Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bannað verður að nýta vindorku á nokkuð stórum hluta landsins, ef drög umhverfisráðherra að frumvarpi að breytingum á lögum um rammaáætlun og samhliða þingsályktunartillagu um stefnumörkun um flokkun landsvæða ná fram að ganga. Nær fyrirhugað bannsvæði yfir nokkuð á annað hundrað friðlýst svæði og svæði sem á að friðlýsa á næstunni, auk Vatnajökulsþjóðgarðs og óbyggðra víðerna á miðhálendinu.

Á öðrum viðkvæmum svæðum, til dæmis svæði innan 10 kílómetra frá friðlýstum svæðum og yfir 120 mikilvægum fuglasvæðum, er mögulegt að virkja vindorku að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Koma þau mál til kasta verkefnisstjórnar um rammaáætlun og umhverfisráðherra.

Sjálfkrafa vísað frá

Áformum um virkjanir á friðuðum svæðum verður aftur á móti sjálfkrafa vísað frá í upphafi ferils en verkefnisstjórn um rammaáætlun mun ekki hafa afskipti af áformum á svæðum utan bannflokkanna. Þar reynir frekar á skipulag sveitarfélaga og mat á umhverfisáhrifum.

Kallað hefur verið eftir sérstökum reglum um nýtingu vindorkunnar sem lýtur að mörgu leyti öðrum lögmálum en vatnsafl og jarðvarmi. Þeim kröfum er svarað með þeim tillögum sem nú hafa verið kynntar í samráðsgátt stjórnvalda.

Mikil áform

Mikill áhugi er á nýtingu vindorkunnar. Þannig var tilkynnt um 34 vindorkuver til núverandi verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Samanlagt afl þessara virkjana er 3.200 megavött. Þar fyrir utan eru Blöndulundur Landsvirkjunar sem er í nýtingarflokki frá fyrri verkefnisstjórn og Búrfellslundur sama fyrirtækis sem settur var í biðflokk en Landsvirkjun hefur nú endurhannað. Þar fyrir utan er vitað um eitt vindorkuver sem komið er í umhverfismatsferli en var ekki tilkynnt til rammaáætlunar.