Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "Nú skal sagan endurtekin með sölu Íslandsbanka. Hann er stútfullur af peningum, sem verða greiddir út í formi arðs."

Ég var svo barnalegur, að ég hélt að Bjarni Ben. ætlaði að snúa sér að loforðalistanum þegar hann baðst afsökunar og sagðist ekki geta sagt af sér. Það væru svo mörg stór mál, sem hann gæti ekki hlaupið frá. Nú hefur komið í ljós að stóra málið, sem hann yrði að klára fyrir lok kjörtímabilsins er að selja banka. Íslandsbanki skal seldur, hvað sem það kostar!

Sporin hræða:

Flestir muna, hvernig einkavæðing banka endaði 2008. Alla vega þeir, sem lentu í klóm hrægammasjóða og misstu heimili sín. Blessunarlega náðu framsýnir menn Íslandsbanka og Arion banka af hrægömmunum.

Bjarni vildi selja Arion banka. Framsýnir menn bentu á að bankinn væri stútfullur af peningum. Kaupendur myndu tæma hann með því að borga sér út arð. Betra væri að nýta forkaupsréttinn. Þá sagði Katrín, að ríkið ætti engan forkaupsrétt. Nokkrum vikum seinna féll hún frá forkaupsrétti.

Það gekk eftir, að nýju eigendurnir greiddu sér fljótlega út miljarða í arð, eins og áhættufjárfestar gera. Fróðlegt væri að reikna dæmið til enda og sjá svart á hvítu hvað þeir borguðu raunverulega fyrir Arion banka og hvað ríkið hefur misst af miklum arðgreiðslum.

Nú skal sagan endurtekin með sölu Íslandsbanka. Hann er stútfullur af peningum, sem verða greiddir út í formi arðs. Sala Landsbanka og Landsvirkjunar munu fylgja í kjölfarið. Sala þessara þjóðareigna verður rökstud með því að meira vanti til rétta af Covid-19-hallann.

Margir hafa rökstutt, að nú sé ekki rétti tíminn til að selja Íslandsbanka. Fagleg framsetning Odnýjar Harðardóttur í Silfrinu var frábær. Hún er örugglega einn besti fjármálaráðherra, sem við höfum átt.

Það besta sem Bjarni og Katrín gætu gert væri að að vanda sig og gefa þinginu tækifæri og tíma til að ræða málið. Sala bankans má alveg bíða fram á næsta kjörtímabil.

Bjarni fær þá tíma til að vinna niður loforðalistann og gæti sett eldri borgara í forgang. Katrín gæti farið yfir stefnu flokksins og hugleitt, hvort VG standi fyrir að Vilja Gefa auðlindir þjóðarinnar.

Höfundur er verkfræðingur og eldri borgari.

Höf.: Sigurð Oddsson