Framkvæmdir Fjölmargar umsóknir um hlutdeildarlán hafa borist.
Framkvæmdir Fjölmargar umsóknir um hlutdeildarlán hafa borist. — Morgunblaðið/Eggert
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Alls var 171 umsókn um hlutdeildarlán samþykkt á árinu 2020. Samtals bárust 327 umsóknir á tímabilinu, en verkefnið fór af stað í byrjun nóvembermánaðar í fyrra.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Alls var 171 umsókn um hlutdeildarlán samþykkt á árinu 2020. Samtals bárust 327 umsóknir á tímabilinu, en verkefnið fór af stað í byrjun nóvembermánaðar í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Talsvert var um að umsækjendur hættu við umsókn eða skiluðu ekki inn gögnum. Það gerði það að verkum að vinnsla viðkomandi umsóknar var stöðvuð. Þá var 34 umsóknum synjað auk þess sem 24 eru enn í vinnslu.

Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri stofnunarinnar, segir að umsóknafjöldinn það sem af er ári sé á svipuðu róli og í fyrra. Þannig hafi yfir 100 umsóknir borist í janúar. Um er að ræða fyrstu úthlutun af sex á árinu 2021, en umsóknarfrestur er til 31. janúar nk. „Það eru 120 umsóknir komnar í næstu úthlutun sem er fyrsta úthlutun af sex,“ segir Anna. Alls hafa borist 447 umsóknir um hlutdeildarlán frá því að verkefni fór af stað fyrir um þremur mánuðum.

Aðspurð segir Anna að áhugi sé meðal verktaka. Þannig hafi um 120 byggingaraðilar skráð sig fyrir um 3.216 íbúðum. „Um 58% þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu eða 1.876 íbúðir og 42% á landsbyggðinni eða 1.340 íbúðir,“ segir Anna og bætir við að nú þegar sé búið að samþykkja 931 íbúð sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán. „Af þessari 931 íbúð er 361 íbúð á höfuðborgarsvæðinu eða um 39% og 570 á landsbyggðinni eða um 570 íbúðir. Flestar íbúðir sem hafa verið samþykktar eru í Reykjavík, Akureyri og Reykjanesbæ.“

Til útskýringar þá þarf kaupandi að leggja út 5% kaupverðs íbúðar vilji hann nýta úrræðið. Í kjölfarið tekur umræddur aðili 75% lán, en ríkið leggur til það sem upp á vantar, eða 20% kaupverðs.