Ásmundur fæddist í Engidal í Bárðardal 23. maí 1932. Hann lést 9. janúar 2021 á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík.

Foreldrar hans voru Valdemar Ásmundsson, bóndi á Halldórsstöðum I, f. 17.5. 1899, d. 3.5. 2000, og Kristlaug Tryggvadóttir, ljósmóðir og húsmóðir á Halldórsstöðum I, f. 27.3. 1900, d. 7.9. 1981.

Ásmundur var elstur fjögurra systkina: Hulda Þórunn Valdemarsdóttir, f. 2.6. 1935, d. 16.12. 2018. Hún var gift Jóni Aðalsteini Hermannssyni, f. 17.1. 1937, og áttu þau þrjú börn.

María Valdemarsdóttir, f. 7.3. 1941, d. 3.4. 1968. Hún átti einn son.

Tryggvi Valdemarsson, f. 25.8. 1942. Hann er kvæntur Svanhildi Sigtryggsdóttur, f. 12.6. 1948. Þau eiga fimm börn.

Ásmundur stundaði nám við smíðadeild Laugaskóla í Reykjadal og í trésmíði við Iðnskólann á Akureyri. Hann hóf störf í brúarvinnuflokki Jónasar Snæbjörnssonar árið 1953 og vann hjá honum meðan flokkurinn starfaði. Síðan var Ásmundur hjá Gísla Gíslasyni þar til sá flokkur var lagður niður. Síðustu 12 árin sem brúarvinnuflokkur Gísla Gíslasonar starfaði vann Ásmundur á Sauðárkróki á veturna við ýmis störf hjá Vegagerðinni en síðan þrjú ár á Húsavík þar til hann hætti störfum í maí 2000.

Útför Ásmundar fer fram frá Dalvíkurkirkju 26. janúar 2021 kl. 13.30. Streymt verður frá athöfninni á facebook-síðunni Jarðarfarir í Dalvíkurkirkju:

https://tinyurl.com/ybyrjnmy

Virkan hlekk á slóð má finna á: https://www.mbl.is/andlat

Við Ásmundur frændi áttum góð samskipti en ekki mikil. Hann hafði hlýja nærveru og stutt var í húmorinn.

Hann var 17 árum eldri en ég sem vissi þó alltaf af honum, brúarsmiðnum, og vissi líka að hann hlaut að vera góður maður - sonur Valda –sem var einstakur á allan hátt, og Kristlaugar (Laugu), móðursystur minnar, sem var ljósmóðir og tók á móti okkur systkinunum flestum. Var það að tilstuðlan Laugu frænku sem ég kynntist Ásmundi betur. Hún var fædd árið 1900 og um áramótin 1977-1978 þurfti hún að fara í aðgerðir á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Hafði hún samband og spurði hvort þau Ásmundur gætu fengið inni hjá okkur hjónum. Það var auðvitað sjálfsagt. Settur var gangráður í Laugu fyrir jólin og tjáðu læknarnir henni að þeir hefðu byrjað á að styrkja hjartað þar sem hin aðgerðin reyndi mikið á. Ásmundur fór daglega til móður sinnar. Þau mæðgin voru svo hjá okkur yfir hátíðina. Þegar synir okkar hjóna tveir höfðu opnað jólapakkana og spenningurinn var að mestu liðinn hjá skrapp Ásmundur inn í herbergi sitt. Þaðan kom hann með tvær fallegar bækur í stóru broti og rétti strákunum. Enginn pappír, bara „gjörðu svo vel“ en það var nóg, drengirnir urðu himinlifandi. Lauga var svo skorin upp fljótlega eftir jólin og Ásmundur fór áfram til hennar hvern dag. Eiginmaður minn var um þetta leyti að búa jeppann okkar undir sprautun og fór Ásmundur daglega út í bílskúrinn að hjálpa til, það þurfti ekki að ræða. Næstu árin leit hann oftast inn til okkar ef hann átti leið í bæinn. Það var notalegt.

Ásmundur fæddist með fótagalla, líklega of stuttar hásinar, og útlit var fyrir að hann gæti ekki gengið.

Tómas, móðurbróðir hans, var í háskólanámi í Kaupmannahöfn um þetta leyti og fann lækni sem treysti sér að gera aðgerð á fótum barnsins. Lauga fór því út með hann síðla árs 1934 – á skipi – og drengurinn var lagður inn á sjúkrahús þar sem hann var nokkra mánuði. Á þessum árum var ekki mikið hugsað um andlega líðan fólks, hvað þá barna, og ákveðið að móðirin kæmi ekki á sjúkrahúsið til drengsins – hann grét jú þegar hún fór frá honum.

Ásmundur var eflaust farinn að skilja mælt mál töluvert en þarna var hann skilinn eftir einn meðal ókunnugra sem töluðu tungumál sem hann skildi ekki, hvað þá að hann gæti tjáð sig. Ég man að það tók á Laugu frænku að segja frá þessu. En eftir aðgerðina gekk Ásmundur frændi á eigin fótum, aðeins innskeifur, en traustur, hlýr og æðrulaus.

Ásmundur vann ávallt við brúarsmíði og svo lengi að hann tjáði mér eitt sinn að hann hefði uppgötvað að hann væri orðinn gamall þegar synir fyrstu vinnufélaganna voru farnir að vinna með honum. En mér fannst hann ekkert breytast. Í fríum var hann yfirleitt heima á Halldórsstöðum. Hann var lipur smiður og hjálpaði oft nágrönnum. Seinna keypti hann sér íbúð á Húsavík en síðast var hann á hjúkrunarheimili á Dalvík.

Ég minnist Ásmundar frænda með þakklæti og hlýju og sendi nánustu aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Guðrún Pálsdóttir.