Íshellir Vegna fjölda gesta átti að takmarka aðgengi í íshella.
Íshellir Vegna fjölda gesta átti að takmarka aðgengi í íshella. — Morgunblaðið/RAX
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur ákveðið að tillögu svæðisráðs suðursvæðis þjóðgarðsins, að fella nú þegar niður áður ákveðnar fjöldatakmarkanir í samningum sem gerðir voru við fyrirtæki í atvinnutengdri starfsemi í íshellaferðir og jöklagöngur...

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur ákveðið að tillögu svæðisráðs suðursvæðis þjóðgarðsins, að fella nú þegar niður áður ákveðnar fjöldatakmarkanir í samningum sem gerðir voru við fyrirtæki í atvinnutengdri starfsemi í íshellaferðir og jöklagöngur veturinn 2020-2021. Ástæðan er sögð vera sú að nú sé orðið ljóst að sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda muni hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu á yfirstandandi ári og litlar líkur séu á að veruleg aukning verði á gestakomum ferðamanna til Íslands fyrr en árið 2022 miðað við þróun mála og áætlanir um bólusetningar.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu var ákveðið í fyrra að koma á fót kvótaúthlutunum og setja hámark á fjölda gesta sem mega fara daglega í íshellaferðir og jöklagöngur á fimm svæðum á sunnanverðum Vatnajökulsþjóðgarði til að létta álag ferðamanna á þessum stöðum. Slíkar ferðir voru flokkaðar sem takmörkuð gæði og var því takmarkað aðgengi í þær auglýst í fyrra og gengið til samninga við fyrirtæki sem bjóða upp á íshellaferðir og jöklagöngur á suðursvæðinu. „Eftir auglýsingu frá Vatnajökulsþjóðgarði var 26 fyrirtækjum úthlutað daglegum sætum samkvæmt samningi um atvinnutengda starfsemi í íshellaferðum og jöklagöngum veturinn 2020 – 2021,“ segir í frétt á vefsíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Tekið er fram að þrátt fyrir að nú hafi verið ákveðið að fella niður fjöldatakmarkanir í ljósi aðstæðna í ferðaþjónustu, þá gildi áfram að öðru leyti áðurnefndir samningar um atvinnutengda starfsemi.

omfr@mbl.is