Axel Kvaran fæddist í Sigurhæðum á Akureyri 7. janúar 1932. Foreldrar hans voru Ágúst Kvaran, leikari og verslunarmaður á Akureyri, og kona hans Anna Eva Catherine Kvaran, fædd Schiöth. Systir Axels er Anna Lilja Kvaran, f. 28. október 1935. Systur Axels samfeðra eru Þórdís Edda Kvaran, fædd 21. ágúst 1920, látin 21. febrúar 1981 og Hjördís Briem, fædd 2. nóvember 1929.

Axel starfaði lengst sem aðalvarðstjóri í lögreglunni í Reykjavík en var líka um árabil forstöðumaður Skilorðseftirlits ríkisins. Hann var frumkvöðull í iðkun sjósunds á Íslandi og var ötull stuðningsmaður Knattspyrnufélags Akureyrar alla ævi. Eftirlifandi eiginkona hans er Jónína Ósk Kvaran.

Axel lést á hjúkrunarheimilinu Eir 12. apríl 2020. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fór útför fram í kyrrþey.

Faðir minn og alnafni hefði orðið 89 ára hinn 7. janúar. Hann lést síðastliðinn páskadag eftir stutt veikindi. Hann hafði verið heilsuveill síðustu tvö árin svo að baráttuþrekið var ekki mikið. Andlát hans fór hljótt í skugga heimsfaraldurs og langar mig því að minnast hans með nokkrum orðum.

Pabbi hafði eins og allir af hans kynslóð upplifað tímana tvenna. Hann fæddist á Akureyri á fyrri hluta síðustu aldar. Akureyri var þá lítill bær og voru uppvaxtarárin pabba kær. Á Akureyri hafði á árum áður sest að mikið af dönsku fólki og átti pabbi ættir að rekja til þeirra. Það má því segja að pabbi hafi alist upp í dansk-akureyrsku umhverfi og staðfesti það af eigin reynslu að á Akureyri var töluð danska á sunnudögum. Konur í móðurætt pabba stofnuðu Lystigarðinn á Akureyri. Varð það fastur liður í heimsóknum norður að heimsækja Lystigarðinn og taka hópmynd við brjóstmynd af formóður okkar Margréti Schiöth. Ég heimsótti oft Akureyri með pabba og sakna þess nú að hafa ekki skráð allar sögurnar hans úr bæjarlífinu.

Pabbi varð stúdent frá MA. Útskriftarhópur hans var samheldinn og átti pabbi þar kæra ævilanga vini.

Pabbi keppti í íþróttum fyrir KA á yngri árum og var mikill KA-maður. KA var stofnað á heimili afa hans og ömmu og KA-merkið aldrei langt undan. Bíllinn skartaði KA-fánanum og þegar einn okkar bræðra hljóp ofurmaraþon í Suður-Afríku var að sjálfsögðu tryggt að það væri KA-merki á hlaupabolnum.

Leiðin lá svo til Reykjavíkur í laganám. Það átti að vera stutt námsdvöl en aldrei flutti hann aftur til Akureyrar. Hann kynntist móður okkar og lífið tók við. Hann hafði unnið sem lögreglumaður með náminu og þar kom að hann hætti námi og gerði lögreglustörfin að ævistarfi. Hann fór til náms til Bandaríkjanna og var um árabil aðalvarðstjóri í lögreglunni í Reykjavík.

Í lögreglunni kynntist hann sjósundi og var frumkvöðull í þeirri íþrótt ásamt starfsfélaga sínum Eyjólfi Jónssyni. Synti hann meðal annars Drangeyjarsund og Vestmannaeyjasund. Þeir félagar ætluðu að reyna við Ermarsundið en urðu því miður að hætta við. Sundið var pabba kært og synti hann ætíð mikið.

Síðar varð hann forstöðumaður Skilorðseftirlits ríkisins og starfaði þar út starfsævina. Það starf átti vel við hann og átti umhyggja hans fyrir skjólstæðingum sínum oft ríkan þátt í að þeir sneru lífi sínu á betri braut. Ef maður var á gangi með pabba og hitti skjólstæðinga hans vildu þeir alltaf spjalla og greinilegt að þar var gagnkvæm virðing.

Pabbi var hægur maður með mikið jafnaðargeð og eins og tamt var um menn af hans kynslóð flíkaði hann ekki mikið tilfinningum sínum eða skoðunum. Ævi pabba spannaði miklar breytingar í íslensku þjóðlífi. Að mér hefur læðst grunur um að stundum hafi hann átt erfitt með að fóta sig í þeim miklu breytingum og umbrotum. Það var því gott að sjá að síðustu æviárin virtist pabbi hafa tekið lífið í sátt og átti áhyggjulaust ævikvöld í sátt við sig og sína.

Í lögreglunni átti hann í talsverðum samskiptum við herlögregluna og átti hann þar ævilanga vini sem komu síðar oft til Íslands. Einu sinni var ég á ferð með einum þeirra og þá barst talið að Íslandi og því hversu vel hann nyti þessara heimsókna. Þá sneri hann sér að mér og sagði: „And Axel, your dad is the nicest man I have ever met.“ Ég held ég láti það vera lokaorðin.

Axel Kvaran.