[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Bein erlend fjárfesting í heiminum öllum dróst saman um 42% á síðasta ári, samkvæmt Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, UNCTAD. Bein erlend fjárfesting í heiminum var 1,5 trilljónir Bandaríkjadala árið 2019, en var 859 milljarðar dala á síðasta ári.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Bein erlend fjárfesting í heiminum öllum dróst saman um 42% á síðasta ári, samkvæmt Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, UNCTAD. Bein erlend fjárfesting í heiminum var 1,5 trilljónir Bandaríkjadala árið 2019, en var 859 milljarðar dala á síðasta ári.

Segir UNCTAD í nýrri skýrslu að óvissa vegna framvindu kórónuveirufaraldursins valdi áframhaldandi neikvæðum áhrifum á erlenda fjárfestingu í heiminum árið 2021.

Sögulega lágar tölur

Í frétt um málið sem birt er á vef UNCTAD segir að jafn lágar tölur hafi ekki sést síðan á tíunda áratug síðustu aldar, og fjárfestingin sé 30% undir fjárfestingu í kjölfar fjármálahrunsins 2008 – 2009.

Í frétt BBC af málinu er bent á að Kína hafi nú í fyrsta skipti tekið fram úr Bandaríkjunum sem það land sem fær mestu beinu erlendu fjárfestinguna. Kína, sem var með 140 milljarða dala fjárfestingu árið 2019, óx um fjögur prósent á síðasta ári upp í 163 milljarða dala. Á sama tíma dróst fjárfesting í Bandaríkjunum saman um 47% og fór úr 251 milljarði dala niður í 134 milljarða.

Í frétt BBC er bent á að þó að Kína sé nú í forystu hvað nýja beina erlenda fjárfestingu varðar, tróni Bandaríkin enn á toppnum þegar kemur að beinni erlendri fjárfestingu samtals. Það endurspegli þá staðreynd að landið hafi í áratugi verið mest aðlaðandi staðurinn í heiminum fyrir erlend fyrirtæki sem vilja færa út kvíarnar í nýju landi.

Sérfræðingar í frétt BBC segja að tölurnar núna undirstriki sókn Kína inn að miðju heimshagkerfisins, þar sem Bandaríkin, stærsta hagkerfi í heimi, hafa verið leiðandi aðili um langt skeið.

BBC segir einnig með vísan í spá rannsóknarstofnunarinnar Centre for Economics and Business Research, að Kína muni taka fram úr Bandaríkjunum árið 2028 hvað varðar beina erlenda fjárfestingu samtals.

Mjög lítil fjárfesting hér á landi

Á Íslandi hefur einnig dregið verulega úr erlendri fjárfestingu á síðustu árum og hefur fjárfesting almennt leitað frá landinu, eins og segir í tillögum sem Viðskiptaráð Íslands sendi frá sér í byrjun desember sl. og fjallað var um í Morgunblaðinu. Konráð S. Guðjónsson aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs sagði þá við Morgunblaðið að ráðið teldi mögulegt að draga úr óbeinum hindrunum sem standi í vegi fyrir erlendri fjárfestingu hér á landi. Það sjáist á t.d. á gögnum OECD að óvíða séu meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu meðal aðildarríkja samtakanna.

Konráð segir í samtali við Morgunblaðið að bein erlend fjárfesting hafi síðustu misseri verið mjög lítil sem hlutfall af landsframleiðslu og Ísland standi nágrannalöndunum langt að baki.

„Erlend fjárfesting skiptir mjög miklu máli er kemur að því að byggja upp nýjar og gamlar atvinnugreinar, og getur stutt við flestan atvinnurekstur. Í þeirri stöðu sem við erum í núna vantar sárlega fjárfestingu, enda mikið atvinnuleysi. Það er til mikils að vinna að laða erlent fjármagn til landsins,“ segir Konráð.

Hann segir að þegar rofi til í faraldrinum og fé byrji aftur að flæða á milli landa, hljóti að myndast tækifæri í þessum efnum.

Aukning á þessu ári

Spurður um mat á því hvort gera megi ráð fyrir aukningu á þessu ári segir Konráð að vel gæti farið svo. Margt lítið geri eitt stórt. „Vísisfjárfesting var til dæmis óvenjukröftug í fyrra, og það er ekki óvarlegt að hafa væntingar um að það haldi áfram og geti birst í beinni erlendri fjárfestingu á næstu misserum, sem færi þá í að byggja upp nýja tækni, fyrirtæki og fjölbreytta starfsemi. Sérstaklega ef við sjáum óvissuna vegna veirunnar minnka, þá má hafa fulla trú á að við sjáum aukningu aftur á þessu ári.“

Þróuð lönd misstu mest

Eins og fram kemur í skýrslu UNCTAD og sjá má á meðfylgjandi mynd urðu þróuð lönd fyrir mestum samdrætti á árinu í Bandaríkjadölum talið, en bein erlend fjárfesting dróst saman um 69%, eða úr 730 milljörðum dala niður í 229 milljarða dala.

Í einstaka Evrópulöndum má þó sjá ljós í myrkrinu. Fjárfesting í Svíþjóð jókst til að mynda úr 12 milljörðum dala upp í 29 milljarða dala, og á Spáni varð 52% vöxtur, sem einkum er rakið til nokkurra viðskipta, eins og fjárfestingu bandarísku fyrirtækjanna KKR og Providence sem keyptu 86% í fjarskiptafyrirtækinu Masmovil.

Þegar litið er til annarra þróaðra hagkerfa dróst erlend fjárfesting í Ástralíu saman um 46%, og féll niður í 22 milljarða Bandaríkjadala. Í Ísrael hins vegar jókst fjárfesting úr 18 milljörðum dala upp í 26 milljarða.

Erlend fjárfesting
» Óvissa með fjárfestingu á þessu ári vegna veirunnar.
» Talið að Kína taki fram úr Bandaríkjunum árið 2028.
» Fjárfesting í Svíþjóð jókst úr 12 milljörðum Bandaríkjadala upp í 29 milljarða dala.