Á Dalatanga Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir og Marzibil Erlendsdóttir.
Á Dalatanga Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir og Marzibil Erlendsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Mæðgurnar Marzibil Erlendsdóttir og Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir, bændur á Dalatanga í Mjóafirði, tengdust við umheiminn þegar ljósleiðari var lagður til þeirra í haust og finnst þær hafa himin höndum tekið. „Þetta var mikil bylting og ég er enn í menningarsjokki,“ segir Marzibil, sem hefur búið þar sem vegurinn endar frá átta ára aldri, í um 53 ár að frátöldum skólatímanum.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Mæðgurnar Marzibil Erlendsdóttir og Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir, bændur á Dalatanga í Mjóafirði, tengdust við umheiminn þegar ljósleiðari var lagður til þeirra í haust og finnst þær hafa himin höndum tekið. „Þetta var mikil bylting og ég er enn í menningarsjokki,“ segir Marzibil, sem hefur búið þar sem vegurinn endar frá átta ára aldri, í um 53 ár að frátöldum skólatímanum.

Úrkoman á Seyðisfirði, sem olli aurflóðunum þar skömmu fyrir jól, náði ekki í eins miklum mæli á Dalatanga og Marzibil segir að þær séu ekki í hættu vegna aurflóða og skriðufalla. „Hér getur rignt mjög mikið í suðaustanátt og þá geta fallið skriður eða orðið grjóthrun á leiðinni í Brekkuþorp, en ekkert í líkingu við það sem gerðist á Seyðisfirði.“ Vegurinn hafi lokast einu sinni vegna snjóflóða fyrir jól, en auðvelt hafi verið að opna aftur með gröfu og síðan hafi nær verið auð jörð nema hvað byrjaði að snjóa fyrir helgi og í gær var vegurinn ófær.

Gott líf í einangrun

Erlendur Magnússon og Elfrid Pálsdóttir voru bændur og vitaverðir í Siglunesi, en fluttu með sjö börn á Dalatanga 1968. Marzibil byrjaði ung að aðstoða foreldra sína og þegar þau fluttu á Egilsstaði 1994 tóku hún og Heiðar Woodrow Jones, eiginmaður hennar sem lést 2014, við búinu, veðurathugunum og vitavörslunni. Aðalheiður fór að heiman í skóla, hefur búið víða en kom oft á annatíma og flutti alfarið á Dalatanga 2015. „Við erum með um 100 rollur, fjóra hesta, holdakanínur, endur, kisu og eina eldgamla hænu, eina litla terrier-tík og sex border collie-hunda, sem ég rækta og þjálfa auk þess sem ég tem líka fyrir aðra.“

Á Dalatanga eru tveir vitar, sá eldri frá 1895 og hinn frá 1908, en hann var endurbyggður 1918. Reglubundnar veðurmælingar hafa verið þarna frá 1938. Eftir að ljósleiðarinn kom eru hitinn, loftvogin og vindstyrkurinn mæld sjálfvirkt en þær taka sjólag, skýjafar, skýjahæð, snjódýpt, skyggni, veðrið og úrkomumagn tvisvar á sólarhring. „Nú er þetta bara veðurathugun og vitagæsla, engin vinna í samanburði við það sem áður var,“ segir Marzibil. Halda þurfi vitanum við, skipta um perur og setja ljósavélarnar í gang fari rafmagnið auk þess sem þær sýni ferðamönnum inn í vitann vilji þeir það. Marzibil leggur áherslu á að ljósleiðarinn skipti mestu máli í sambandi við öryggismál á landi og sjó og öryggið aukist enn eftir að gsm-sambandi verði komið á í apríl.

Ljósleiðarinn hefur komið þeim inn í 21. öldina. „Nú getum við gert allt það sama og aðrir; unnið í tölvu, aflað upplýsinga á netinu og horft á sjónvarp án truflana,“ segir Marzibil. Áður var netsamband í gegnum gervihnattadisk en það var stopult og stöðugt að detta út. „Við erum reyndar ekki mikið í þessu drasli en keyptum nýtt sjónvarp því ekki var hægt að tengja gamla tækið við myndlykilinn.“

Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki haft mikil áhrif á mæðgurnar. Dalatangi er ekki beint í alfaraleið og oft er ófært þangað á veturna. Ferja gengur á milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar tvisvar í viku á veturna og þegar landleiðin er lokuð kemur póstbáturinn frá Brekkuþorpi vikulega. Áhöfnin setur út gúmmíbát og menn koma á honum upp að klöppunum, þar sem þær taka á móti varningi. „Á þessum tíma í fyrra var alltaf vont í sjóinn og nær ófært til okkar í febrúar og mars.“

Þótt þær séu einangraðar eru þær samt við öllu búnar. „Við fórum á Egilsstaði áður en heiðin lokaðist í haust og keyptum andlitsgrímur til að nota þar. Við verðum líka að passa okkur ef einhver sem gæti hugsanlega verið smitaður þvælist hingað, en auðvitað kemur enginn og því þurfum við ekki grímur.“