Slökkvilið Mikill eldur kviknaði í húsinu í gærmorgun. Hér má sjá hann.
Slökkvilið Mikill eldur kviknaði í húsinu í gærmorgun. Hér má sjá hann. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Húsið við Kaldasel í Breiðholti sem kviknaði tvisvar í á einum sólarhring var nýlega selt, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglustöðinni á Dalvegi. Ekki er vitað hversu margir bjuggu í húsinu. Þá eru eldsupptök enn ókunn.

Húsið við Kaldasel í Breiðholti sem kviknaði tvisvar í á einum sólarhring var nýlega selt, að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglustöðinni á Dalvegi. Ekki er vitað hversu margir bjuggu í húsinu. Þá eru eldsupptök enn ókunn.

Fyrst barst slökkviliði höfuðborgarsvæðisins útkall vegna elds í húsinu á sjöunda tímanum í gærmorgun. Klukkan tíu mínútur yfir átta í gærkvöldi barst slökkviliðinu aftur útkall vegna elds í húsinu. Þá voru allar stöðvar slökkviliðsins farnar af vettvangi nema ein.

Því var allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sent að húsinu í tvígang á einum sólarhring.

Slökkvistarfi lauk í annað sinn á ellefta tímanum í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu varð gríðarlegt tjón á húsinu. Mögulega þarf að rífa þak þess af til þess að opna það betur.