Snjólaug Bruun lést á öldrunardeild Landspítalans á Vífilsstöðum 23. janúar síðastliðinn, á 90. aldursári. Snjólaug var fædd í Reykjavík 23. september 1931.

Snjólaug Bruun lést á öldrunardeild Landspítalans á Vífilsstöðum 23. janúar síðastliðinn, á 90. aldursári.

Snjólaug var fædd í Reykjavík 23. september 1931. Hún ólst upp í Reykjavík hjá foreldrum sínum Kaj Aage Bruun sjóntækjafræðingi, sem flutti hingað á fyrrihluta aldarinnar frá Danmörku, og Snjólaugu Sigurðardóttur skrifstofukonu og húsmóður. Bróðir Snjólaugar er Knútur Bruun lögmaður.

Snjólaug lauk námi í ljósmyndun hjá Vigfúsi Sigurgeirssyni á sínum tíma en starfaði lengst af sem húsmóðir á stóru heimili. Einn vetur lagði hún stund á nám í Danmörku og var alla tíð nátengd sínum danska uppruna. Bjó lengst af í Reykjavík en einnig í Hveragerði og Kópavogi á seinni árum.

Áhugamálin voru hönnun af öllu tagi, myndlist arkitektúr og blómaskreytingar. Þá ferðaðist Snjólaug mikið, sérstaklega innanlands, eftir að börnin voru flogin úr hreiðrinu og stundaði meðal annars stangveiði sér til ánægju.

Árið 1953 giftist Snjólaug Bjarna Kristjánssyni vélaverkfræðingi, fyrrum rektor Tækniskóla Íslands, sem lést árið 2019. Þau eignuðust sex börn sem öll lifa foreldra sína utan Kristín Ellen Bjarnadóttir, sem lést árið 2009. Afkomendurnir eru orðnir 48 og kom sá síðasti í heiminn fyrir aðeins örfáum dögum.