Kórónuveiran Hjúkrunarfræðingur sinnir sjúklingi í Frakklandi.
Kórónuveiran Hjúkrunarfræðingur sinnir sjúklingi í Frakklandi. — AFP
Bandaríska líftæknifyrirtækið Moderna tilkynnti í gær að bóluefni þess ætti að virka gegn helstu afbrigðum kórónuveirunnar sem komið hafa fram.

Bandaríska líftæknifyrirtækið Moderna tilkynnti í gær að bóluefni þess ætti að virka gegn helstu afbrigðum kórónuveirunnar sem komið hafa fram. Stephane Bancel, framkvæmdastjóri Moderna, sagði að hinar nýju upplýsingar um hvernig bóluefnið virkaði gegn nýju afbrigðunum væru hughreystandi, en sagði að fyrirtækið myndi áfram prófa efnið. Nú er Moderna einkum að skoða hvernig efnið virkar með þremur skömmtum á mann með nokkurra vikna millibili í stað tveggja áður.

Ríki heims hafa tekið til við að loka landamærum sínum síðustu daga og vikur vegna hinna nýju afbrigða, sem fyrst greindust í Bretlandi og Suður-Afríku, en þau eru sögð meira smitandi og mögulega einnig með hærri dánartíðni hjá vissum aldurshópum en fyrri afbrigði veirunnar.

Frakkar, Ísraelar og Svíar eru á meðal þeirra þjóða sem hafa sett á hertar ferðatakmarkanir að undanförnu og hugðist Bandaríkjastjórn í gær endurnýja ferðabann á erlenda ríkisborgara sem hafa verið í Bretlandi, Brasilíu og Suður-Afríku, sem og önnur ríki sem hafa átt í vandræðum með faraldurinn, en þar á meðal eru flest ríki Evrópu. Joe Biden Bandaríkjaforseti setti í síðustu viku á skyldu til að þeir sem kæmu til Bandaríkjanna færu í sóttkví.

255 milljón störf glötuðust

Áhrif heimsfaraldursins eru enn að koma í ljós, en Alþjóðavinnumálastofnunin ILO sagði í gær að um 255 milljónir starfa hefðu glatast á síðasta ári vegna kórónuveirunnar. Væri það um það bil fjórum sinnum meira en hefði glatast í alþjóðlegu fjármálakreppunni árið 2009.

Guy Rider, yfirmaður ILO, sagði að kórónuveirukreppan hefði verið sú versta fyrir atvinnulíf frá kreppunni miklu á fjórða áratugnum.