft er til samanlagðs útflutnings á vöru og þjónustu. Vöru- og þjónustuútflutningur til ríkja sem Ísland hefur hafið fríverslunarviðræður við ásamt hinum EFTA-ríkjunum nam rúmum 2% af heildarútflutningi 2019. Með aðild sinni að EFTA og EES-samningnum hefur Ísland náð að tryggja afar góða samkeppnisstöðu fyrir íslensk fyrirtæki.

Alls ná fríverslunarsamningar Íslands til 74 ríkja og landsvæða og tæplega 3,2 milljarða manna, rúmlega þriðjungs mannkyns. Þá bíður fríverslunarsamningur EFTA og Mercosur, tollabandalags Suður-Ameríku, undirritunar, svo útlit er fyrir að fríverslunarnet Íslands nái brátt til 77 landa og 3,4 milljarða manna. Þá standa yfir viðræður EFTA við Indland, Malasíu og Víetnam, en þar búa tæplega 1,5 milljarðar manna.

Gangi það allt eftir mun Ísland eiga í fríverslunarsambandi við ríki þar sem búa tæplega fimm milljarðar manna, um 2/3 hluta mannkyns.

Nýmarkaðir

Loks er í skýrslunni fjallað um framtíðarhorfur og hvernig markaðir muni að líkindum breytast á næstu árum. Talið er að þungamiðja alþjóðlegrar fríverslunar og viðskipta þokist áfram frá hefðbundnum mörkuðum í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu til nýmarkaðsríkja í Asíu sérstaklega, en einnig í Afríku og Suður-Ameríku.

Ekki er dregið úr mikilvægi hefðbundinna markaðssvæða Íslendinga, sem okkur standa næst, en hins vegar blasa tækifærin við í austurvegi. Í helstu ríkjum þar er ört vaxandi miðstétt, sem er að tileinka sér nýjar neysluvenjur. Í skýrslunni er lögð áhersla á að Íslendingar fylgist grannt með þróuninni þar og að tryggt sé að net viðskiptasamninga Íslands nái til þeirra markaðssvæða þar sem spáð er mestum vexti á næstu árum.