Þórarinn Guðmundsson fæddist 7. mars 1927. Hann lést 27. desember 2020.

Útför fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Það er dýrmætt að hafa átt afa og ömmur á sínum uppvaxtarárum og fyrir það erum við ólýsanlega þakklát.

Afi nafni var mikill vinur. Hann gaf sér alltaf tíma hvort sem var fyrir spjall, fræðslu eða bara samveru í þögn.

Við kunnum til að mynda skringilega mörg örnefni og blómaheiti, þökk sé afa.

Afi var þolinmóður og mjög hlýr. Ferðir með honum og ömmu í sumarbústaði, skoðunarferðir eða heimsóknir fram í sveit voru skemmtilegar og stundirnar voru ófáar þar sem við sátum og skoðuðum steinasafnið hans, lásum ljóð eða kíktum í hesthúsin.

Minningarnar eru margar og þær koma fram í hlýju ljósi, sátt og gleði. Við erum þakklát og rík fyrir tímann okkar saman elsku afi okkar.

Það er gott að hugsa til þess að þið amma hafið aftur sameinast og hvílið nú í nýrri vídd. Við munum sakna ykkar alla daga en gleðjumst yfir því að hafa átt ykkur að.

Þín

Þórarinn, Íris Helga og Elfur Sunna.