Tökur Minnst fimm nýjar íslenskar kvikmyndir eru á teikniborðinu í ár.
Tökur Minnst fimm nýjar íslenskar kvikmyndir eru á teikniborðinu í ár. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta verður fyrsta bíómynd mín í rúm tíu ár sem er mér og mínum mikið gleðiefni. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni, bæði verður leikhópurinn frábær og svo er þetta öðruvísi mynd en ég hef áður gert,“ segir Hilmar Oddsson kvikmyndaleikstjóri.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta verður fyrsta bíómynd mín í rúm tíu ár sem er mér og mínum mikið gleðiefni. Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni, bæði verður leikhópurinn frábær og svo er þetta öðruvísi mynd en ég hef áður gert,“ segir Hilmar Oddsson kvikmyndaleikstjóri.

Hilmar hefur fengið vilyrði fyrir 110 milljóna framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands til að gera kvikmyndina Á ferð með mömmu. Hlín Jóhannesdóttir framleiðir og nú er unnið að framhaldsfjármögnun í öðrum löndum. Myndinni er lýst svona á vef Kvikmyndamiðstöðvar: „Þegar móðir Jóns og hans mesti áhrifavaldur fellur frá verða alger umskipti í lífi hans. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta.“

Þröstur Leó Gunnarsson leikur Jón og Kristbjörg Kjeld leikur mömmu hans. Þá fer Hera Hilmarsdóttir, dóttir leikstjórans, með stórt hlutverk í myndinni. Tökur hefjast í ágúst.

„Ég er búinn að stefna leynt og ljóst að því að gera þessa mynd í 25 ár þannig að þetta er einhver lengsta meðganga kvikmyndar sem um getur. Það er reyndar gott þegar hlutir fá að veltast í undirmeðvitundinni lengi, ég finn það núna þegar ég vinn að þessu verkefni,“ segir Hilmar sem segir hugmyndina hafa orðið til eftir samtal hans og Þrastar Leós við gerð myndarinnar Tár úr steini 1994. „Við vorum á Bíldudal og hann var að segja mér sögur úr sínum heimahögum. Úr varð hugmynd sem ég gleymdi aldrei. Aðalhlutverkið er því brennimerkt Þresti Leó,“ segir leikstjórinn.

Fleiri kvikmyndir eru í farvatninu í ár. Tökur eru hafnar á Abbababb! í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur. „Vegna Covid dreifast tökur meira en ella. Fólk er að taka hlé, þetta er flóknara tímabil en venjulega,“ segir Nanna Kristín sem skrifaði handritið sem byggist á söngleik Dr. Gunna. Hún segir að myndin verði dans- og söngvamynd fyrir alla fjölskylduna. „Grunnurinn og boðskapurinn verður sá sami þó ýmislegt breytist. Þetta verður ótrúlega skemmtilegt,“ segir Nanna sem segir ekki tímabært að ljóstra upp um leikara í myndinni. Hún getur þess þó að Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson útsetji og semji tónlist, Valgerður Rúnarsdóttir sé danshöfundur og Ásgrímur Guðbjartsson sjái um kvikmyndatöku. Ekki liggur fyrir hvenær myndin verður frumsýnd.

Auk þessara tveggja mynda hafa þrjár kvikmyndir fengið vilyrði um framleiðslustyrk í ár; Fálkar að eilífu sem Óskar Þór Axelsson leikstýrir, Northern Comfort sem Hafsteinn Gunnar Sigurðsson stýrir og Volaða land eftir Hlyn Pálmason.

Mikið af nýju efni í pípunum

Allt að þrettán íslenskar kvikmyndir og átta sjónvarpsþáttaraðir gætu verið frumsýndar á árinu, samkvæmt yfirliti á Klapptré.is. Meðal kvikmynda eru Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur, Saumaklúbburinn sem Gagga Jónsdóttir leikstýrir, en myndin er einskonar systurmynd Veiðiferðarinnar, og Skjálfti sem Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir. Sú mynd er byggð á bók Auðar Jónsdóttur og Anita Briem fer með aðalhlutverkið. Tvær aðrar myndir sem byggðar eru á þekktum skáldsögum eru í pípunum; Svar við bréfi Helgu sem Ása Helga Hjörleifsdóttir gerir og Sumarljós og svo kemur nóttin í leikstjórn Elfars Aðalsteinssonar. Af þáttaröðum má nefna Kötlu, Ófærð 3 og Stellu Blómkvist 2.