Mótmæli Tæplega 3.700 voru handteknir í 125 borgum á laugardaginn.
Mótmæli Tæplega 3.700 voru handteknir í 125 borgum á laugardaginn. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna ræddu í gær hvort beita ætti rússnesk stjórnvöld frekari viðskiptaþvingunum vegna máls stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní og viðbragða rússnesku lögreglunnar við fjöldamótmælum sem fram fóru í öllum helstu borgum Rússlands um helgina.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, mun heimsækja Moskvu í byrjun febrúar til þess að þrýsta á Kremlverja um að Navalní verði látinn laus úr haldi. Þá ákváðu utanríkisráðherrarnir að bíða um sinn með viðskiptaþvinganir, eða þar til ljóst verður hvort Navalní verði dæmdur til frekari fangelsisvistar, en réttað verður í máli hans 2. febrúar næstkomandi.

Nú þegar eru í gildi viðskiptaþvinganir á hendur Rússum vegna yfirtökunnar á Krímskaga árið 2014, auk þess sem nokkur ríki settu á viðskiptaþvinganir vegna eiturefnaárásarinnar á Navalní síðasta haust, sem leiddi til þess að hann var fluttur til Þýskalands til lækninga.

Boða frekari mótmæli

Navalní á yfir höfði sér allt að þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa ekki staðið við skilmála skilorðs síns, á meðan hann dvaldist í Þýskalandi. Leoníd Volkov, einn af samverkamönnum Navalní, kallaði eftir því að aftur yrði mótmælt næsta sunnudag. Sagði Volkov að mótmæli helgarinnar hefðu verið söguleg, en lögreglan handtók tæplega 3.700 manns í 125 mismunandi borgum á laugardaginn.

Neitar að eiga lystihöll

Stuðningsmenn Navalní birtu í síðustu viku myndband, þar sem hann kynnti rannsókn sína á meintri spillingu í Rússlandi. Beindi Navalní þar sérstaklega sjónum sínum að lystihöll við Svartahafið, sem hann sagði tilheyra Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Pútín neitaði í gær þeim ásökunum að hann eða nokkur af nánum skyldmennum sínum ættu eða hefðu átt viðkomandi landareign. Myndband Navalnís þar sem hann greindi frá höllinni hefur nú verið skoðað tæplega 87 milljón sinnum á vefsíðunni YouTube.

Sagði Navalní höllina þar vera „Versali“ Pútíns, og að hún væri dýrasta höll sem byggð hefði verið, en hún mun hafa kostað um 1,4 milljarða Bandaríkjadala í byggingu. Rakti Navalní einnig ýmsa meinta greiða sem hefðu verið inntir af hendi við byggingu hennar.