Það er eftirtektarvert fyrir Íslendinga að fylgjast með málavafstri Skota um skilnað og ný bönd í sömu andrá

Skoski þjóðarflokkurinn er í sérkennilegri stöðu. Hann er líkt og flokkssystur hans, Samfylking og Viðreisn, dæmigerður eins máls flokkur og stendur ekki fyrir neitt annað en það. Skoski flokkurinn hefur barist fyrir sjálfstæði frá öðrum Bretum. En þeir eru þó ekki sjálfstæðari en það, að í sömu andrá og flokksforystan ber bumbur fyrir nýafgreiddu máli, lætur forysta hans eins og hún vilji, strax eftir að hún sé laus við Breta, ganga lóðbeint í Evrópusambandið! Fara sem sagt í sjálfstæðisefnum undir miklu fjarlægara vald sem ekki þekkir haus eða sporð á skoskri sögu og telur ekki þess virði að kynna sér hana. Kjörorðið gæti verið: „Úr ösku í eld“.

En málflutningurinn um það atriði er þó í skötulíki, hvernig sem til hans er horft. Evrópusambandið hefur raunar aldrei tekið í fullri alvöru undir þetta óráðshjal. Forystumenn á þeim bæ hafa svo sem ekkert á móti því að stjórnvöld í London, sem hafa nóg á sinni könnu, séu trufluð dálítið með óskiljanlegum uppákomum í tengslum við mál sem var afgreitt til áratuga fyrir stuttu. En þeir sömu leyna því lítt við aðra að á slíka inngöngubeiðni yrði aldrei litið í neinni alvöru. Leyfðu búrókratar í Brussel sér eitthvað í þá áttina væru þeir sjálfir komnir í ógöngur sem þeir sæju ekki út úr. Belgar, Spánverjar, Frakkar og reyndar fleiri myndu ekki kunna þeim þakkir, svo vægt sé til orða tekið. Og þar eru a.m.k. tvær þjóðir af þremur sem búrókratar yrðu að taka nokkurt tillit til, sem aldrei er gert gagnvart smáþjóðum í Brussel.

Enda myndi slíkt fikt, óábyrgt og heimskulegt, draga dilk á eftir sér, og fleiri en einn. Þar með yrði til að mynda kippt endanlega öllum stoðum undan aldagömlum illindum og kröfum Spánverja um að fá Gíbraltar til baka. Því ekki fer á milli mála að íbúar við klettinn mikla vilja ekki fyrir nokkurn mun falla undir forræði stjórnarinnar í Madrid. Ef það fordæmi yrði sett sem meginregla skrifræðisbáknsins í Bussel væri Gíbraltarmálið endanlega dautt.

Þess utan gæti Hæstiréttur Spánar ekki með góðu móti fangelsað sjálfur þá sem tala fyrir sjálfstæði í Katalóníu, með óáfrýjanlegum úrskurðum á fyrsta dómstigi, eftir að hafa haldið mönnum föngnum um langa hríð, einnig án þess að slíkum úrskurðum verði áfrýjað.

Og áðurnefndar þjóðir og fleiri til kynnu Brussel litlar þakkir fyrir.

En Evrópusambandið hefur einnig bent á að forráðamenn Skoska þjóðarflokksins séu fjarri því að hafa sín mál á hreinu. Í eintali sínu um samningsgerð við ESB hafi þeir sagst mundu halda áfram með breska pundið, sem væri áfram stýrt frá London, þótt þeir sjálfir væru horfnir úr stjórnskipulegu sambandi við England. Sundurslitamenn benda á að Bretar hafi getað haldið sinni mynt þrátt fyrir veruna í ESB. En það var þá. Nýir innlimaðir ættu ekki kost á slíku. Reglurnar eru nú algjörlega skýrar í þeim efnum.

En þess utan yrðu Skotar í allt annarri stöðu en Bretland. Þeir hefðu ekki undanþágu til að hafa eigin mynt sem sjálfstæður banki þeirra myndi annast og ábyrgjast, sem er ekki lengur heimilt. Þeir væru að biðja um að fá að halda í mynt annarrar þjóðar sem væri horfin úr ESB!

Þess utan segjast Skotar ekki mundu gefa fiskveiðiréttindi sín eftir við ESB færu þeir inn! Réttindi sem Boris Johnson er nýbúinn að tryggja þeim nú. En raunveruleikinn segir allt aðra sögu. Ef þessar ókræsilegu trakteringar og fleiri myndu fylgja með í spurningaleikjum skoðanamælinga er hætt við að niðurstaða þeirra yrði allt önnur og lakari.

En svo er hitt. Þegar loks var látið eftir nuddi og nöldri um atkvæðagreiðslu um skilnað Skota þá var ítrekað og enginn ágreiningur gerður um það, að þetta væri einstök ákvörðun og yrði ekki endurtekin í núlifandi manna minnum. Og það sem meira var, sú staðreynd varð helsta svipan sem áhugamenn um útgöngu notuðu í sinni kosningabaráttu! „Þetta verður eina tækifærið sem þið fáið til að ákveða sjálfstæði í margar kynslóðir,“ sögðu talsmenn Skoska þjóðarflokksins. Og reyndar var sú brýning talin þeirra alöflugasta vopn í kosningabaráttunni. En dugði ekki til.