Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Eftir Einar Ingva Magnússon: "Mönnum er því miður ekki kennt að lifa eftir boðorðum himinsins."

Samferðamenn mínir eru að hverfa af sjónarsviðinu vegna takmörkunar líftímans og mér skilst æ betur hve lífið er stutt og hverfult. Sérstaklega finnur fólk fyrir þessu fyrirbæri sem komið er vel yfir miðjan aldur.

Eftirlifandi vinir mínir taka hamförum í umbreytingunni miklu og þegar ég sjálfur lít í spegil eða sé myndir eða myndskeið af sjálfum mér, sem tekin eru um þessar mundir, undrast ég yfir sjálfsmynd minni og spyr sjálfan mig hvaða gamli maður þetta sé sem fyrir augu mín ber. Ég er yngri í anda en útliti.

Þegar ég hugsa um líftíma mannsins undrast ég umfjöllun fjölmiðla, sem nánast eingöngu fjalla um veraldlega hluti, kaup og kjör, vexti og vísitölur, græðgi og gróða. Allt skal mælt í veraldarauði, eignum, bankainnistæðum, já, öllu því forgengilega sem mennirnir sækjast eftir af miklu offorsi.

Mönnum er því miður ekki kennt að lifa eftir boðorðum himinsins í þessu jarðríki veraldarhugsjóna, þar sem kærleikur og elska eru fótumtroðin af eiginhagsmunasýki og frægðarfaraldri fólks, sem eftir áratugi eða minna verður ekki annað en mold í gróinni gröf.

Undurfalleg samtímasystir mín er núna dáin. Fyrir fáeinum árum var hún á meðal fegurstu mannlegu blóma. Í dag fallin, hulin moldu undir gróandi grasi á sumrin en á vetrum hulin snjóhvítum feldi. Falleg mynd hennar lifir í huga mér og myndskeið í draumi, eins og viðburður gærdagsins; elskulegt andlit hennar ljúft í minningunni.

Örstutt lífsins stund þetta líf sem við lifum á jörðu, sem gefur þó von um miklu lengri veröld sem snýst um allt annað en ofgnótt munaðar, peninga og frægðar í tímanlegum heimi okkar mannanna.

Höfundur er áhugamaður um mannlífið. einar_ingvi@hotmail.com

Höf.: Einar Ingva Magnússon