Jóna Kristjánsdóttir fæddist 17. september 1926. Hún lést 11. janúar 2021.

Útförin fór fram 22. janúar 2021.

Nú þegar komið er að kveðjustund rifjast gamlar minningar um Jónu frænku upp fyrir okkur systkinum. Hún og móðir okkar Þórunn voru systradætur og miklar vinkonur. Jóna sagði oft að þær væru eins og systur.

Í huga okkar birtist mynd af mömmu og Jónu.

Þær sitja í eldhúsinu hennar mömmu með kaffibolla og rifja upp gamla tíma. Þær hlæja svo innilega að það er ekki hægt annað en að hlæja með. Það var oft mikið fjör þegar sá gállinn var á frænku, talað hátt og hlegið dátt.

Önnur minning sem við eigum um Jónu er talsvert ólík þeirri fyrri en hún er þegar þær frænkur sitja hvor í sínum stólnum inni í stofu, kveikt á sjónvarpinu og dagskráin rúllar áfram en þær sofa báðar, önnur með höfuðið ofan í bringu en hin hallaði út á hlið.

Margar fleiri góðar minningar eigum við um frænku okkar frá því við bjuggum í foreldrahúsum en þær geymum við með okkur og brosum yfir þeim.

Ástvinum Jónu sendum við samúðarkveðju.

Freyja, Sveinn,

Elísa og Rúna.