Guðni Einarsson Jóhann Ólafsson Alls hafa 43 greinst með B.1.1.7, hið svokallaða „breska afbrigði“ kórónuveirunnar, þar af sjö innanlands. Einn greindist með Covid-19 innanlands í fyrradag.

Guðni Einarsson

Jóhann Ólafsson

Alls hafa 43 greinst með B.1.1.7, hið svokallaða „breska afbrigði“ kórónuveirunnar, þar af sjö innanlands. Einn greindist með Covid-19 innanlands í fyrradag. Tveir greindust með virkt smit í seinni skimun á landamærunum í fyrradag. Einn beið niðurstöðu mótefnamælingar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sá ekki ástæðu til að slaka frekar á sóttvarnaaðgerðum innanlands eins og er. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í gær.

Bólusetning ekki afþökkuð

Þess hefur ekki orðið vart hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) að fólk afþakki bólusetningu gegn Covid-19 eða mæti ekki þegar það er boðað til bólusetningar.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HH, sagði að ýmsar ástæður geti verið fyrir því að fólk komist ekki. „Við bólusetjum ekki fólk til dæmis ef fólk er veikt eða eitthvað svoleiðis. En við höfum ekki orðið vör við að fólk afþakki bóluefnið eða vilji það ekki. Það er frekar í hina áttina, fleiri sem vilja fá bóluefni en hægt er að bólusetja hverju sinni,“ sagði Ragnheiður.

Bóluefni frá Pfizer er blandað og sett í sprautur sem verður að nota innan ákveðins tíma. Hvað er gert við bóluefni ef eitthvað er eftir þegar búið er að bólusetja tiltekinn hóp?

„Á föstudaginn fórum við á dagdvalir og aðra staði til að bólusetja. Sumir höfðu ekki mætt á dagdvöl vegna veikinda og annars svo það komu sprautur til baka. Við söfnuðum þeim saman og fórum í íbúðakjarna á Norðurbrún þar sem eru þjónustuíbúðir fyrir fólk yfir sjötugu og kláruðum bóluefnið þar. Við erum alltaf með áætlun um hvar við ætlum að klára skammt hvers dags,“ sagði Ragnheiður.