Vindrafstöð Kynntur hefur verið fjöldi vindorkugarða um allt land.
Vindrafstöð Kynntur hefur verið fjöldi vindorkugarða um allt land. — Ljósmynd/Zephyr
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sérstakar reglur verða settar um meðhöndlun vindorku í rammaáætlun, öðruvísi en nú gilda um vatnsafl og jarðvarma, samkvæmt frumvarpi sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sérstakar reglur verða settar um meðhöndlun vindorku í rammaáætlun, öðruvísi en nú gilda um vatnsafl og jarðvarma, samkvæmt frumvarpi sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Lagt er til að Alþingi samþykki samhliða stefnumörkun með þingsályktun um hvaða svæði landsins megi ekki nýta vegna náttúruverndar eða annarra þátta eða hugsanlega nýta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Frumvarp um breytingar á lögum um rammaáætlun og þingsályktunartillaga um stefnumótun við flokkun landsvæða með tilliti til þess hvort þar sé heimilt að byggja vindorkuver eru unnar upp úr skýrslu starfshóps þriggja ráðuneyta. Viðurkennt er að vindorkan lúti öðrum lögmálum en virkjun vatnsafls og jarðvarma þar sem vindurinn sé nánast ótakmörkuð orkuauðlind sem takmarkist aðallega af því landssvæði sem hægt er að nýta. Hægt sé að virkja hana nánast hvar sem er, þar sem nægilegur vindur og landrými er á annað borð fyrir hendi.

Ágreiningur hefur verið í stjórnkerfinu um það hvort vindorkan heyrði undir rammaáætlun vegna eðlis vindorkunnar. Í frumvarpinu er kveðið á um að vindorkukostir, 10 MW og stærri, heyri undir rammaáætlun en aðrar málsmeðferðarreglur gildi um hana en jarðvarma og vatnsafl.

Fyrirmynd sótt til Skotlands

Í skýrslu nefndarinnar eru raktir þeir rammar sem settir hafa verið um nýtingu vindorku í Noregi og Skotlandi til að skapa skýrleika og gagnsæi við nýtingu hennar. Telur nefndin að slíkur fyrirsjáanleiki sé ekki síður mikilvægur hérlendis.

Í Noregi var mikil vinna lögð í að greina þau landssvæði sem útilokuð voru frá vindorkunýtingu. Þá voru þau landssvæði sem hugsanlega gætu hentað til nýtingar vindorku greind nánar í tveimur umferðum. Út úr þessu kom vindorkukort sem kynnt var og reynst hefur ákaflega umdeilt. Er nú verið að huga að endurskoðun þess. Íslenski starfshópurinn taldi ekki að slík heildarkortlagning væri ráðleg, miðað við aðstæður hér.

Taldi hópurinn farsælla að taka mið af aðferðafræði Skota og laga að íslenskum aðstæðum. Hún byggist á að flokkun lands og náttúru verði notuð til grundvallar við staðsetningu vindorkuvera.

Í fyrsta lagi verði tilteknir landslagsflokkar með ákveðna eiginleika, til dæmis út frá náttúruvernd eða búsvæðum dýra eða annarrar sérstöðu, ekki taldir koma til greina til uppbyggingar vindorku. Í öðru lagi væri hægt að skilgreina að tilteknir aðrir landslagsflokkar með öðrum eiginleikum gætu hugsanlega komið til greina að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í þriðja flokknum yrðu landssvæði sem ekki tilheyrðu hinum flokkunum tveimur og þar yrði uppbygging heimil. Vísast til meðfylgjandi töflu til nánari upplýsinga um efnisliði flokkanna tveggja.

Vísað strax frá

Ekki er gert ráð fyrir að vindorkukostir verði flokkaðir í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk í rammaáætlun, eins og gert er með vatnsafl og jarðvarma, heldur verði aðeins litið til staðsetningar, samkvæmt fyrirframgefinni skilgreiningu.

Miðað er við að ef sótt er um vindorkuver á svæði þar sem uppbygging er ekki heimil verði umsókn vísað frá strax í upphafi. Ef sótt er um uppbyggingu vindorku á viðkvæmu svæði í öðrum flokki þarf umsóknin að fara til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar og niðurstaðan fer til ráðherra til staðfestingar eða synjunar.

Ef ætlunin er að virkja utan umræddra svæða þarf verkefnisstjórn rammaáætlunar að staðfesta að svo sé og síðan tekur við skipulagsferli á vegum sveitarfélags svo og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Geta valið um aðferð

Gert er ráð fyrir að frumvarp um breytingar á lögum um rammaáætlun taki gildi þegar þingsályktunartillaga um stefnumörkun hefur verið samþykkt á Alþingi. Lagt er til að þeir sem hafa tilkynnt vindorkukosti til umfjöllunar verkefnisstjórnar rammaáætlunar fái umfjöllun samkvæmt gildandi lögum. Þeir geti hins vegar valið að fá umfjöllun samkvæmt nýju ákvæðunum, ef þeir kjósa svo.